Reglur um úthlutun atvinnumálaframlaga

Samkvæmt stefnumörkun Súðavíkurhrepps fyrir árin 2005 - 2010 er gert ráð fyrir árlegu atvinnumálaframlagi, samtals kr. 3.millj. sem verður úthlutað til rekstraraðila í Súðavíkurhreppi sem sýnt geta fram á fjölgun starfa hjá sér.

 

Reglur vegna úthlutunar atvinnumálaframlaga

 

 • 1. Súðavíkurhreppur auglýsir eftir umsóknum um atvinnumálaframlag í upphafi hvers árs.
 • 2. Atvinnumálaframlögum er eftiráúthlutað og reiknast vegna viðbótarstarfa sem urðu til á nýliðnu ári.
 • 3. Umsækjendur skulu sækja um á þar til gert eyðublað sem finna má á heimasíðu Súðavíkurhrepps www.sudavik.is og á skrifstofu Súðavíkurhrepps.
 • 4. Umsækjandi um atvinnumálaframlag skal vera rekstraraðili skráður í Súðavíkurhreppi þann 1. desember ár hvert.
 • 5. Forsendur fyrir úthlutun er að rekstraraðili hafi verið með launþega í vinnu á árinu og starfið/störfin séu enn til staðar við úthlutun og telja má líkur á að starfið/ störfin séu framtíðarstörf.
 • 6.    Fyrsta árið sem rekstraraðili fær atvinnumálaframlag vegna nýrra starfa getur rekstraraðili fengið framlag sem nemur allt að 100% af reiknuðu útsvari hvers launþega.  Á öðru ári, getur umsækjandi fengið atvinnumálaframlag sem nemur allt að 60% af reiknuðu útsvari hvers launþega vegna starfa sem varð til á árinu á undan og fyrir þriðja árið allt að 30% af reiknuðu útsvari hvers launþega fyrir starf sem varð til tveimur árum þar á undan. 
 • 7. Til að fá framlag vegna nýrra starfa þarf að hafa orðið aukning á störfum hjá rekstraraðila milli ára. Einungis er miðað við launþega sem áttu lögheimili í Súðavíkurhreppi 1. desember það ár sem sótt er um atvinnumálaframlag fyrir og þarf að hafa orðið aukning á störfum launþega milli ára.
 • 8. Heildarúthlutun atvinnumálaframlags getur mest orðið kr. 3. millj.kr fyrir hvert ár. Uppfylli umsækjendur sett skilyrði um úthlutun sem nemur hærri fjárhæð en 3 millj.kr. mun framlagið hlutfallslega lækka hjá öllum umsækjendum þannig að það rúmist innan árlegs 3. milj. kr. framlags.
 • 9. Upphæð atvinnumálaframlags til eins rekstraraðila getur mest numið fjárhæð sem nemur reiknuðu útsvari launþega á árinu sem sótt er um vegna viðbótar starfs/starfa.
 • 10. Þegar sótt er um atvinnumálaframlag skal liggja fyrir staðfesting, staðfest af endurskoðanda umsækjanda um upphæðir útsvars sem reiknuð hefur verið af launþegum vegna nýrra starfa á árinu sem sótt er um fyrir.
 • 11. Allar umsóknir fara fyrir sveitarstjórn Súðavíkurhrepps sem tekur endanlega ákvörðun um úthlutun í samræmi við reglur þessar.