Verslun og útgerð útlendinga á Langeyri

 

Í landi jarðarinnar Eyrardal í Álftafirði er stór og slétt eyri, sem skagar fram í fjörðinn og heitir Langeyri. Innan við eyrina er hið besta skipalagi, aðdjúpt mjög og skjól í flestum áttum.
Sagt er að Þjóðverjar hafi til forna haft bækistöðvar á Langeyri; síðar Hollendingar og síðast Englendingar. Þegar Norðmenn reistu hvalveiðistöð á Langeyri um 1890 sást enn fyrir allmörgum rústum frá tíð hinna erlendu manna sem sagt er að rekið hafi verslun á Langeyri og haft þar útgerðarstöð.
Gamlar sagnir herma, að bardagar hafi verið milli Þjóðverja og Englendinga um aðsetrið á Langeyri. Var það haft til sannindamerkis um þá atburði að endur fyrir löngu hefðu fundist á Langeyri leifar gamalla vopna.
Óvíst er með öllu hversu lengi verslun og útgerð útlendinga hefur staðið á Langeyri. Gömul munnmæli herma að það hafi viðhaldist langt fram á átjándu öld. Sennilegt er að eyrin hafi verið eftirsótt af hinum erlendu kaupmönnum meðfram vegna síldveiði. Þá veiddist hafsíld flest sumur víðsvegar um Ísafjarðardjúp, einkum í Álftafirði. Var hann einn fiskisælasta plássið í Mið-Djúpinu á síld og þorsk.

Vestfirskar þjóðsögur
(Munnmæli úr Súðavík)