Þjóðsögur úr Álftafirði

Brúðarhamar og Vébjarnarvogur.

Fyrir æva löngu bjó bóndi einn mikils háttar í súðavík og átti dóttur gjafvaxta. Ekki er getið nafn hennar. Á vist með bónda –leysingi hans eður þræll –var piltur um tvítugsaldur, Vébjörn að nafni. Vébjörn og bóndadóttir lögðust á hugi saman og fóru dult með, en þá grunaði bónda, hvað í efni var með þeim, og líkaði stórum illa. Svo er það eina vornótt um sólstöðubil, eftir annríkan dag við fjárleitir og fráfærur, að hinir ungu elskendur geta leynst að heiman svo, að á fárra viti sé. Halda þau sem leið liggur með sjónum út að Götu og nema staðar á Brúðarhamri.

 

Þegar þau hafa notið ásta sinnar um hríð, verða þau þess vör, að bátur kemur innar með hlíðinni og stefnir að þeim. Kenna þau þar för Súðavíkurbónda og húskarla hans, er láta ófriðlega. Standa þau upp skjótt, og segir Vébjörn við unnustu sína, að hér muni þau nú skilja verða fyrir fullt og allt, því að undankoma sé með ólíkindum, en þó skuli hennar freista, og biður hana muna sig, ef svo félli, að hann dragi undan bananum. En hún heitir því af alhug. Að svo mæltu þrífur Vébjörn upp klett mikinn og varpar í voginn við fætur þeirra með þeim ummælum, að sá steinn skuli þar standa, uns annar 18 ára beri hann burt. En það hefur enginn gert og mun trúlega aldrei gera, því að þetta er hið mesta bjarg. Síðan leggst Vébjörn til sunds úr voginum og stefnir norður yfir Djúp til Snæfjallastrandar. Bónda ber nú brátt að á skipinu.

 

Lendir hann því við hleinina og fer sjálfur heim með dóttur sína, en lætur mönnum sínum eftir að sjá fyrir Vébirni. Taka þeir þegar til ára á vit flóttamanninum, sem nokkuð hafði borið undan út á Djúpið, enda var hann syndur sem selur. Er það skemmst af að segja, að ekki ná þeir Vébirni í sjó, og komst hann á land norðan Djúpsins fyrir utan Súrnadal, allmjög þrekaður og ákaflega móður. Þó að forhlaup væri lítið, tókst honum samt að komast allhátt í klettahlíðar Núpsins, og lá við sjálft að hann slyppi þar úr höndum fjanda sinna, en með því að þeir voru sex um einn, sumir segja tíu, gátu þeir umkringt hann og unnið þar á honum. Síðan heitir þar Vébjarnarnúpur.

 

Innar í hlíðinni Skjólhamragil og Skjólhamar. Eru það lágir klettaskútar, sem veita fénaði skjól í illviðrum. Allmiklu innar er svo Sjónarsteinagil og Sjónarsteinar í fjörunni. Það nafn mun efalaust vera til komið, að smalar hafa skyggnst til kinda af steinunum, því að hlíðin sem fyrr segir há og brött með smá-klettabeltum hér og hvar. Sér því um hana neðan frá, jafnvel þótt maður setji höfuð á bak aftur svo sem Þór hjá Útgerðaloka.