Snjóflóð í Súðavík, 16. janúar 1995

Snjóflóð í Súðavík, 16. janúar 1995

Snemma morguns 16. janúar 1995 féll snjóflóð á miðja byggðina í Súðavík og tók með sér 15 íbúðarhús. Í húsunum voru 26 manns og fórust 14 þeirra, þar af átta börn, en 12 manns tókst að bjarga. Snjóflóðið var 200 metra breitt og eyðilagði 11 hús við Túngötu, 3 við Nesveg og eitt hús við Njarðarbraut.

Snjóflóðið féll kl. 6.25. Heimamenn hófust þegar handa við björgunaraðgerðir og klukkan tíu barst fyrsta hjálpin þegar tugir björgunarsveitarmanna, læknar og hjúkrunarfræðingar komu ásamt leitarhundum frá Ísafirði. Björgunarmiðstöð var sett upp í hraðfrystihúsinu Frosta og var íbúunum safnað þar saman. Um miðjan dag lagði varðskipið Týr af stað frá Reykjavík til Súðavíkur með lækna, hjúkrunarfólk, björgunarsveitarmenn og hjálpargögn.

Foráttuveður var þegar snjóflóðið féll. Ofsaveðrið geisaði allan tímann á meðan björgunaraðgerðir stóðu yfir og gerði allar aðstæður til björgunar afar erfiðar. Talið er að sérþjálfaðir leitarhundar sem komu frá Ísafirði hafi skipt sköpum við björgunina og bjargað nokkrum mannslífum. Tólf ára drengur fannst síðastur á lífi 23 klukkutímum eftir að snjóflóðið féll en leit var lokið að kvöldi 17. janúar.

 

Að kvöldi 16. janúar féll annað snjóflóð á byggðina úr Traðargili og tók með sér þrjú íbúðarhús en ekki varð manntjón.

Sunnudaginn 18. desember sama vetur féll annað snjóflóð úr Traðargili og eyðilagði bæinn Saura en aldraður einbúi bjargaðist lifandi úr flóðinu.

 

Húsin sem snjóflóðið féll á 16. janúar 1995 stóðu flest utan þeirra marka sem skilgreind voru sem hættusvæði vegna snjóflóða. Mörk snjóflóðahættunnar voru miðuð við snjóflóð sem féll árið 1983 og eyðilagði fjárhús ofan við Túngötu og drap margt fé. Það flóð féll rétt sunnan við snjóflóðið sem féll í janúar 1995.

Það kom á óvart hversu langt snjóflóðið féll árið 1995. Snjóflóðið var flekasnjóflóð þegar það fór af stað, svonefnt þurrflóð sem fer mjög hratt yfir og landslag hefur minni áhrif á rennslið en þegar um blautflóð er að ræða. Veðrið var óvenjulegt, stíf norðvestanátt með gríðarlegri ofankomu sem varð þess valdandi að snjór safnaðist mjög hratt upp í hlíðinni ofan við þorpið.