Samþykkt á 46. fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps þann 19. ágúst 2013.
Markmið
Markmið með gerð Skólastefnu Súðavíkurhrepps er:
• að veita skólanum stuðning og aðhald
• að gera góðan skóla betri
• að að efla vitund fræðslu og tómstundanefndar um hlutverk hennar
• að virkja íbúa sveitarfélagsins í mótun skólasamfélagsins
• að uppfylla skyldur sveitafélagsins skv. 5.gr. grunnskólalaga 2008.
Almennur hluti
í Súðavíkurskóla eru þrjár deildir: grunnskóladeild, leikskóladeild og tónlistardeild.
Súðavíkurskóli er samfélag nemenda, kennara og starfsfólks þar sem starfshættir mótast af umburðarlyndi og kærleika, arfleið íslenskrar menningar, jafnrétti og lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildum. Einnig skal skólinn hafa grunnþætti aðalnámskrár að leiðarljósi en þeir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.
Súðavíkurskóli skal, í samvinnu við heimilin, stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.
Í Súðavíkurskóla skal gerður greinarmunur á mismunandi áherslum leik- og grunnskólastigs í menntun og umönnun nemenda.
Kennurum og starfsfólki Súðavíkurskóla gefist kostur á endurmenntun í samræmi við áherslur og/eða þróunarverkefni skólans hverju sinni.
Einkunnarorðin virðing, vellíðan, framfarir og heiðarleiki skulu verða kjörorð allra í Súðarvíkurskóla.
Til þess að svo megi verða þurfa nemendur og starfsfólk Súðavíkurskóla að:
sýna hvert öðru tillitssemi, vera sanngjörn, stefna að sömu markmiðum, hafa skýrar vinnureglur og ganga vel um skólann.
Jafnframt skal leggja áherslu á vinnusemi, frumkvæði, sköpun, sjálfstæði og áræðni jafnt í bóklegum sem verklegum greinum.
Framtíðarsýn
Súðavíkurskóli verði rekinn sem ein metnaðarfull rekstrarheild með einum stjórnanda og kennurum sem kenna þvert á skólastig. Starfsfólk og nemendur séu ábyrgir, jákvæðir, sjálfstæðir og sýni frumkvæði og áræðni. Að nemendur sem ljúka námi við skólann séu hæfir til að takast á við þau viðfangsefni sem bíða þeirra sem góðir samfélagsþegnar í því námi eða starfi sem þeir kjósa sér til framtíðar.
Almennur hluti
Einkunnarorð Súðavíkurskóla eru virðing, vellíðan, framfarir og heiðarleiki. Til þess að svo megi verða þurfa nemendur og starfsfólk Súðavíkurskóla að: sýna hvert öðru tillitssemi, vera sanngjörn, stefna að sömu markmiðum, hafa skýrar vinnureglur og ganga vel um skólann. Jafnframt skal leggja áherslu á vinnusemi, frumkvæði, sköpun, sjálfstæði og áræðni jafnt í bóklegum sem verklegum greinum.
Starfsmannamál
Lögð sé áhersla á að við skólann starfi fagmenntað starfsfólk með þekkingu og menntun sem nýtist skólanum sem best hverju sinni. Áhersla sé lögð á að starfslýsingar og vinnureglur séu skýrar og nýju starfsfólki gerð grein fyrir þeim.Endur- og símenntunaráætlanir verði í samræmi við áherslur og þróunarverkefni Súðavíkurskóla hverju sinni. Kennarar skólans tileinki sér einstaklingsmiðaða kennsluhætti og leggi metnað sinn í margbreytilegar kennsluaðferðir sem nýtist nemendum hverju sinni.
Leitast verði við að starfa samkvæmt jafnréttisáætlun Súðavíkurhrepps eins og hún er hverju sinni. Starfsmenn gæti þagmælsku samkvæmt 12. gr. grunnskólalaga frá 2008.
Heimili og skóli
Súðavíkurskóli leggi áherslu á öflugt samstarf heimila og skóla þar sem sérþekking starfsfólks á skipulagi og starfi skólans og sérþekking foreldra á börnum sínum fléttast saman.
Mikilvægt er að samstarfið byggi á gagnkvæmu upplýsingastreymi, trausti og virðingu. Deildir Súðavíkurskóla gæti þess að upplýsa foreldra/forráðamenn samdægurs um brýn mál sem varða viðkomandi heimili. Slík upplýsingagjöf verði gagnkvæm milli heimilis og skóla og bundin trúnaði.
Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna og á námi þeirra í samvinnu við kennara. Heimanám nemenda verði skipulagt í samráði við foreldra.
Foreldrar/forráðamenn barna í Súðavíkurskóla eru velkomnir í skólann og þeir hvattir til að taka þátt í skólastarfinu.
Samstarf Súðavíkurskóla við atvinnulíf og félagasamtök
Leggja skal áherslu á samstarf Súðavíkurskóla við fyrirtæki, félagasamtök og aðrar stofnanir sveitarfélagsins og nágrannabyggða með það í huga að auka skilning nemenda á atvinnulífi Vestfjarða og landsins alls.
Árangursmat
Hvert skólastig innan Súðavíkurskóla skal árlega framkvæma innra mat og meta árangur og gæði skólastarfsins skv. lögum nr. 90/2008 og laga nr. 91/2008. Fræðslu- og tómstundanefnd sér um að framkvæmt sé ytra mat á starfsemi skólastiganna og skal síðan fylgja eftir niðurstöðum, bæði úr innra og ytra mati þannig að það leiði til úrbóta í skólastarfinu.
Umhverfismál
Áhersla verði lögð á að börn og starfsfólk beri virðingu fyrir umhverfinu og geri sér grein fyrir þeim verðmætum sem felast í óspilltri náttúru. Að allir skilji sem best hugtökin sjálfbærni og sjálfbær þróun og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða.
Lögð verði sérstök áhersla á að tengja námið við nánasta umhverfi og nýta tækifæri sem gefast til útifræðslu einkum vor og haust.
Næring, heilbrigði og velferð
Á boðstólnum verði ávallt hollt og heilsusamlegt fæði í samræmi við áherslur Lýðheilsustöðvar. Boðið verði upp á morgunhressingu og heitan mat í hádeginu. Stuðla skal að því að nemendur fái nægjanlega hreyfingu og að hverskyns forvarnir verði hluti af skólastarfinu.
Höfð sé til hliðsjónar íþróttastefna sveitafélagsins varðandi útivist, hreyfingu og aðstöðu fyrir nemendur og starfsmenn skólans. Í skólanum skal ávallt leggja áherslu á jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði s.s. jákvæða sjálfsmynd, hvíld, andlega vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilning á eigin tilfinningum og annarra.
Fjármál
Kostnaðaraðgát sé höfð að leiðarljósi í öllum rekstri Súðavíkurskóla og skólastjóri yfirfari reksturinn reglulega. Tryggja skal sem best nýtingu þess fjármagns sem rennur til Súðavíkurskóla og byggt er á fjárhagsáætlun sem samþykkt er af fræðslu- og tómstundanefnd og afgreidd af sveitarstjórn.
Húsnæði, búnaður, skólalóðir
Húsnæði, búnaður og skólalóðir skulu uppfylla þarfir skólans og geta mætt kröfum um aðbúnað á hverju skólastigi fyrir sig. Skólalóðir skulu bjóða upp á góða og örugga aðstöðu til útivistar og hreyfingar. Skólahúsnæðið sem og öll aðstaða skal vera námshvetjandi. Áhersla skal lögð á að skólinn verði þeim tækjum og búnaði búinn sem samræmist þörfum skólastiganna hverju sinni.
Sérfræðiþjónusta
Markmið með sérfræðiþjónustu er að aðstoða skólastjórnendur, starfsmenn, nemendur og foreldra við að leysa úr sérhæfðum aðstæðum nemenda svo þeir geti sem best tekið þátt í námi og starfi.
Súðavíkurskóli starfi eftir þjónustusamningi um sérfræðiþjónustu sem Súðavíkurhreppur gerir, þar sem tryggt verði aðgengi að sérkennslufulltrúa, talmeinafræðingi, sálfræðingi, félagsfræðingi og námsráðgjafa. Nemendaverndarráð skal skipað á hverju ári til þess að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Jafnframt ber fulltrúum nemendaverndarráðs að vera vakandi gagnvart einelti og almennri vellíðan nemenda.
Leikskóladeildin Kofrasel
Velferð og hagur barna skal ávallt hafður að leiðarljósi í öllu starfi leikskóladeildarinnar. Veita skal börnum umönnun og menntun í samræmi við þarfir og þroska hvers og eins, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Starfsfólk og foreldrar standa saman að uppeldi barna í leikskóladeild.
Leikskóladeildin er gjaldfrjáls í 6 stundir á dag fyrir börn með lögheimili í Súðavíkurhreppi.
Elstu börnum leikskóladeildar stendur til boða að taka þátt í samkennslu með yngstu börnum grunnskóladeildar í allt að 4 kennslustundir á dag samkvæmt skóladagatali grunnskóladeildar. Í samkennslu er boðið upp á bóklegt og verklegt nám auk íþrótta. Í samkennslutímum fléttast saman leikur og nám sem byggir á samvinnu kennara leik- og grunnskóladeildar.
Hvert barn skal taka að minnsta kosti fjögurra vikna samfellt sumarfrí á ári.
Leitast skal við að starfsfólk leik- og grunnskóladeildar taki þrjá sameiginlega starfsdaga á ári.
Grunnskóli Súðavíkur
Leitast verði við að koma til móts við þarfir allra nemenda og búa þeim aðlaðandi og hvetjandi námsumhverfi.
Súðavíkurskóli sé vinnustaður sem einkennist af ánægju, metnaði og vellíðan starfsmanna og nemenda. Áhersla sé lögð á góðan liðsanda og skýrar starfslýsingar sem unnið er eftir. Jafnframt fái starfsfólk hvatningu og tækifæri til að bæta við og viðhalda faglegri hæfni sinni. Leggja skal áherslu á að endur- og símenntun haldist í hendur við þróunarstarf skólans hverju sinni. Starfsmenn eru hvattir til að nýta sér námsstyrki sína í endurmenntun.
Yngri nemendum grunnskólans verði gefinn kostur á lengri viðveru eftir að hefðbundnum skóladegi líkur, sé eftir því óskað og samkvæmt reglum sem gilda um dægradvöl.
Nemendum búsettum í dreifbýli Súðavíkurhrepps skal boðið upp á heimavist og/eða skólaakstur, sem taki mið af aðstæðum hverju sinni.
Slíkar ákvarðanir verði metnar í hvert skipti með hagsmuni nemenda, foreldra og skólastarfs að leiðarljósi. Nemendur á unglingastigi fái góða kynningu á því framhaldsnámi sem í boði er á Vestfjörðum og öðrum landsvæðum. Sér í lagi skal leggja áherslu á gott samstarf við Menntaskólann á Ísafirði.
Vinna skal að því að nemendur á unglingastigi geti tekið áfanga í framhaldskólum hafi þeir lokið grunnskólaáfanga í einstökum greinum.
Fylgja skal einstökum nemendum eftir, við útskrift úr grunnskóla, með samtölum við námsráðgjafa viðkomandi framhaldsskóla.
Tónlistadeild Súðavíkurskóla
Öllum nemendum Súðavíkurskóla sé boðið upp á tónlistarnám með því markmiði að nemendur geti þroskað tónlistarhæfileika sína í jákvæðu og hvetjandi umhverfi.
Leggja skal áherslu á að nemendur og kennarar tónlistardeildar taki þátt í þeim viðburðum sem Súðavíkurskóli býður upp á. Nemendur og kennarar tónlistardeildar setji mark sitt á tónlistarlíf í samfélaginu.
Valgreinar
Ljóst er að Súðavíkurskóli er fámennur og því er framboð valgreina takmarkað. Þó skal leitast við að skipuleggja valgreinar þannig að þær komi sem best til móts við óskir og þarfir nemenda hverju sinni.
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.