Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Súðavíkurhreppi

Samþykkt 30. október 2003

 


1. gr.

Hreppsnefnd Súðavíkurhrepps annast eða býður út meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. sorpsöfnun og sorpförgun, í sveitarfélaginu samkvæmt ákvæðum þessarar samþykktar. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hefur eftirlit með meðferð úrgangs, sbr. ákvæði 4.mgr. 4. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. Hreppsnefnd Súðavíkurhrepps sér til þess, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða og framkvæmdaaðila, að íbúar fái fræðslu um flokkun og aðra meðferð úrgangs, móttöku hans og förgun, t.d. með útgáfu leiðbeininga.
 

 

2. gr
Sérhverjum húseiganda og umráðamanni húsnæðis (húsráðanda) er skylt að nota þær aðferðir og þau ílát við geymslu og meðferð úrgangs sem sveitarstjórn , í samráði við Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, ákveður hverju sinni í samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Húsráðendur skulu halda ílátum hreinum og í góðu ástandi. Húsráðendur skulu hreinsa snjó frá sorpgeymslum og sorpílátum eins og þörf krefur til að halda ávallt greiðfærri leið að þeim.

 

3. gr

Söfnun heimilisúrgangs fer fram í þettbýli einu sinni í viku.

 

4. gr.
Sorpgámum er komið fyrir á völdum stöðum í inndjúpi. Í sorpgáma inni í Djúpi má aðeins setja heimilisúrgang. Ábúendur eða eigendur lögbýla, eigendur sumarbústaða og hjólhýsa sem notuð eru sem sumarbústaðir og fyrirtæki skulu sjálf sjá um að koma sorpi í gámanna eftir þörfum.
 

 

5. gr.
Óheimilt er að láta garðaúrgang, jarðvegsefni, brotajárn og annan grófan úrgang í sorpílát og gáma. Jarðvegsefni, þ.m.t. grjót, múrbrot o.þ.h. skal setja á viðurkennda losunarstaði. Spilliefnum, lyfjum og öðrum hættulegum úrgangi skal skilað á viðurkennda móttökustaði. Glerbrotum og öðrum oddhvössum hlutum, sem hætt er á að skaði þá sem meðhöndla úrgang eða sorpílát, skal pakkað inn eða gengið frá þeim á annan tryggilegan hátt. Gæta skal þess að fylla ekki sorpílátin meira en svo að auðveldlega megi loka þeim. Húsráðanda er heimilt að skila umframsorpi á viðurkennda móttökustaði á vegum sveitarfélagsins.

 

6. gr.
Söfnun heimilisúrgangs skal fara fram reglulega eftir fyrirfram gerðri áætlun staðfestri af Súðavíkurhrepp.

 

7. gr.
Súðavíkurhreppur skal innheimta gjald fyrir förgun úrgangs í samræmi við ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þá er hreppnum heimilt að innheimta sorphirðugjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi í samræmi við 2. mgr. 11. gr. laganna. Gjaldið skal sett og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæðum 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og að fenginni umsögn heilbrigðinefndar.

Heimilt er að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignaeiningu miðað við fjölda sorpíláta eða þjónustustig. Gjöld í hverjum flokki skulu vera sem næst meðal raunkostnaði við þá þjónustu sem veitt er, en þó aldrei vera hærri en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi.
Gjöld skulu lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem nýtur framangreindrar þjónustu. Súðavíkurhreppur skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.

 

8. gr.

Súðavíkurhreppi er heimilt að setja upp gjaldskrárflokka fyrir mismunandi þjónustu, með það að markmiði að draga úr úrgangsmagni og umfangi þess sem fer til urðunar.

 

9. gr.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma rusl, garðaúrgang og úrgang á víðavangi, götum, gangstígum eða fjörum í sveitarfélaginu. Sama á við um númerslausar bifreiðar, bílflök, vélar og sambærilega hluti.

 

10. gr.
Hafi eigandi eða umráðamaður húsnæðis fram að færa kvörtun vegna meðhöndlunar úrgangs, skal hann koma slíkri kvörtun til Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða eða sveitarstjóra Súðavíkurhrepps.

 

11. gr.
Brjóti eigandi eða umráðamaður eignar ákvæði samþykktar þessarar um meðferð úrgangs skal brotið tilkynnt til sveitarstjórnar eða Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, sem gera viðeigandi ráðstafanir til að bætt verði úr.

 

12. gr.
Með brot gegn samþykkt þessari skal farið samkvæmt ákvæðum 26. og 27. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

 

13. gr.
Samþykkt þessi er sett samkvæmt ákvæðum 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. ákvæði 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum og staðfestist hér með til þess að öðlast þegar gildi.
 

 

 

Þannig samþykkt á 25. fundi hreppsnefndarSúðavíkurhrepps þann 23. október 2003

 

Umhverfisráðuneytið, 30. október 2003

 

 

Sign:

 
 

Ingimar Sigurðsson Sigurbjörg Sæmundsdóttir