Samþykkt um kattarhald í Súðavíkurhreppi

Samþykkt 27. mars 2003.
1. gr.
Reglur þessar eru gerðar til að stuðla að því að eigendur og umráðamenn katta fari vel með ketti og tryggi þeim góða vist og sjái jafnframt til þess að þeir lendi ekki á flækingi. Reglur þessar gilda um kattahald í Súðavík en ekki í dreifbýli Súðavíkurhrepps.
2. gr.
Eigendur skulu láta skrá ketti sína á skrifstofu Súðavíkurhrepp á þar til gerð eyðublöð. Allir heimiliskettir skulu bera bjöllu og merkta hálsól þar sem fram kemur nafn eiganda, heimilisfang og símanúmer. Við skráningu skulu kattaeigendur undirrita yfirlýsingu um að þeir munu í einu og öllu fara með ketti sína eftir fyrirmælum samþykktar þessarar eins og hún er nú og síðar kann að vera breytt.

Til að standa straum af kostnaði hreppsins af skráningu og eftirliti með köttum í Súðavík skal hver kattaeigandi greiða árlegt gjald til sveitarsjóðs. Gjaldið greiðist fyrirfram við skráningu kattarins til næstkomandi október mánaðar og síðan árlega. Hreppsnefnd ákveður fjárhæð gjaldsins í gjaldskrá, sem heilbrigðismálaráðherra staðfestir.

3. gr.

Kattaeigendum er skylt að sjá svo um, að kettir raski ekki ró manna eða verði mönnum til óþæginda. Skilyrði fyrir kattahaldi í sambýlishúsum er, að allir íbúðareigendur samþykki slíkt og skal leggja fram skriflegt samþykki þar um við skráningu kattarins, er gildir þar til sveitarstjóra berst skrifleg rökstudd afturköllun frá einhverjum íbúðareiganda. Kattaeigendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem köttur þeirra sannarlega valda. Foreldrar eru ábyrgir fyrir köttum ólögráða barna sinna.

4. gr.

Ketti skal ormahreinsa reglulega, minnst einu sinni á ári og skulu eigendur katta halda til haga vottorðum um reglulega ormahreinsun kattarins. Við greiðslu árgjalds ber kattaeigendum að sýna kvittun fyrir greiðslu vottorðs dýralæknis um að köttur hafi verið ormahreinsaður og bólusettur gegn helstu smitsjúkdómum hans.

5. gr.

Ef merktur köttur hverfur frá heimili sínu skal eigandi eða umráðamaður gera ráðstafanir til að finna köttinn. Heilbrigðisnefnd, eða aðili sem hefur sérstakt umboð þess getur látið handsama ketti. Hafi kattarins ekki verið vitjað innan einnar viku skal honum ráðstafað til nýs eiganda eða hann aflífaður.

6 gr.

Sveitarstjórn skal gera ráðstafanir til útrýmingar á ómerktum flækingsköttum. Slíkar aðgerðir skulu auglýstar á áberandi hátt með a.m.k. einnar viku fyrirvara.

7 gr.

Eigendur katta skulu sæta skriflegri áminningu fyrir brot á samþykkt þessari og greiða allan kostnað, er leiðir af brotinu. Sveitarstjórn er heimilt að banna eða afmarka rétt viðkomandi til að halda kött ef fyrir liggja skriflegar kvartanir um ónæði eða hættu sem kötturinn er sannarlega valdur að.

8 gr.

Samþykkt þessi sem samin er og samþykkt af sveitarstjórn Súðavíkurhrepps og gildir í Súðavík staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit til þess að öðlast gildi við birtingu.

Þannig samþykkt á 15. fundi hreppsnefndar þann 27. mars 2003.