Þar sem Súðavíkurhreppur hefur látið leggja holræsi í veg, götu eða annað opið svæði, eða þar sem hreppurinn hefur tekið að sér viðhald og endurnýjun eldri holræsa, er þeim húseigendum, er þar eiga hús að eða í námunda við, skylt að leggja á sinn kostnað ræsi frá húsinu, er flytji allt skólp frá því út í aðalræsi. Regnvatn af húsum og lóðum skal einnig, eftir því sem unnt er, leiða í ræsi. Vanræki einhver að láta gera holræsi frá húsi að göturæsi innan hæfilegs frests, getur hreppsnefnd látið vinna verkið á hans kostnað. Sama gildir ef húseigandi vanrækir viðhald heimæðar.
Öll framkvæmdastörf sem holræsakerfi staðarins varða, svo sem viðhald, endurbætur, viðauka og umsjón alla annast hreppsnefnd eða þeir menn sem hreppsnefnd felur það undir hennar umsjón. Engum er heimilt að leggja ræsi í aðalræsi, nema með leyfi þessara aðila, og er skylt að hlíta í öllu fyrirmælum þeirra um gerð og legu ræsis og annað þess háttar, er máli skiptir. Sveitarskrifstofa annast reikningshald og fjárreiður holræsagerðarinnar.
Kostnaður allur við holræsakerfið greiðist úr sveitarsjóði. Til að standast þann kostnað ber hverjum húseiganda, sem tengir heimæð við aðalæð, að greiða allan kostnað af lagningu heimæðarinnar. Einnig ber hverjum húseiganda, sem á hús við veg, götu eða opið svæði, þar sem holræsi er lagt í, að greiða árlegt holræsagjald til sveitarsjóðs sem miðast við fasteignamat húss og lóðar og tengigjald fyrir hvert hús sem er tengt holræsakerfi þorpsins. Gjaldið er ákveðið í gjaldskrá sem sveitarstjórn setur að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og í samræmi við ákvæði 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Sveitarstjórn skal láta birta gjaldskránna í b-deild Stjórnartíðinda.
Húseigandi ber ábyrgð á greiðslu holræsagjalds gagnvart sveitarsjóði. Kröfur sem sveitarstjórn kann að öðlast skv. 1. og 3. gr. má taka lögtaki á kostnað gjaldanda og eru gjöld þessi tryggð með lögveði í húseigninni í næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. Gjalddagar holræsagjalds eru sömu og fasteignaskatts.
Brot á samþykkt þessari varðar sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Mál út af brotum á reglugerð þessari skal fara með að hætti opinberra mála.
Frárennsli sérhverrar húseignar í Súðavíkurhreppi sem ekki er unnt að tengja við holræsakerfi, skal leiða gegnum rotþró og frekari hreinsun (alla jafnan siturlögn) samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar.
Húsráðendur og forsvarsmenn fyrirtækja eða stofnana eru ábyrgir fyrir því að fráveitur húsa á þeirra vegum séu í samræmi við lög og reglur þar um. Samþykki Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða þarf fyrir nýjum og endurbættum fráveitum. Stærð, staðsetning og frágangur rotþróa er háð samþykki Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og úttekt byggingafulltrúa.
Súðavíkurhreppur annast alla meðhöndlun seyru í sveitarfélaginu í samræmi við reglugerð nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru. Það felur í sér tæmingu rotþróa, ásamt flutningi og endurnýtingu eða förgun seyru frá íbúðarhúsnæði, sumarbústöðum, stofnunum og atvinnustarfsemi. Hreppsnefnd Súðavíkurhrepps er heimilt að fela öðrum aðilum framkvæmd verksins. Þeir aðilar skulu hafa starfsleyfi í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða annast eftirlit með starfseminni.
Rotþrær skulu tæmdar reglulega og ekki sjaldnar en annað hvert ár, og skal húseigandi sjá um að greiður aðgangur sé með hreinsitæki að rotþrónni.
Hreppsnefnd er heimilt að innheimta gjöld vegna hreinsunar rotþróa á vegum sveitarfélagsins, samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöld skulu lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem nýtur framangreindrar þjónustu. Birta skal gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.
Heimilt er að innheimta aukagjald af þeim húseiganda, þar sem hreinsun rotþróa er óvenju kostnaðarsöm, einnig ef um sérstaka rotþró er að ræða við útihús eða þegar sérstakar aðstæður krefjast aukinnar hreinsunar. Gjald þetta skal þó aldrei vera hærra en sem nemur sannanlegum kostnaði við verkið.
Hreppsnefnd getur fellt niður eða veitt afslátt á gjaldi, þegar um er að ræða einstakling með takmarkaða greiðslugetu, ellilífeyrisþega o.s.frv. Sækja skal um afslátt eða niðurfellingu til hreppsnefndar.
Ákvæði til bráðabirgða.
Eigendur þeirra húseigna sem ekki tengjast fullnægjandi rotþróm við setningu samþykktar þessarar hafa frest til 1. janúar 2005 til að uppfylla ákvæði hennar.
Þannig samþykkt á 25. fundi hreppsnefndar Súðavíkurhrepps þann 23. október 2003
Umhverfisráðuneytið, 30. október 2003
Ingimar Sigurðsson
Sigurbjörg Sæmundsdóttir
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.