Reglur vegna leigu á íþróttasal og öðrum rýmum Súðavíkurskóla

1. gr. Leiga.

Íþróttasalur Súðavíkurskóla er til útleigu þann tíma sem Súðavíkurskóli notar húsnæðið ekki, eftir kl. 16.00 virka daga og um helgar, til íþróttafélaga, félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga, og er hver tími 60 mín.

2. gr. Umsjón Súðavíkurskóla.

Húsvörður Súðavíkurskóla sér um leigu salar, tekur við tímapöntunum og gerir tillögur um útleigu salarins. Íþróttsalur skal leigður út með húsvörslu og er starfsmanni hreppsins óheimilt að taka að sér starf þjálfara eða vera ábyrgðarmaður leigutaka. Frá þessu er þó gerð undantekning sjá gr. 8. Húsvörður Súðavíkurskóla sér um að ganga frá húsinu í lok dags, þrífa búningsherbergi og ganga og læsa húsinu.

3. gr. Ábyrgðarmaður leigutaka.

Leigutaki skal ávallt skipa ábyrgðarmann og/eða þjálfara fyrir hverjum þeim tíma sem leigður er. Þegar óskað er eftir salnum til útleigu skv. gr. 7. skal fylgja umsókn hver er ábyrgðarmaður leigutaka. Ábyrgðarmaður/þjálfari skal ávallt mæta í upphafi hvers tíma og vera til staðar í húsinu þann tíma sem íþróttasalur er leigður. Húsvörður hleypir ekki inn í íþróttasal fyrr en ábyrgðarmaður/þjálfari leigutaka er mættur.

Ábyrgðarmaður leigutaka skal tryggja að þeir sem nota salinn á hans vegum sýni háttsemi og fari að húsreglum. Hann skal fara að öllum ábendingum húsvarðar varðandi umgengni og annað er varðar hið leigða húsnæði. Ábyrgðarmaður leigutaka skal sjá um að í lok leigðs tíma sé íþróttasal og búningsherbergjum skilað í því ástandi sem húsvörður samþykkir, þannig að næsti flokkur geti tekið við húsinu.

4. gr. Dagbók húsvarðar.

Húsvörður færir dagbók. Í dagbókina skráir hann hvaða tíma dags leiga fer fram, hver er leigutaki, nafn ábyrgðarmanns/þjálfara sem mætir fyrir leigutaka og fjölda þeirra er mæta í tíma. Ábyrgðarmaður/þjálfari kvittar fyrir leigðum tíma í lok hans ásamt húsverði. Ef um er að ræða leigu samanb. 7 gr. (Leiga íþróttasalar án umsjónamanns skólans) skal ábyrgðarmaður og eða/þjálfari sjá um að kvitta fyrir tímum, tryggja snyrtilegan viðskilnað og að tryggja að húsið sé læst eftir að notkun líkur.

5. gr. Niðurröðun tíma.

Eftir því sem kostur er mun húsvörður haga útleigu salar þannig að leigðir tímar verði eins aðlægir og mögulegt er. Þetta er gert til að skapa samfellu í starfi umsjónarmanns salarins eins og hægt er.



6. gr. Leigðir tímar.

Leigufyrirkomulag salarins er með þrennum hætti og heldur húsvörður tímatöflu yfir leigða tíma.


6.1 Stakir tímar.
Leigðir eru stakir tímar og skal panta þá hjá húsverði með a.m.k. þriggja daga fyrirvara. Staka tíma skal greiða fyrirfram eða í upphafi tímans hjá húsverði.


6.2 Reglulegir tímar mánuð í senn.
Leigðir eru reglulegir tímar einn mánuð í senn og skal panta þá hjá húsverði. Átt er við tíma í íþróttasal fjórar vikur í senn á sömu tímum í viku hverri. Þessa tíma skal greiða ekki síðar en í lok annarra viku.


6.3 Reglulega tíma þrjá mánuði eða meira.
Leigðir eru reglulegir tímar a.m.k. þrjá mánuði í senn eða lengur. Þessa tíma skal greiða ekki síðar en í lok fyrsta mánaðar.

7. gr. Leiga íþróttasalar án umsjónamanns skólans.

7.1 Fyrirkomulag.
Íþróttafélög og félagsamtök geta sótt um að leigja íþróttahúsið án húsvarðar miðað við leigufyrirkomulag skv. 6.3, þ.e. reglulegir tímar þrjá mánuði eða meira.

7.2 Umsókn.
Slík umsókn skal koma skriflega til sveitarstjóra eða húsvarðar. Í umsókn skal skýrt koma fram hver er leigutaki, hvaða tímum er óskað eftir, hver verður umsjónamaður leigutaka og fyrir hvaða íþróttaiðkun leigt er. Slíkri umsókn skal vísa til umsagnar fræðslunefndar.

7.3 Umsjónarmaður/þjálfari.
Verði fallist á slíka umsókn skal þó ábyrgðarmaður leigutaka ávallt mæta í upphafi leigutíma eins og lýst er í gr. 3 að ofan og skal hann rækja skyldur eins og þar er lýst. Ávallt skal liggja fyrir hver ábyrgðarmaður/þjálfari er og tryggt að hann mæti. Verði miklar og endurteknar breytingar á því fellur leyfi til leigu með þessum hætti niður. Ábyrgðamaður/þjálfari skal einnig færa dagbók sbr. gr. 4., kvitta fyrir tímum, tryggja snyrtilegan viðskilnað og að húsið sé læst.

7.4 Gæsla og þrif.
Leigutaki tekur þá að sér nauðsynleg þrif, umsjón húss og að tryggir að viðskilnaður húss og salar sé þannig að kennsla geti hafist kl. 8.00 daginn eftir.

7.5 Athugasemdir.
Í upphafi næsta dags tekur húsvörður út viðskilnað íþróttahúss og gerir strax skriflegar athugasemdir telji hann ástæðu til. Bregðist leigutaki ekki við athugasemdum húsvarðar þá fellur niður leyfi leigutaka til leigu með þessum hætti.

8. gr. Styrkur til leigutaka.

Íþróttafélög eða félagasamtök með reglulega starfssemi sem eru með aðsetur í Súðavíkurhrepp geta óskað styrks frá hreppnum vegna tíma í íþróttasal sem eru fyrir almenning, börn og unglinga. Slík umsókn skal berast sveitarstjóra og skal um hana fjallað í fræðslu- og tómstundanefnd og hreppsnefnd.

9. gr. Leiga íþróttasalar til mannfagnaða.

Heimillt er að leigja íþrótta- eða aðra sali skólans til mannfagnaða. Hér er átt við mannfagnaði fyrir almenning, opinna félagasamtaka og opinberar samkomur. Ef salurinn er leigður með þessum hætti skal það gert í sérstöku samráði við húsvörð og gætir hann að undirbúningi og vörnum í salnum til að tryggja að salurinn verði ekki fyrir tjóni. Reykingar og notkun áfengis eru bannaðar í skólahúsnæðinu nema með leyfi skólastjóra.

10. gr. Aðgangur að eldhúsi grunnskólans

Þegar íþróttasalur eða aðrir salir eru leigðir út til mannfagnaða, ættarmóta, opinberra samkoma og þ.h. er heimilt að leiga út eldhúsaðstöðu grunnskólans með eldhústækjum og leirtaui. Leigutaki er ábyrgður fyrir því að eldhúsi sé skilað í jafngóðu ástandi og tekið var við því. Ef skemmdir verða á búnaði eða leirtaui eða öðru, sem hægt er að rekja til leigutaka skal kostnaður vegna þess greiddur af leigutaka að fullu. Ef eldhúsi er ekki skilað hreinu í lok leigutímans er leigusala heimilt að láta þrífa á kostnað leigutaka.

Áritað og staðfest á fundi hreppsnefndar