Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr.40/1991
I. kafli
Almenn atriði
1. gr.
Inntak fjárhagsaðstoðar
Skylt er að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum, sbr. og III. kafla reglna þessara.
Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna, m.a. vegna heimilisstofnunar, náms eða óvæntra áfalla, sbr. IV. kafla reglna þessara.
Gefa skal sérstakan gaum að fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum barnafjölskyldna og meta sérstaklega þarfir barna vegna þátttöku þeirra í þroskavænlegu félagsstarfi, í samræmi við 30. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, sbr. og 17. og 18. gr. þessara reglna.
Jafnan skal kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, svo og skal kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki.
Fjárhagsaðstoð skal veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsmálanefndar, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
2. gr.
Framfærsluskylda
Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Fólk sem er í skráðri sambúð í þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón. Sambúðin skal hafa verið skráð í Þjóðskrá í a.m.k. eitt ár áður en umsókn er lögð fram, sbr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Sama gildir um sambúð einstaklinga af sama kyni.
3. gr.
Lækkun grunnfjárhæðar2
Hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa er félagsmálanefnd heimilt að greiða lægri fjárhæð til framfærslu en tilgreind er í III. kafla reglna þessara þann mánuð sem hann hafnar vinnu svo og mánuðinn þar á eftir.
Sama á við atvinnulausan umsækjanda sem ekki framvísar skráningarskírteini eða dagpeningavottorði frá Vinnumálastofnun án viðhlítandi skýringa.
4. gr.
Réttur fylgir lögheimili3
Umsókn um fjárhagsaðstoð skal leggja fram í lögheimilissveitarfélagi. Þurfi fólk á skyndilegri aðstoð að halda í dvalarsveitarfélagi er skylt að veita tímabundna aðstoð. Skal um það haft samráð við lögheimilissveitarfélag og aðstoð metin og veitt í samræmi við reglur þess. Lögheimilissveitarfélag endurgreiðir dvalarsveitarfélagi kostnaðinn, sbr. 14. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
5. gr.
Form fjárhagsaðstoðar
Fjárhagsaðstoð skal að jafnaði veitt sem styrkur. Fjárhagsaðstoð er einungis veitt sem lán óski umsækjandi þess eða könnun á aðstæðum leiðir í ljós að eðlilegt sé að gera kröfur um endurgreiðslur með tilliti til eigna og framtíðartekna, sbr. 25. og 26. gr. þessara reglna, sbr. og 22. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Lán eru vaxtalaus.
6. gr.
Tímabil samþykkis hverju sinni
Fjárhagsaðstoð skal að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn og skulu ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Þegar umsækjandi fær jafnframt bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og ljóst er að aðstæður hans muni ekki breytast, er heimilt að samþykkja aðstoð í sex mánuði í senn. Aðstæður þeirra sem fengið hafa fjárhagsaðstoð lengur en sex mánuði skulu kannaðar sérstaklega, félagsleg ráðgjöf veitt í samræmi við V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og máli vísað til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna ef við á.
Í undantekningartilvikum er heimilt að veita fjárhagsaðstoð vikulega vegna sérstakra aðstæðna.
7. gr.
Fjárhagsaðstoð aftur í tímann
Heimilt er að veita fjárhagsaðstoð allt að fjóra mánuði aftur í tímann frá því að umsókn er lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
II. kafli
Umsókn um fjárhagsaðstoð
8. gr.
Umsókn og fylgigögn
Umsókn um fjárhagsaðstoð skal leggja fram hjá félagþjónustunni í lögheimilis-sveitarfélagi umsækjanda. Í neyðartilfellum er heimilt að leggja umsókn fram í dvalarsveitarfélagi, sbr. 4. gr.
Umsókn skal undirrituð á sérstök umsóknareyðublöð, þar sem fram komi upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldugerð, nafn maka og barna á framfæri og nákvæmar upplýsingar um tekjur og eignir. Umsókn skal fylgja staðfest skattframtal vegna síðastliðins árs, yfirlit yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans þann mánuð sem umsókn er lögð fram og mánuðinn á undan, þar með taldar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða öðrum aðilum, barnabætur, mæðra- og feðralaun og meðlög eftir því hvort leið a eða b í leiðbeiningum þessum er valin.
Umsækjandi getur veitt öðrum skriflegt umboð til að sækja um aðstoð fyrir sína hönd.
Þegar umsækjandi er atvinnulaus skal hann framvísa skráningarskírteini frá Vinnumálastofnun er staðfestir atvinnuleysi hans. Njóti umsækjandi réttar til atvinnuleysisbóta skal hann framvísa dagpeningavottorði. Hafi umsækjandi ekki fengið atvinnuleysisbætur vegna veikinda skal hann framvísa læknisvottorði. Hafi hann ekki skráð sig hjá Vinnumálastofnun, án viðhlítandi skýringa, hefur það áhrif á fjárhæð, sbr. 3. gr. þessara reglna.
9. gr.
Upplýsingar um tekjur og fjárhag umsækjanda
Félagsmálanefnd getur, ef þörf krefur, aflað frekari upplýsinga um tekjur og eignir umsækjanda, m.a. hjá skattayfirvöldum, atvinnurekendum, Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum og Atvinnuleysistryggingasjóði. Skal það gert í samráði við umsækjanda. Neiti umsækjandi að veita upplýsingar um fjárhag sinn eða maka stöðvast afgreiðsla umsóknar hans.
Skylt er að veita félagsmálanefnd eða starfsmönnum hennar upplýsingar úr skattaframtölum þeirra sem leita fjárhagsaðstoðar. Sama gildir um upplýsingar úr skattaframtölum lögskylds framfæranda, enda hafi umsækjandi veitt félagsmálanefnd og/eða starfsmönnum umboð til að afla þessara upplýsinga, sbr. 24. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
III. kafli
Réttur til fjárhagsaðstoðar
Mat á fjárþörf og útreikningur fjárhagsaðstoðar
10. gr.
Mat á fjárþörf
Við ákvörðun á fjárhagsaðstoð er grunnfjárhæð, sbr. 11. gr., lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 12. gr.
11. gr.
Grunnfjárhæð
Upphæð fjárhagsaðstoðar skal taka mið af bótum frá Tryggingastofnun ríkisins þannig að fjárhagsaðstoð til einstaklings á mánuði miðast við 85% af óskertum lífeyristekjum (þ.e. lífeyri, fulla tekjutryggingu ellilífeyrisþega og heimilisuppbót eins og það er ákveðið hverju sinni). ( Í júlí til desember 2008 er þessi upphæð kr.115.538). Upphæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings nefnist grunnfjárhæð og fjárhagsaðstoð til fjölskyldna tekur mið af henni.
Grunnfjárhæðin hækkar miðað við fjölskyldustærð eftir því sem hér segir:
Einstaklingur grunnfjárhæð x 1 (kr. 115.538)
Tveggja manna fjölskylda x 1,6 (kr. 184.861)
Þriggja manna fjölskylda x 1,8 (kr. 207.968)
Fjögurra manna fjölskylda x 2 (kr. 231.076).
Fimm manna fjölskylda x 2,2 (kr. 254.184).
og svo framvegis þannig að aukning vegna hvers fjölskyldumeðlims nemur 0,2.
12. gr.
Tekjur umsækjanda
Allar tekjur umsækjanda og maka ef við á, í þeim mánuði er sótt er um og mánuðinum á undan, eru taldar með við mat á fjárþörf. Með tekjum er hér átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda og maka, þ.e. atvinnutekjur, allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins nema greiðslur með börnum, greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, fæðingarorlofsgreiðslur, meðlög, barnabætur, mæðra-/feðralaun, leigutekjur o.s.frv. og koma til frádráttar. Miða skal við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá.
Húsaleigu- og vaxtabætur eru ekki taldar til tekna. Gert er ráð fyrir að húsnæðiskostnaði verði fyrst og fremst mætt með greiðslum vaxta- og húsaleigubóta, en einnig er gert ráð fyrir honum í grunnfjárhæð.
13. gr.
Greiðslur meðlags
Þegar tekjur umsækjanda eru við eða lægri en grunnfjárhæðin skal taka tillit til meðlagsgreiðslna með barni eða börnum sem umsækjandi hefur greitt með reglulega fram að þeim tíma að hann fær fjárhagsaðstoð. Hækkar fjárhagsaðstoðin sem nemur einu meðlagi eins og það er á hverjum tíma með hverju barni. Umsækjandi skal sýna fram á að hann hafi staðið í skilum með meðlag a.m.k. undanfarna þrjá mánuði. Átt er við meðlagsgreiðslur hverju sinni, en ekki uppsafnaðar meðlagsskuldir.
Sérákvæði
14. gr.
Atvinnurekendur, sjálfstætt starfandi einstaklingar og fólk í hlutastörfum
Atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem hafa lægri tekjur en sem nemur grunnfjárhæð, eiga rétt á fjárhagsaðstoð að því tilskildu að þeir hafi stöðvað atvinnurekstur og leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. og 4. mgr. 1. gr. reglna þessara.
Sé umsækjandi sjálfstætt starfandi eða launþegi í hlutastarfi með tekjur undir grunnfjárhæð skal gerð krafa um að viðkomandi skrái sig hjá Vinnumálastofnun og leiti að fullu starfi.
15. gr.
Mat á tekjum bænda
Stundi umsækjandi búrekstur skal mat á tekjum byggt á skattaframtali síðasta árs vegna umsókna, sem berast fyrir 1. júlí, en með umsóknum sem berast síðar skal einnig fylgja rekstrar- og efnahagsyfirlit uppfært til 30. júní sl. Þá liggi einnig fyrir greiðslumark búsins, breytingar á bústofni, yfirlit yfir eignir og skuldir aðrar en þær er tengjast viðkomandi rekstri, auk tekna utan bús undanfarna tvo mánuði. Fjárþörf skal miða við grunnfjárþörf, sbr. 10. gr.
16. gr.
Námsmenn
Einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna geta að öðru jöfnu ekki sótt um fjárhagsaðstoð.
IV. kafli
Heimildir vegna sérstakra aðstæðna
17. gr.
Aðstoð til tekjulágra foreldra vegna barna á þeirra framfæri11
Heimilt er að veita tekjulágum foreldrum og fjölskyldum sem glíma við mikla félagslega erfiðleika fjárhagsaðstoð vegna barna þeirra. Um er að ræða aðstoð til að greiða fyrir daggæslu barns í heimahúsum, leikskóla, skólamáltíðir, lengdan skóladag, sumardvöl og/eða þátttöku barns í þroskandi félags- og tómstundastarfi. Viðmiðunarmörk aðstoðar með hverju barni eru 10.000 kr. á mánuði. Einnig er heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna þeirra. Skal styrkurinn miða að því að greiða áætlaðan bókakostnað, skólagjöld og ferðakostnað til og frá skóla.
18. gr.
Námsstyrkir
Námsstyrki er heimilt að veita í eftirfarandi tilvikum og miðast aðstoðin við grunnfjárhæð ásamt skólagjöldum og bókakostnaði:
a) til einstaklinga 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla vegna fjárhagslegra og/eða félagslegra erfiðleika,
b) til einstæðra foreldra 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa haft atvinnutekjur undir einni milljón krónum undanfarna tólf mánuði,
c) til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.
Starfsmaður skal meta námsframvindu í hverju tilviki miðað við aðstæður hvers og eins. Nemandi skal leggja fram yfirlit yfir skólasókn mánaðarlega og einkunnir í annarlok. Miðað skal við að námið leiði til þess að nemandi geti síðar hafið nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Ákvarðanir um námskostnað skulu teknar fyrir hverja önn og er heimilt að halda námsaðstoð áfram með hliðsjón af námsframvindu.
19. gr.
Styrkur vegna húsbúnaðar
Fjárhagsaðstoð til kaupa á húsbúnaði er heimil í eftirfarandi tilvikum:
a) til einstaklings, sem hefur lægri tekjur en sem nema grunnfjárhæð, er eignalaus og er að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun,
b) til ungs fólks á aldrinum 18–24 ára, sem er eignalaust, með tekjur við eða undir grunnfjárhæð, hefur átt í miklum félagslegum erfiðleikum og er að stofna heimili í fyrsta sinn,
c) til ungra foreldra á aldrinum 18–24 ára, sem eru eignalausir, hafa átt í miklum félagslegum erfiðleikum og eru að stofna heimili í fyrsta sinn.
Viðmiðunarmörk aðstoðar eru 100.000 kr. nema þegar einstaklingur er að flytjast á sambýli, þá eru mörkin 50.000 kr.
Húsbúnaðarstyrkir greiðast einu sinni.
20. gr.
Greiðsla sérfræðiaðstoðar
I. Heimilt er að veita fjárhagsaðstoð til greiðslu nauðsynlegra tannlækninga til einstaklinga sem hafa tekjur við eða undir grunnfjárhæð og fullnægja a.m.k. einu eftirfarandi skilyrða:
a) hafa átt við langvarandi atvinnuleysi að stríða eða verið tekjulausir undanfarna sex mánuði eða lengur,
b) eru lífeyrisþegar,
c) hafa notið fjárhagsaðstoðar til framfærslu til lengri tíma.
Viðmiðunarmörk aðstoðar eru 50.000 kr. á ári.
Kostnaðaráætlun tannlæknis skal fylgja með umsókn.
II. Heimilt er að veita einstaklingum í eftirtöldum aðstæðum fjárhagsaðstoð til greiðslu viðtala hjá félagsráðgjöfum, geðlæknum og sálfræðingum, sem liður í umfangsmeiri aðstoð:
a) einstaklingum á aldrinum 18–24 ára, sem alist hafa upp við mikla og langvarandi félagslega erfiðleika,
b) einstaklingum sem hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða,
c) einstaklingum eða fjölskyldum sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum, svo sem skyndilegum ástvinamissi eða alvarlegu ofbeldi.
Viðmiðunarmörk aðstoðar eru 10 tímar á ári.
21. gr.
Útfararstyrkir
Heimilt er að veita aðstoð til greiðslu útfararkostnaðar þegar staðreynt hefur verið að dánarbúið getur ekki staðið undir útför hins látna. Viðmiðunarmörk eru 160.000 kr.
Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn um útfararstyrk: Staðfest ljósrit af skattaframtali hins látna, launaseðlar og greiðsluyfirlit frá tryggingum og lífeyrissjóðum, staðfesting frá stéttarfélagi um rétt til útfararstyrks, tilkynning sýslumanns um skiptalok á grundvelli eignayfirlýsingar, sbr. 25. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, eða einkaskiptaleyfi útgefið af sýslumanni til erfingja skv. 31. gr., sbr. 28. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl.
Heimilt er að veita eftirlifandi maka lán eða styrk vegna útfararkostnaðar þegar dánarbúið getur ekki greitt fyrir útför hins látna og eignir eftirlifandi maka eru ekki aðrar en íbúðarhúsnæði sem umsækjandi býr í.
Heimilt er að veita tekjulágu foreldri eða foreldrum fjárhagsaðstoð vegna útfararkostnaðar barns.
Samþykkt aðstoð greiðist gegn framvísun reiknings frá útfararstofu og annarra gagna um kostnað vegna útfarar.
22. gr.
Öryggishnappur
Heimilt er að veita lífeyrisþegum fjárhagsaðstoð vegna öryggishnapps. Sjá nánar reglur Súðavíkurhrepps um kostnaðarþátttöku í öryggishnappi.
23. gr.
Áfallaaðstoð
Heimilt er að veita tekjulágum einstaklingum eða fjölskyldum fjárhagsaðstoð í eftirfarandi tilvikum:
a) vegna skyndilegs missis búslóðar eða annars eignamissis sem orðið hefur vegna bruna, skriðufalla, snjóflóða eða annarra hamfara. Aðstoðin kemur einungis til álita þegar tjónþoli hefur ekki haft heimilistryggingu eða aðra tryggingu sem bætir tjónið,
b) þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum er heimilt að veita aðstoð til kaupa á búslóð.
Viðmiðunarmörk aðstoðar eru 100.000 kr.
24. gr.
Lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu
Heimilt er að veita þeim sem hafa haft tekjur við eða undir grunnfjárhæð í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu. Þinglýstur húsaleigusamningur skal liggja fyrir eða önnur staðfesting um að samningur eigi við rök að styðjast. Miða skal við að leigufjárhæð sé í samræmi við leigu á almennum markaði.
25. gr.
Aðstoð vegna sérstakra fjárhagserfiðleika
Heimilt er að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna sérstakra fjárhagserfiðleika, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
a) staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana,
b) fyrir liggi yfirlit um fjárhagsstöðu umsækjanda,
c) fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni breyta skuldastöðu umsækjanda til hins betra.
Styrkur kemur einungis til álita hafi umsækjandi haft tekjur á eða undir grunnfjárhæð undanfarandi sex mánuði eða lengur.
Lán skal ekki veitt ef ljóst er umsækjandi muni ekki geta staðið undir afborgunum af því.
Hármark láns eða styrk er 300.000 kr.
V. kafli
Málsmeðferð
sbr. ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og ákvæði XV. og XVI. kafla
laga um félagsþjónustu sveitarfélaga
26. gr.
Könnun á aðstæðum
Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn um fjárhagsaðstoð hefur borist. Sama á við ef félagsmálanefnd berast upplýsingar um nauðsyn á aðstoð með öðrum hætti.
Félagsmálanefnd skal taka ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er og sjá jafnframt til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.
27. gr.
Samvinna við umsækjanda
Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu við umsækjanda. Við meðferð umsóknar og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er, að öðrum kosti talsmann hans ef við á.
28. gr.
Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn og fulltrúar í félagsmálanefnd kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu samþykki viðkomandi.
Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.
29. gr.
Leiðbeiningar til umsækjanda
Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður bjóða umsækjanda félagslega og fjárhagslega ráðgjöf og veita upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Berist skriflegt erindi sem ekki snertir starfssvið félagsþjónustunnar, skal starfsmaður í samráði við umsækjanda framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem auðið er.
30. gr.
Niðurstaða og rökstuðningur synjunar
Kynna skal niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.
31. gr.
Rangar eða villandi upplýsingar.
Fjárhagsaðstoð veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fær er endurkræf og getur félagsþjónustan endurkrafið viðkomandi um fjárhæðina samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Ef sannreynt er við vinnslu máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar.
32. gr.
Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum og kynning á ákvörðun
Félagsmálastjóri getur tekið ákvarðanir samkvæmt reglum þessum í umboði félagsmálanefndar. Umsækjandi getur vísað máli sínu til félagsmálanefndar en skal gera það innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Félagsmálanefnd skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er.
Ákvörðun félagsmálanefndar skal kynnt umsækjanda tryggilega og um leið skal honum kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar félagsþjónustu.
33. gr.
Málskot til úrskurðarnefndar félagsþjónustu
Umsækjandi getur skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Skal það gert innan fjögurra vikna frá því umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun félagsmálanefndar.
Reglur þessarvoru samþykktar í félagsmálanefnd Súðavíkurhrepps 17. september 2008 og staðfestar af sveitarstjórn Súðavíkurhrepps 9. október 2008
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.