Reglugerð um búfjáreftirlit o.fl.

Samþykkt 28. október 2002.

I. KAFLI
Almennt.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglugerðin gildir um búfjáreftirlit. Markmið reglugerðarinnar er að kveða á um starfssvæði búfjáreftirlits og framkvæmd þess, svo sem um forðagæslu, talningu búfjár og skýrslugerð.

 

2. gr.

 

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

1. Aðbúnaður búfjár, er umhirða, húsakostur og/eða skjól.

2. Búfé, átt er við alifugla, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín.

3. Búfjáreftirlitsmaður, einstaklingur sem ráðinn er af sveitarfélagi til að hafa eftirlit með ásetningi búfjár, aðbúnaði, fóðrun og beit, auk annarra verkefna sem honum eru falin.

4. Hagaganga, er það þegar eigandi búfjár kemur því í haga til annars aðila án þess að taka landið á leigu og gerir um það samning. Sá aðili verður þar með umráðamaður búfjárins.

5. Innra eftirlit, er eftirlit á búum sem stunda matvælaframleiðslu sem viðurkennt er af héraðsdýralækni og byggir á greiningu áhættuþátta og mikilvægra eftirlitsstaða (GÁMES), sem sett er á fót til að tryggja gæði, öryggi og hollustu búfjárafurðanna.

6. Umráðamaður búfjár, er eigandi búfjár eða aðili sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði og vörslu þess í samræmi við gildandi reglur í viðkomandi sveitarfélagi og samkvæmt samningi milli aðila.

7. Tilsjónarmaður búfjár, er sá aðili sem tekið hefur að sér fóðrun og eftirlit með aðbúnaði búfjár en ber ekki ábyrgð á búfé nema gerður hafi verið um það samningur og er hann þá þar með orðinn umráðamaður búfjár.

8. Sóttvarnarhólf, er land sem afmarkast af varnarlínum, ám vötnum , sjó eða öræfum sem ásamt fyrirskipaðri vörslu og öðrum varúðarráðstöfunum mynda farartálma eða fullkomna hindrun á samgangi dýra.

 

II. KAFLI

Framkvæmd búfjáreftirlits.

3. gr.

 

Búfjáreftirlitsmenn.

Sveitarfélög skulu ráða búfjáreftirlitsmann, einn eða fleiri eftir umfangi hvers svæðis og sjá honum fyrir starfsaðstöðu og búnaði til starfsins. Búfjáreftirlitsmenn hafa eftirlit með ásetningi búfjár, aðbúnaði, fóðrun og beit, auk annarra verkefna sem þeim eru falin. Til starfsins skal velja menn sem hafa a.m.k. búfræðimenntun. Áður en búfjáreftirlitsmenn taka til starfa skulu þeir sækja sérstakt námskeið á vegum Bændasamtaka Íslands sem samræma jafnframt framkvæmd búfjáreftirlits á landinu öllu. Bændasamtök Íslands skulu útbúa sérstaka handbók fyrir búfjáreftirlitsmenn með upplýsingum um framkvæmd búfjáreftirlitsins, ásamt viðkomandi laga- og reglugerðaefni.

Að öðru leyti en því sem mælt er fyrir um í lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. skulu búfjáreftirlitsmenn fara með þær upplýsingar sem þeir afla í starfi sínu sem trúnaðarmál og er þeim óheimilt að skýra frá því sem þeir verða áskynja á öðrum vettvangi en hjá viðkomandi sveitarstjórn, héraðsdýralækni eða lögreglustjóra.

Búfjáreftirlitsmaður skal gæta þess eftir föngum að bera ekki smit á milli bæja eða hjarða ef þar er talin smithætta. Sérstaka aðgát skal viðhafa ef búfjáreftirlitssvæði nær yfir búfjárveikivarnarlínur.

Komi í ljós að fóðrun eða aðbúnaði búfjár er ábótavant skal búfjáreftirlitsmaður tilkynna það sveitarstjórn og héraðsdýralækni samdægurs.

Auk framangreindra starfa skal búfjáreftirlitsmaður fylgjast með beitilandi í byggð á starfssvæði sínu á öllum árstímum og gefa umsögn um ástand þess ef þurfa þykir. Telji hann meðferð lands ábótavant skal hann tilkynna það sveitarstjórn án tafar.

 

4. gr.

 

Haustskýrslur.

Á hverju hausti og eigi síðar en 1. nóvember sendir búfjáreftirlitsmaður öllum umráðamönnum búfjár á lögbýlum á sínu starfssvæði haustskýrslu frá Bændasamtökum Íslands til útfyllingar ásamt reglum um útfyllingu. Umráðamaður búfjár skal senda haustskýrslu útfyllta og undirritaða til viðkomandi búfjáreftirlitsmanns í síðasta lagi 20. nóvember. Hafi búfjáreftirlitsmaður ekki fengið haustskýrslu útfyllta frá einhverjum umráðamanni búfjár fyrir tilskilinn frest skal hann fara og skoða hjá viðkomandi og ber umráðamaður búfjár kostnaðinn af því í samræmi við gildandi gjaldskrá. Slíkri skoðun skal lokið eigi síðar en 20. desember ár hvert.

Búfjáreftirlitsmaður sendir frumrit og fyrsta afrit af útfylltum búfjáreftirlitsskýrslum til viðkomandi búnaðarsambands eigi síðar en 31. desember ár hvert. Viðkomandi búnaðarsamband sendir síðan frumrit búfjáreftirlitsskýrslu til Bændasamtaka Íslands fyrir 15. janúar.

Hross sem eru í hagagöngu fyrri hluta vetrar, eða fram að 1. febrúar, skulu skráð hjá eiganda sínum í því sveitarfélagi þar sem hann heldur hrossin. Hross sem eru í hagagöngu síðari hluta vetrar, eða eftir 1. febrúar, skulu skráð í því sveitarfélagi þar sem þau eru í hagagöngu, á skýrslu á nafn eiganda þar sem einnig er tilgreind kennitala og lögheimili.

Heimilt er að fresta skýrslusöfnun og skoðun í hesthúsum í þéttbýlum til 20. febrúar ár hvert. Við eftirlit hjá umráðamönnum hrossa í þéttbýli er búfjáreftirlitsmanni nægjanlegt að fá vitneskju um að umráðamaður hafi aðgang að nægjanlegum fóðurforða til loka vetrar, enda beri hross þess ekki merki að þau séu vanfóðruð.

 

5. gr.

 

Vorskýrslur.

Búfjáreftirlitsmaður skal á hverjum vetri, fyrir 15. apríl, fara í eftirlitsferð til allra umráðamanna búfjár í umdæmi sínu sem ekki starfrækja innra eftirlit sem viðurkennt hefur verið af héraðsdýralækni. Búfjáreftirlitsmaður skráir á skýrslu (eyðublað C) umsögn um húsakost, fóðrun og aðbúnað búfjár. Þá sannreynir búfjáreftirlitsmaður tölu alls búfjár og skal eigandi eða umráðamaður þess staðfesta talningu með undirritun sinni.

 

6. gr.

 

Tilsjónarmenn.

Séu gripir í hagagöngu á eyðijörðum eða landspildum þar sem ekki er föst búseta skal umráðamaður búfjár ætíð tilgreina tilsjónarmann, fyrirframsamþykktan af sveitarstjórn, sem sér um fóðrun og eftirlit með aðbúnaði búfjárins og viðkomandi beitilöndum. Umráðamaður búfjár ber þrátt fyrir tilnefningu tilsjónarmanns alltaf ábyrgð á fóðrun, beit og aðbúnaði nema samningur hafi verið gerður um annað. Nafn tilsjónarmanns skal skráð á viðkomandi búfjáreftirlitsskýrslum. Tilsjónarmaður skal hafa fasta búsetu í viðkomandi sveitarfélagi og skal nafn, kennitala og heimilisfang hans skráð á forðagæsluskýrslum.

 

III. KAFLI

Starfssvæði búfjáreftirlits.

7. gr.

 
Starfssvæði búfjáreftirlits skulu vera eftirfarandi:

 

1. Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.

2. Kópavogsbær, Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður og Bessastaðahreppur.

3. Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Gerðahreppur, Grindavíkurkaupstaður og Vatnsleysustrandarhreppur.

4. Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Skilmannahreppur, Innri-Akraneshreppur, Leirár- og Melahreppur.

5. Skorradalshreppur, Borgarfjarðarsveit, Kolbeinsstaðahreppur, Hvítársíðuhreppur og Borgarbyggð.

6. Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær og Eyja- og Miklaholtshreppur.

7. Saurbæjarhreppur og Dalabyggð.

8. Reykhólahreppur.

9. Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur.

10. Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur.

11. Kaldrananeshreppur, Hólmavíkur- og Kirkjubólshreppur, Broddaneshreppur og Bæjarhreppur.

12. Árneshreppur.

13. Húnaþing vestra.

14. Siglufjarðarkaupstaður, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.

15. Áshreppur, Sveinsstaðahreppur, Torfalækjarhreppur, Blönduósbær og Engihlíðarhreppur, Höfðahreppur, Skagabyggð, Svínavatnshreppur og Bólstaðarhlíðarhreppur.

16. Húsavíkurbær og Tjörneshreppur.

17. Ólafsfjarðarbær, Dalvíkurbyggð, Grímseyjarhreppur og Hríseyjarhreppur.

18. Akureyrarkaupstaður, Arnarneshreppur, Hörgárbyggð, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur og Grýtubakkahreppur.

19. Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur og Aðaldælahreppur.

20. Kelduneshreppur, Öxarfjarðarhreppur og Raufarhafnarhreppur.

21. Svalbarðshreppur og Þórshafnarhreppur.

22. Skeggjastaðahreppur og Vopnafjarðarhreppur.

23. Fjarðabyggð og Mjóafjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fljótsdalshreppur, Fellahreppur, Austur-Hérað, Borgarfjarðarhreppur og Norður-Hérað, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur, Breiðdalshreppur og Djúpavogshreppur.

24. Sveitarfélagið Hornafjörður.

25. Mýrdalshreppur.

26. Skaftárhreppur.

27. Ásahreppur, Rangárþing eystra og Rangárþing ytra.

28. Vestmannaeyjar, Sveitarfélagið Árborg, Gaulverjabæjarhreppur, Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grímsnes- og Grafningshreppur og Bláskógabyggð.

 

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

8. gr.

Þar sem búfjáreftirlitssvæði nær yfir fleiri en eitt sóttvarnarhólf skulu sveitarfélög leitast við að skipuleggja búfjáreftirlitið þannig að einn búfjáreftirlitsmaður starfi einungis innan eins sóttvarnarhólfs. Sveitarstjórnir skulu við skipulagningu eftirlitsins taka tillit til misjafnlega sýktra svæða innan hvers varnarhólfs og hafa samráð við héraðsdýralækni á hverju svæði um sóttvarnarreglur.

Vegna sérstakra aðstæðna á búfjáreftirlitssvæði nr. 6, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar skal starfa sérstakur búfjáreftirlitsmaður í þeim hluta Eyja- og Miklaholtshrepps er liggur austan við Snæfellsnessvarnarlínu, sem sinni ekki eftirliti á öðrum hlutum búfjáreftirlitssvæðisins.

Vegna sérstakra aðstæðna á búfjáreftirlitssvæði nr. 24, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar skal starfa sérstakur búfjáreftirlitsmaður á eftirlitssvæði Sveitarfélagsins Hornafjarðar er nær yfir Öræfasveit, sem sinni ekki eftirliti á öðrum hlutum búfjáreftirlitssvæðisins.

Vegna sérstakra aðstæðna á búfjáreftirlitssvæði nr. 11, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar skal starfa sérstakur búfjáreftirlitsmaður í Bæjarhreppi norðan Laxárdalsvarnarlínu og í Broddaneshreppi sunnan Bitruvarnarlínu. Þeim bæjum í Bæjarhreppi sem eru sunnan Laxárdalsvarnarlínu skal sinnt af búfjáreftirlitsmanni sem starfar í Miðfjarðarvarnarhólfi í Húnaþingi vestra.

 

9. gr.

Búfé skal við skráningu skipt eftir tegund, kyni og aldri, eins og fram kemur í viðauka I, BÚFÉ.

 

10. gr.

Gróffóðurforði ákvarðast af magni og orkugildi.

Umráðamaður búfjár skal mæla rúmmál heyja á býlinu og meta rúmþyngd (þéttleika) þeirra. Við það mat skal hann styðjast við töflur í viðauka II FÓÐURMAGN. Þessar tvær stærðir, rúmmál í m³ og rúmþyngd í kg/m³, skráir hann í haustskýrslu sem skila skal inn eigi síðar en 20. nóvember ár hvert. Þá skal hann skrá fóðurgæði í FE/kg.

Hafi umráðamaður búfjár ekki tiltækar niðurstöður heyefnagreininga sem gefa raunsanna mynd af gæðum heyja í fóðurforðanum skal hann styðjast við viðauka III FÓÐURGÆÐI.

 

11. gr.

Skrá skal uppskerumagn af heyi og korni, í tonnum með a.m.k. einum aukastaf. Þungi heys miðast við þurrefni (100% þe.), korns við þurrkað korn (85% þe.). Jafnframt skal skrá stærð ræktaðs lands í ha með einum aukastaf.

 

12. gr.

Í viðauka IV FÓÐURÞARFIR eru viðmiðanir í fóðurþörf einstakra gripa sem miða skal við í útreikningum. Séu aðrar viðmiðanir notaðar skal þess getið í athugasemdum.

 

13. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum, sbr. 18. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.

 

14. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. og öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðarinnar fellur jafnframt úr gildi reglugerð nr. 86/2000. Reglugerðinni fylgja viðaukar I-IV.

 

Landbúnaðarráðuneytinu, 28. október 2002.

 

Sign:

Guðni Ágústsson.