Örnefni á Súðavíkurhlíð

Austan undir Arnarnesinu er mjó láglendisræma með sjó fram, og heitir hún Vébjarnareyri, venjulega nefnd Bjarnareyri. Fyrr á öldum var þar verstaða. Skammt fyrir innan eyrina gengur blágrýtisgangur mikill út í sjó, það er Arnarneshamar. Er hann lóðréttur sem hlaðinn veggur og 10 til 20 m hár víðast hvar. Vegna væntanlegs vegar voru sprengd göng í gegnum hamarinn haustið 1948.

 

Spölkorn innar voru verbúðir fyrrum og allt fram til 1918-1920. Þar heitir í Höfnum. Síðan tekur við Súðavíkurhlíð, sem er mjög brött og há, en eigi að sama skapi klettótt, svo sem Stigahlíð eða Óshlíð. Hlíðin er mjög sundurgrafinn af giljum og farvegum eftir vatn, sem steypist þar niður í vorleysingum og haustrigningum, berandi með sér aur og grjót. Þó að hlíðin sé til að sjá ber og gróðurlaus, er þar þó nokkurt gras og smákjörr milli giljanna og því allgott beitiland.

 

Utarlega í hlíðinni, þar sem vegurinn af Arnardalshálsi liggur niður að sjónum, heitir Gata. Þar skerst lítill vogur inn í landið, og kallast hann Vébjarnarvogur, en hleinin innan til við voginn nefnist Brúðarhamar. Örskammt fyrir utan voginn heitir Prestaklöpp, en þar eru steinar rétt við landið.

 

Prestaklöpp.

Er örnefnið af því dregið, að 14 des. 1865 drukknaði þar Sr. Daníel Jónsson prestur í Ögurþingum, er þá þjónaði einnig Eyri í Skutulsfirði. Séra Daníel bjó á Eyði í Hestfirði og var á heimleið frá Ísafirði á litlum báti við þriðja mann. Þeir voru seint á ferð og munu hafa róið á steina í myrkrinu og bátnum hvolft. Talið er, að prestur hafi komist með lífi til lands, því að lík hans fannst daginn eftir nokkurn spöl frá sjó. Reimt þótti þarna lengi síðan, og töldu vermenn í Höfnum sig oftlega sjá svip Daníels prest á undan illhleypum.