Fjallskilasamþykkt fyrir Ísafjarðarsýslur. Nr. 434/2002

Samþykkt 7. júní 2002.

I. kafli.

 

Um stjórn fjallskilamála

 

1. gr.

Ísafjarðarsýslur skiptast í þrjár fjallskiladeildir og skiptast þær eftir sveitarfélagamörkum.

Sveitarstjórnir hafa umsjón allra fjallskilamála, hver innan lögsögu síns sveitarfélags. Sveitarstjórnum er heimilt að fela undirnefndum, t.d. landbúnaðarnefndum, umsjón málaflokksins.

 

2. gr.

Sveitarstjórnir geta kveðið nánar á um fjallskil í einstökum atriðum innan marka samþykktar þessarar hver í sínu umdæmi. Sveitarstjórnir tilnefna fjallskilastjóra, hver í sínu umdæmi og annan til vara. Þar sem sveitarfélag skiptist upp í fjallskiladeildir skulu sveitarstjórnir skipa tengiliði við hverja þeirra.

Sveitarstjórnir skera úr um ágreining sem upp kann að koma, hver í sínu umdæmi.

 

3. gr.

 

Fjallskiladeildir í Ísafjarðarsýslum eru:

Ísafjarðarbær:

1. Arnarfjörður norðanverður (Auðkúluhreppur)

2. Dýrafjörður sunnanverður (Þingeyrarhreppur)

3. Dýrafjörður norðanverður (Mýrahreppur)

4. Önundarfjörður (Mosvalla- Flateyrarhreppur)

5. Súgandafjörður, þ.m.t. Keflavík (Suðureyrarhreppur)

7. Skutulsfjörður, Hnífsdalur (Ísafjarðarkaupstaður)

11. Við Ísafjarðardjúp (Snæfjallahreppur)

Bolungarvík:

6. Bolungarvík, þ.m.t. Skálavík (Bolungarvík)

Súðavíkurhreppur:

8. Frá Hestfjarðarbotni að landamerkjum

Ísafjarðarbæjar (á Súðavíkurhlíð ) (Súðavíkurhreppur)

9. Ögursveit (Ögurhreppur)

10. Vatnsfjarðarsveit (Reykjafjarðarhreppur)

 

4. gr.

Sveitarstjórnir ákveða hvar lögréttir skulu vera.

5. gr.

Land, sem fjallskil samkvæmt samþykkt þessari taka til undir stjórn sveitarstjórna, eru beitilönd þau sem nytjuð eru sem sumarhagar fyrir sauðfé.

 

II. kafli.

 

Um mörk og markaskrá.

 

6. gr.

Hver fjáreigandi er skyldur að hafa glöggt eyrnamark á fé sínu ásamt plötumerki með númeri bæjar og sveitarfélags sbr. 1. og 4. gr. reglugerðar nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, með síðari breytingum. Ekki mega menn nota önnur eyrnamörk á fé sitt en þau sem þeir eru löglegir eigendur að.

 

7. gr.

Sveitarstjórnirnar skulu í sameiningu láta prenta markaskrá Ísafjarðarsýslna, svo sem lög mæla fyrir. Markavörður annast söfnun marka í Ísafjarðarsýslum. Heimilt er að birta mörkin í sameiginlegri Vestfjarðaskrá.

Hverjum fjáreiganda er skylt að koma mörkum sínum í markaskrá gegn gjaldi sem nægja skal fyrir öllum kostnaði við söfnun marka svo og skráningu, prentun og útsendingu markarskrár. Greiða skal gjaldið til markavarðar um leið og tilkynnt er um mark. Markaskrá skal prenta í svo mörgum eintökum að hver markeigandi geti fengið eintak. Einnig skal markaskránni dreift til annarra þeirra er málið varðar.

 

8. gr.

Sveitarstjórnir í Ísafjarðarsýslum ráða sameiginlega markavörð er sér um mörk sýslanna og útgáfu markaskrár. Skal hann gæta þess við upptöku nýrra marka að ekki sé sammerkt innan sýslu, né utan samanber 12. gr. reglugerðar nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, með síðari breytingum.

 

9. gr.

Eyrnamörk skulu vera samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, með síðari breytingum og skal birt skrá um þau í markaskrá.

 

10. gr.

Nú flytur markaeigandi inn í Ísafjarðarsýslur og skal hann þar tilkynna markaverði mark sitt eða mörk og leita samþykkis hans fyrir notkun þess (þeirra). Vanræki einhver markaeigandi að láta prenta mark sitt í markaskrá, má hann búast við því, að með fé hans verði farið sem óskilafé.

 

11. gr.

Brennimörk og plötumerki fjallskiladeildanna eru þessi:

1. deild VÍ 1 (Auðkúluhreppur)

2. deild VÍ 2 (Þingeyrarhreppur)

3. deild VÍ 3 (Mýrahreppur)

4. deild VÍ 4 (Mosvallahreppur)

4. deild VÍ 5 (Flateyrarhreppur)

5. deild VÍ 6 (Suðureyrarhreppur)

6. deild NÍ 1 (Bolungarvík)

7. deild NÍ 2 (Hnífsdalur, Skutulsfjörður)

8. deild NÍ 3 (Fyrrum Súðavíkurhreppur)

9. deild NÍ 4 (Ögursveit)

10.deild NÍ 5 (Vatnsfjarðarsveit)

11.deild NÍ 7 (Snæfjallahreppur)

 

III. kafli.

 

Um fjallskil og fl.

 

12. gr.

Fjallskilaskyldur er hver fjáreigandi og leggur hann til fjallskila á þann hátt, sem sveitarstjórn ákveður. Skyldur er bóndi að inna af hendi fjallskil fyrir heimamenn sína og aðra, sem eiga hjá honum fjallskilaskyldan fénað. Eigendur sauðlausra jarða skulu gera fjallskil eftir ákvörðun sveitarstjórnar. Sama gildir um eigendur eyðijarða.

Sveitarstjórn ákveður fjölda gangamanna og deilir þeim niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu vetrarfóðraðs fjár samkvæmt forðagæsluskýrslum og jarðeignum.

Niðurröðun fjallskila skal birta hlutaðeigendum minnst með viku fyrirvara. Skal þar taka fram, hvað hver og einn á að leggja til, tilnefndir leitarstjórar og skýrt frá tilhögun leita.

 

13. gr.

Fjallskil skulu innt af hendi í vinnu eftir því sem við verður komið, en ella goldin í peningum eftir mati sveitarstjórnar.

Ef maður vanrækir án lögmætra ástæðna, að inna fjallskil af hendi, skal hann eftir ákvörðun sveitarstjórnar, auk greiðslu fyrir fjallskilin, eins og þau eru metin, gjalda sekt í fjallskilasjóð allt að helmingi af matsverði fjallskilanna, sbr. 44. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil, o.fl. Fjallskilagjöld má taka lögtaki.

 

14. gr.

Sveitarstjórn skipar svo marga leitarstjóra, sem henni þykir hæfa og ákveður svæði hvers þeirra. Hver leitarstjóri kveður með nægum fyrirvara gangnamenn sína saman á ákveðinn stað á ákveðnum tíma. Skipar hann svo fyrir, hvar hver skuli ganga og hvernig göngum í heild skuli hagað. Hver fjallskiladeild sér um smölun á sínu svæði. Heimilt er sveitarstjórn að láta fjáreiganda leggja til fjallskila utan sinnar fjallskiladeildar nýti hann þar beitilönd að einhverju marki.

 

15. gr.

Leitarstjórar sjá til þess svo sem unnt er að hver gangnamaður leysi hlutverk sitt vel af hendi. Þeir líta eftir því að gangnamenn séu fullgildir og vel útbúnir. Skulu gangnamenn allir skyldir að hlýða forsögn leitarstjóra.

 

16. gr.

Reglulegar leitir skulu vera tvennar á hausti, fyrst í tuttugustu og annarri viku sumars og auk þess eftirleit þegar bæjarstjórn ákveður. Sveitarstjórn getur vikið frá þessu, að fengnum tillögum frá viðkomandi fjallskiladeildum. Um breytingar á fyrirkomulagi leita, skal tilkynna aðliggjandi fjallskiladeildum.

 

17. gr.

 

Hver bóndi er skyldur að hirða fé, er finnst í heimalöndum eftir að almennum fjallskilum er lokið og greiða fyrir því, að það komist til réttra eigenda.

 

18. gr.

Nú verður vart fjár í ógöngum, og er þeim þá skylt er sér, að tilkynna það leitarstjóra viðkomandi leitarsvæðis. Sé björgun óframkvæmanleg eða of hættuleg að dómi björgunarmanna eða aðstæður það örðugar, að tvöfalt verð fjárins hrökkvi ekki fyrir björgunarkostnaði, er skylt að skjóta féð, sé það unnt. Takist björgun kinda úr slíkum ógöngum, greiðir eigandi kindar hálft andvirði hennar fyrir björgun, en sveitarsjóður, þar sem eigandi er heimilisfastur, hinn hluta kostnaðar. Náist kindur hins vegar ekki lifandi skal viðkomandi sveitarsjóður bera kostnað vegna tilraunarinnar.

Sama skal gilda um fé sem er á útigangi eftir að haustleitum er að fullu lokið og ekki verður sótt af eigendum sínum.

 

IV kafli.

 

Um réttir.

 

19. gr.

Sveitarstjórn ákveður hvar í hverri fjallskiladeild lögréttir skuli vera, sbr. 4. gr. og hvaða lönd skulu ganga til hverrar réttar. Hún getur leyft að fé úr heimalöndum einstakra jarða sé rekið þar inn. Aðkomufé skal síðan flutt til næstu réttar.

 

20. gr.

Sveitarstjórn skipar einn réttarbónda við hverja rétt og má réttarstjórnin teljast með fjallskilum. Réttarbóndi stjórnar fjárdrætti og leggur áherslu á að fljótt gangi og skipulega. Hann gætir þess að misdráttur eigi sér ekki stað. Enginn má hleypa út úr dilk fyrr en réttarbóndi leyfir og búið er að athuga féð. Hann getur hvatt menn sér til aðstoðar og eftirlits. Fjáreigendur mega ekki fara úr rétt fyrr en fjárdrætti er lokið.

 

21. gr.

Réttarbóndi sér um að mæður helgi sér ómerkinga eftir því sem kostur er og má enginn marka kind á rétt nema með leyfi réttarbónda.

 

22. gr.

Réttarbóndi sér um að úrtíningur sé rekinn, fluttur eða geymdur eftir því sem bæjarstjórn hefur ákveðið og eftir því sem samræmist lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. með síðari breytingum, og reglum um sauðfjárveikivarnir. Úrtíningur telst það fé sem ekki á heima á svæði því sem smalað er til réttarinnar. Fé sem komið er langt að skal ekki hýsa með heimafé vegna hugsanlegrar smitsjúkdómahættu.

 

23. gr.

Skylt er hverjum þeim sem á kind í réttum að hirða sitt fé eða fá annan til þess.

 

24. gr.

Lóga skal fé sem fer yfir varnarlínu sauðfjárveikivarna. Óskilafé sem enginn eigandi finnst að, skal auglýst í dag- eða héraðsblöðum. Ef eigandi gefur sig ekki fram fyrir tilskilinn frest, skal féð selt á uppboði eða sent í sláturhús. Sú upphæð sem fæst fyrir féð skal varið til greiðslu áfallins kostnaðar en afgangur skal renna í viðkomandi sveitarsjóð.

 

V. kafli.

 

Önnur atriði.

 

25. gr.

Um smalanir að vori skulu fjáreigendur vera frjálsir. Sveitarstjórnum er þó skylt að samræma vorsmölun ef meirihluti fjáreigenda á samliggjandi smölunarsvæði óskar eftir því.

 

26. gr.

Að öðru leyti en greint er í samþykkt þessari fer um fjallskilamálefni eftir því sem segir í lögum nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o. fl., með síðari breytingum og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim svo og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

 

 

27. gr.

Brot gegn ákvæðum þessarar fjallskilasamþykktar varða sektum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

 

28. gr.

Samþykkt þessi sem samin hefur verið að tilhlutan Ísafjarðarbæjar og í samráði við Bæjarstjórn Bolungarvíkur, Sveitarstjórn Súðavíkur og án athugasemda frá Héraðsnefnd Strandasýslu, staðfestist hér með samkvæmt 3. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, til þess að öðlast gildi þegar í stað og birtist til eftirbreytni öllum þeim er hlut eiga að máli. Jafnframt falla úr gildi fjallskilasamþykktir Vestur- Ísafjarðarsýslu, nr. 705/1983 og Norður- Ísafjarðarsýslu, nr. 427/1987.

 

Landbúnaðarráðuneytinu, 7. júní 2002.

Guðni Ágústsson.

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.