Byggðin flutt eftir snjóflóð 1995

Eftir snjóflóðið 16. janúar 1995 fluttu íbúar Súðavíkur til Ísafjarðar eða Reykjavíkur, skólahald var fært til Ísafjarðar en vinnsla lagðist niður í rækjuvinnslu Frosta. Vinnsla hófst þar að nýju 30. janúar en hluti af starfsfólkinu bjó á Ísafirði og ók á milli til vinnu. Þann 16. febrúar var síðan allt skólastarf grunnskólans í Súðavík flutt frá Ísafirði til Súðavíkur á ný.

 

Í kjölfar afleiðinga snjóflóðsins stóðu íbúar Súðavíkur frammi fyrir þeim vanda að ákveða hvort hefja ætti uppbyggingu á nýjan leik. Á borgarafundi sem haldinn var á Ísafirði 23. janúar 1995 kom fram eindreginn vilji meirihluta Súðvíkinga til að flytja á ný í heimabyggð, með þeim skilyrðum að bæjarstæðið yrði fært á öruggt svæði innan við Eyrardalsá. Þann 26. janúar var sveitarstjóra falið að fá arkitekta til að gera tillögur að deiliskipulagi fyrir nýja byggð á Eyrardalssvæðinu. Hreppsnefnd Súðavíkurhrepps óskaði eftir því við Ofanflóðasjóð og Almannavarnaráð ríkisins að eignir Súðvíkinga á snjóflóðahættusvæðinu yrðu keyptar upp í stað þess að byggð yrðu varnarmannvirki ofan við þorpið. Í ljós kom að mun hagkvæmara var að kaupa upp 52 eignir af íbúunum og byggja þorpið upp á ný á öruggum stað heldur en reisa varnarmannvirki, sem auk þess yrði ófullnægjandi varðandi öryggi íbúanna.

 

Þegar búið var að ákveða flutning byggðarinnar var fyrsta verkefnið að útvega þeim sem misstu heimili sín í snjóflóðinu bráðabirgðahúsnæði á meðan á uppbyggingunni stæði. Fluttir voru 18 sumarbústaðir til Súðavíkur og fluttu tæplega 70 íbúar í húsin í mars. Þáverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri byggð í Súðavík 30. apríl og 23. ágúst voru sökklar steyptir að fyrsta nýja húsinu á Eyrardalssvæðinu. Ári síðar voru framkvæmdir í fullum gangi. Haustið 1996 voru komnir grunnar að 51 nýju húsi og var lokið við smíði íbúðanna um veturinn. Átta hús voru flutt úr eldri byggðinni, þar af fjögur eldri hús og fjögur sem voru nýreist þegar snjóflóðið féll.

 

Í eldri byggðinni stóðu eftir 54 hús og íbúðir í góðu ásigkomulagi og fljótlega komu upp hugmyndir um að nýta húsin sem orlofshús yfir sumartímann. Í fyrstu voru húsin boðin til sölu og nýttu margir brottfluttir Súðvíkingar tækifærið og keyptu hús. Árið 1998 var hlutafélagið Sumarbyggð stofnað um rekstur á leigu orlofshúsa í Súðavík og í maí 1999 komu fyrstu gestirnir til dvalar í húsi á vegum Sumarbyggðar.