Verkefni Bláma í Súðavík

Þessa dagana er Blámi ásamt sínum samstarfsaðilum og bakhjörlum í tilraunaverkefni í Súðavík. Gamla vatnslögnin úr Árdal að Langeyri verður notuð til þess að knýja hverfil og markmiðið að útkoman verði varmaorka. Þá varmaorku má fá með því að nýta fallhæð til þess að knýja nýja tegund hverfils (túrbínu) sem skilar vonandi á endanum einhverju magni af heitu vatni. Er markmiðið í fyrsta áfanga að kanna virknina og hversu þessi útbúnaður afkastar. Ef verkefnið gengur upp verður niðurstaðan heitt vatn sem dugar til þess að keyra heita potta eða hita upp fasteign, þó ekki liggi fyrir hversu mikil orka fæst. Það verður spennandi að fylgjast með þessu samstarfsverkefni og tekur Súðavíkurhreppur með stolti þátt. Mikill áhugi er á verkefninu og hafa stærri stofnanirnar ekki minnstan áhuga, sem standa að orkugeiranum. Þorsteinn Másson og Tinna Rún Snorradóttir hjá Bláma eiga veg og vanda að því að koma verkefninu af stað. Spennandi tímar framundan ef útkoman verður eins og væntingar standa til.