Tilkynning um breytingu á gjaldskrá fyrir meðhöndlun sorps í Súðavíkurhreppi

Frá og með 1. janúar 2023 tóku gildi breytingar á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs m.a. á þá leið að innheimta fyrir meðhöndlun úrgangs skuli vera sem næst raunkostnaði niður á hvern aðila/notanda þjónustu. Byggir það á mengunarbótareglunni þar sem hver og einn borgar fyrir það sem hann hendir. Verkefnið í heild, þ.e. breyting og aðlögun fyrir sveitarfélög á lagabreytingunni og samsvarandi reglugerðarbreytingum hefur fengið yfirskriftina Borgað þegar hent er.

Eins og gefur að skilja hafa þessar breytingar í för með sér ýmsa vinnu og úrlausnarefni auk kostnað sem leggst til við innleiðingu. Helstu breytingar sem eru sýnilegar er að frá og með 1. janúar 2023 átti að vera skylt að taka við amk fjórum flokkum við hvert heimili: 

Plast 

Pappa 

Lífrænan úrgang

Almennt sorp (óendurvinnanlegt)

Fyrirsjáanlegt er að nokkurn tíma þarf fyrir aðlögun að breyttu innheimtukerfi auk þess sem breyting á móttöku og flokkunarkerfi felur í sér ákveðna vinnu og tæknilegar úrlausnir sem taka tíma. Þá mun verða almenn hækkun á soprgjald, en kappkostað er að halda því í lágmarki enda er markmiðið ekki að hækka þann kostnað, heldur að bregðast við þeim auknu og breyttu kröfum sem lagaumhverfi setur okkur og að sjálfsögðu aðalmarkmið að umhverfisvitund og umgengni batni til hins betra. Markmiðið er að flokka meira og á endanum að minnka óendurvinnanlegt sorp sem endar á urðunarstað sem er ekki æskilegt í neinu tilliti. 

Þegar fram líða stundir ætti að minnka það sem fellur til af óendurvinnanlegu almennu heimilissorpi og aukast í þá flokka sem bera ekki gjald í sjálfu sér, en verður kappkostað að mæta með endurgjaldi frá Úrvinnslusjóði. Þó er ljóst að amk fyrst um sinn verður umgjörðin dýrari. Almennt hækkar gjaldið um 24% en að lágmarki 10%. Að gefnu tilliti skal því haldið til haga að öll gjaldskrá og gjaldsetning tekur mið af þeim kostnaði sem fellur í heild á Súðavíkurhrepp vegna móttöku og úrvinnslu sorps og endurvinnslu og er því gjaldið jafnað niður í þá staði sem ættu að vera sem næst raunkostnaði. Sveitarfélögum er heimilt að innheimta allt að 50% gjalds í grunngjaldi árið 2023 og það hlutfall á að lækka til ársins 2025 niður í 25%. 

Heildarkostnaður vegna sorphirðu í Súðavíkurhreppi er þekkt stærð og hefur það fram til þessa verið innheimt með fasteignagjöldum í fastri tölu. Það hefur í grófum dráttum dreifst þannig og jafnast að örlítið hefur verið greitt með sorpinu á ársgrundvelli. Það er hinsvegar breytingin að það verður ekki heimilt og á gjaldtaka að endurspegla raunkostnað. Sjá má nánar um verkefnið m.a. hér á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Súðavíkurhreppur mun kappkosta að koma þessum breytingum í gegn á árinu 2023 og verður árið talsverður prófsteinn á verkefnið. Fyrirfram má gefa sér að eitthvað þurfi að lagfæra eða útfæra betur og skal ábendingum um það komið til Súðavíkurhrepps með tölvupósti eða öðrum leiðum til skifstofu Súðavíkurhrepps. 

Virðingarfyllst f.h. Súðavíkurhrepps - Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri.