Súðavíkurhlíðin 28.-29. september 2021

Súðavíkurhlíðin var lokuð frá 11:30 þann 28.9.-kl. 9:00 29.9.2021.

Þetta blasti við þegar opnað var fyrir umferð í morgun.

Þetta er óvenju snemma árs, en það var líka all kröpp lægð sem gekk yfir Vestfirðina með mikilli úrkomu og sterkum hviðum, allt að 40 m/sek. Það er ekkert nýtt að hér raskist samgöngur í áhlaupi og í raun alla vetur þegar snjóar í hlíðina. Á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu hefur verið skoðað undanfarin misseri að raða jarðgangakostum eftir mikilvægi þeirra fyrir Vestfirðina í heild. Er í gangi úttekt á vegum ráðgjafafyrirtækis - nú KPMG til þess að greina þessa þörf og nauðsyn og leggja væntanlega til forgangsröðun á þessum kostum. Göng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar voru sem kostur á fyrri samgönguáætlu, en viku þegar ný samgönguáætlun var birt, enda virðist sem svo að áhugi hafi dvínað og sett í forgang að klára göngin undir Hrafnseyrarheiði - Dýrafjarðargöng. Þrátt fyrir að þar sé um að ræða mikla samgöngubót eru málefni sem varða öryggi og samgöngur fyrir Súðavík og þá sem fara suðurleiðina um Djúp óleyst hvað þetta varðar. Einhvern veginn hefur sú rödd dvínað og kannski ekki annars von þegar aðeins berst ákall um þetta frá Súðavíkurhreppi. Ekki virðist mikill áhugi hjá þingmönnum eða ráðherrum sem varða málaflokkinn, en þetta er samt sem áður eitthvað sem við hjá Súðavíkurhreppi höfum nefnt á öllum þeim fundum sem við höfum átt með bæði núverandi / verðandi þingmönnum og ráðherrum sem hafa heimsótt okkur eða öfugt.

Í morgun þegar hættuástandi var aflétt opinberlega af hlíðinni og búið að moka gegnum flóð úr tveimur farvegum blasti við lítið flóð og annað heldur stærra. Ljóst að ekki þarf langan tíma í svona áhlaupi til að safna nægilegu magni í fjallið til þess að valda öflugu flóði. Og grjóthrun er allan ársins hring, þó minna beri á því þegar snjór er á hlíðinni.

Sá sem þetta ritar telur fulla þörf á því að hætta ekki að halda úti þeim áróðri og ákalli um úrbætur enda ljóst að við sitjum ekki við sama borð og aðrir nágrannar okkar á Vestfjörðum hvað varðar aðgengi að þjónustu og atvinnusókn á sameiginlegt atvinnusvæði. Þess utan hamlar þetta vexti sveitarfélagsins og viðgangi og veldur því með tíð og tíma að fólk gefst hreinlega upp á þeirri viðvarandi ógn sem steðjar að þegar ekið er um Súðavíkurhlíðina.

Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.