Sr. Bernharður Guðmundsson látinn

Séra Bernharður Guðmundsson var sóknarprestur í Súðavík 1962 – 1965, en hann hafði lokið embættisprófi í guðfræði 1962.  Hann var því nývígður prestur þegar hann kom til Súðavíkur og var þetta hans fyrsta brauð.  Fjölskylda hans samanstóð þá af eiginkonu hans Rannveigu Sigurbjörnsdóttur og dóttur þeirra Svövu.  Litla fjölskyldan flutti inn í hinn svokallaða “Læknisbústað” sem var stórt tveggja hæða íbúðarhús og stóð fyrir ofan frystihúsið Frosta hf, þar sem í dag er núverandi bílastæði frystihússins við Aðalgötuna.  

Þau hjón voru ung, kraftmikil, samhent og með hugsjónir.  Rannveig var hjúkrunarfræðingur og með mikla tónlistarhæfileika, sem hafa skilað sér vel til afkomenda þeirra.  Hún tók að sér kórstjórn hjá kirkjukórnum og sem organisti.

Þau höfðu forgöngu um stofnun Æskulýðsfélags á kristilegum nótum í þorpinu og var oft glatt á hjalla í Læknisbústaðnum þar sem fundir og æfingar fóru fram.   Einnig hafði Bernharður forgöngu um að í Súðavík var stofnuð framhaldsdeild við Súðavíkurskóla, sem var þá í raun fyrsti bekkur í Gagnfræðaskóla (8 bekkur í dag) og sá hann að mestu um alla kennsluna þar.  Hann var einnig fyrsti presturinn við endurbyggða Súðavíkurkirkju sem var endurvígð í Súðavík í apríl 1963. Kirkjan hafði áður staðið á Hesteyri í Jökulfjörðum, sem þá voru að mestu komnir í eyði.

 Séra Bernharður og Rannveig komu með kraft og ferskleika ungs fólks inn í samfélagið í Súðavík.. Þau höfðu mjög góð og mótandi áhrif á kynslóð þeirra ungmenna sem þau kenndu og leiðbeindu á þessum árum þeirra í Súðavík.

Að störfum loknum í Súðavík fór Bernharður sem prestur í Stóra Núpsprestakall árin 1965 – 1970.

Að því loknu gengdi hann mörgum störfum, var m.a. sjúkrahúsprestur í Svíþjóð. Hann gengdi einnig störfum sem Æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar og rektor Lýðháskólans í Skálholti, svo fátt eitt sé nefnt.    Í mörg ár gengdi hann ábyrgðarstörfum í höfuðstöðvum  Lúterska Heimssambandsins í Sviss og einnig nokkur ár í Eþíópíu, á vegum heimssambandsins.

 Súðvíkingar færa séra Bernharði innilegustu þakkir fyrir samferðina og færa Rannveigu og fjölskyldu, sínar dýpstu samúðarkveðjur.

 Blessuð sé minning séra Bernharðar Guðmundssonar.

Steinn Ingi Kjartansson

ljósmyndir