Skýrsla sveitarstjóra fyrir 40. fund sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps kjörtímabilið 2022-2026 föstudaginn 9. janúar 2025

Skýrsla sveitarstjóra fyrir 40. fund sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps kjörtímabilið 2022-2026 haldinn 9. janúar 2026.

Vikan 15.-19. desember

Snjóflóðin í Súðavík 16. janúar 1995: Mánudaginn 15. desember skilaði Rannsóknarnefnd Alþingis vegna snjóflóðana í Súðavík 16. janúar 1995 af sér skýslu og afhenti forseta Alþingis. Síðar sama dag var boðað til blaðamannafundar um skýrsluna og helstu niðurstöður. Skýrslan er mikil að umfangi, einar 443 bls. með 80 bls. samantekt og er í tveimur bindum. Í framhaldinu færi skýrslan til umræðu í Alþingi og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í þeirri kynningu sem fram fór liggur fyrir að í niðurstöðum skýrslu er að finna vísbendingar um að snjóflóðavörnum og skipulagi hafi verið ábótavant í aðdraganda að snjóflóðunum 1995. Skipulag hafi ekki tekið mið af þeirri hættu sem búast mátti við af flóðum á svæðinu, einkum með vísan til snjóflóðs sem féll árið 1983. Þá hafi ekki verið gerður reki að því að skoða frekar snjóflóðavarnir sem hafi verið forsenda fyrir aukningu byggðar við efstu götur þorpsins. Allt að einu hafi skipulag verið samþykkt og staðfest af ráðherra. Niðurstaða skýrslunnar er í meginefnum að kerfislægur vandi hafi skapað það umhverfi þar sem, þrátt fyrir vissa hættu, ekki hafi verið brugðist við til samræmis við það lagaumhverfi sem gilti þegar atvik urðu.

Talsvert var haft samband við sveitarstjóra frá og með mánudeginum og áfram út vikuna vegna þess sem fram kom í skýrslunni, bæði frá fjölmiðlum og einnig hafa einstaklingar verið að biðja um gögn sem tengjast niðurstöðum skýrslunnar og má vænta þess áfram.

Uppbygging við Langeyri: Haldinn var verkfundur með öllum aðilum fimmtudaginn 18. desember. Farið yfir hönnunarmál, lagnir ofl. Súðavíkurhreppur er að kaupa 4 x 6 m (80 cm) rör fyrir frárennsli af landfyllingu. Verksmiðjusvæði verður tengt inn á frárennslið sem verður staðsett við nyrðri endann á landfyllingunni. 

Í tengslum við uppbyggingu við Langeyri þarf að hafa ýmislegt í huga. Eins og fram hefur komið liggur fyrir að skylda Súðavíkurhrepps er að skila landfyllingu í kóta 3,2 m í hafnarkerfi. Verktakinn sem sér um að reisa verksmiðjuna vill hafa húsin hærra í landinu eða í sem samsvarar nálægt 3,9 m. Talsvert magna af efni þarf til þess að klára það verk. Einhver áhöld hafa verið milli verkkaupa og verktaka hverjum ber að greiða fyrir það efnismagn sem þarf til þess að hækka undir byggingar. Þetta var nefnt á fundinum og kom Súðavíkurhreppur því greinilega til skila að skyldan sem hvílir á sveitarfélaginu nær ekki til þessa enda eðlilegt við byggingu mannvirkja að efnisskipta þurfi og ganga frá hæðarkóta. Því var umleitun um að Súðavíkurhreppur tæki þann kostna hafnað og liggur því fyrir að Ískalk mun taka á því með verktakanum Lakogep. Hins vegar er skering fyrir ofan landfyllingu sem fyrir liggur að taka þurfi niður í rétta hæð og farga efni/skipta um jarðveg að hluta. Efnið hentar vel í landmótun og stóð til að nota fyrir stækkun tjaldsvæðis ofl.

Til samræmis við stækkunaráform á tjaldsvæði var lagt til að koma fyrir um 2000 m² og jafna landið fyrir neðan syðstu flötina, ofanvert við Aðalgötu 26. Var vegna þessa haft samband við fasteignareigendur og þeim kynnt áformin. Viðbrögð voru að mati sveitarstjóra í engu samræmi við tilefnið, en fasteignareigendur telja sig eiga það land sem um ræðir. Var þeim bent á hið öndverða og upplýstir með þeim gögnum sem fyrir liggja um kaup Súðavíkuhrepps á landinu 1996 og lóðarleigusamning sem þeir hafa vegna hússins frá 2001 – 924 m² og afmarkað við lóðina umhverfis húsið. Fyrirliggjandi gögn hjá Súðavíkurhreppi staðfesta kaup á tilgreindri spildu þann 24. júlí 1983. Sveitarstjóri leggur til að málið verði tekið upp á fundi skipulags-, bygginga-, umhverfis- og samgöngunefndar og farið yfir lóðarmörk og annað sem málið varðar. Efni sem hefði nýst við stækkun hefur verið sett í annað og því ljóst að verkið verður ekki unnið í þessari mynd án töluverðs tilkostnaðar og því rétt að endurmeta út frá þeim forsendum.

Byggðakvóti: Í lok vikunnar kom póstur frá Innviðaráðuneytinu vegna úthlutunar byggðakvóta. Úthlutun byggðakvóta til Súðavíkur fyrir fiskveiðiárið 2025/2026 eru 30 tonn en fyrningar síðasta árs nema jafnframt 30 tonnum - því samanlagt 60 tonn til úthlutunar. Byggðakvóti Súðavíkur hefur að sönnu rýrnað mikið undandfarin ár, en byggðakvóti hefur dregist sama úr liðlega 100 tonnum árið 2020 niður í það sem er úthlutað nú, eða 30 tonn (þorskígildistonn). Sveitarstjóri lagði til að þeim byggðakvóta ásamt fyrningum verði úthlutað til Iceland Sea Angling til þess að auðvelda rekstur félagsins, en frístundaveiðipotturinn hefur verið skertur um helming. Undanfarin ár hefur verið úthlutað til krókaflamarksbáta sem skráðir hafa verið í Súðavík án þess að veitt hafi verið nokkuð af þeim kvóta. Iceland Sea Angling landaði ríflega 100 tonnum árið 2025 og seldi afla til Íslandssögu. Þess má geta að bókunarstaða félagsins fyrir árið 2026 er um 94%.

Öryggi í höfnum – Vigur: Undanfarna daga hefur sveitarstjóri (hafnarstjóri) verið í samskiptum við bæði umboðsmenn fyrir skemmtiferðaskip, Samgöngustofu ofl. vegna öryggismála í höfnum. Hafa komið all nokkrar fyrirspurnir vegna siglinga í Vigur þrátt fyrir að Súðavíkurhöfn hafi þar ekki hafnsögu. Eina aðkoma sveitarfélagsins að siglingamálum við Vigur eru yfirráð yfir ankerislægi (hnitpunkta fyrir ankeri) við eynna. Engin úttekt hefur farið fram við byggjuaðstöðuna í Vigur sem er alfarið eign landeiganda og á hans forræði og ábyrgð. Talsvert er um bókanir skipa fyrir árið 2026 sem haf verið sendar með tp. og hafa sömu aðilar verið að hafa áhyggjur af öryggisúttekt bryggjuastöðu á staðnum. 

Súðavíkurhöfn – endurbætur: Köfunarþjónustan hefur lokið við helming viðgerða á norðurgarði Súðavíkurhafnar í metrum talið, en líklega er meginhluta viðgerða lokið. Samkvæmt áætlun munu þeir koma aftur í byrjun febrúar 2026 til þess að ljúka viðgerðum á stálþili. Plötur hafa verið soðnar utan á stálþilið og steypt á milli þilja. Þetta hefur verið erfitt verk og tafsamt en þó gengið eftir eins og upp var lagt. Lögð var áhersla á það við Köfunarþjónustuna að halda áfram með verkið í febrúar.

Sameiningarmál: Sveitarstjóra barst erindi frá Þorgeiri Pálssyni í Strandabyggð vegna fyrirhugaðra funda um sameiningarviðræður. Ákveðið var að fresta umræðum fram í nýtt ár þar sem langt er liðið á árið og flestir sveitarstjórnarmanna í fríi. Í Súðavíkurhreppi hefur ekki verið hávær umræða um sameiningarmál, en á íbúafundi mátti helst greina á íbúafundi að hugur íbúa Súðavíkurhrepps stendur frekar til þess að sameinast Ísafjarðarbæ. Það var þó sammerkt að forsenda fyrir því væru jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.

Vikan 22.- 26. Desember

Fundur með Advania vegna öryggisbrests: Sveitarstjóri og Advania, sem sér um tölvuþjónustu og nethýsingu fyrir Súðavíkurhrepp, funduðu um málið sem varðaði öryggisbrest í tölvukerfi Súðavíkurhrepps. Uppleggið var m.a. að fyrr á árinu fundaði sveitarstjóri með netöryggisfyrirtækinu Syndis um netöryggisþjónustu og viðbætur við tölvukerfi og netvöktun. Advania taldi við fyrirspurn ekki þörf á þeirri þjónustu sem fól í sér 24/7/365 vöktun á kerfi sveitarfélagsins, en Súðavíkurhreppur fekk tilboð í slíka vöktun. Advania býður upp á sambærilega þjónsutu - Skjöld. Kostnaður við slíka vöktun er talsverður og liggur fyrir að etalsverðu munar á þjónusta Advania og Syndis. Framhaldið verður skoðað og fljótlega tekin ákvörðun um hvor leiðin verður valin - Advania eða Syndis eða jafnvel þriðji kostur skoðaður. 

Framkvæmdir við frístundahúsabyggð við norðurenda Holtagötu: Í vikunni var hafist handa við að grafa fyrir frárennsli vegna frístundahúsa við norðurenda Holtagötu. Fljótlega kom í ljós að talsvert af ferskvatni er að leka í frárennsli og því ljóst að vatnslögn lekur. Að öllum líkindum er leki frá loka og því komið að endurnýjun. Búið er að mæla út byggingareiti fyrir húsin og munu þau rísa þar í febrúar, en verktaki hefur jafnframt unnið við efnisskiptingu fyrir lóðirnar og veglagningu að húsunum. Það er viðbúið að rask verði á byggingarstað næstu vikurnar..

Framkvæmdir við Langeyri: Vegna nauðsynlegrar skeringar fyrir ofan landfyllingu, í fláganum sem skilur að fyllinguna og Djúpveg, fellur til talsvert magn af jarðvegi. Til stóð að nota um 1500 m³ til stækkunar á tjaldsvæði Súðavíkur en andstaða kom fram við það frá nærliggjandi eignum við Aðalgötu. Jafnframt á að nota þetta efni til þess að ganga frá skurði vegna verkefnis Bláma og Súðavíkurhrepps við pottaaðstöðu neðan við Súðavíkurkirkju auk frágangs við svæði sem tilheyrir Njarðarbraut (geymslusvæði neðan við Aðalgötu). Sett verður mön við svæðið þannig að útsýni við innkomuna í Súðavík lagast til muna auk þess sem geymslusvæðið verður ekki í sjónlínu frá þjóðvegi. Í framhaldinu (vor) verður gengið frá svæðinu með jarðvegsskiptum og sléttun þannig að svæðið verði ekki for þegar blautt er. 

Vikan 29. desember – 2. janúar

Lítið fréttnæmt þessa daga – sveitarstjóri mætti þá daga sem skrifstofa var lokuð til að sinna erindum sem lágu fyrir. Sveitarstjóra barst þó erindi frá Boggu í Raggagarði (Vilborgu). Bréfið inniheldur vangaveltur um uppbyggingu húss fyrir starsfsmann á Raggagarðssvæðinu. Sveitarstjóri svaraði erindinu og að það yrði lagt fyrir skipulags-, bygginga-, umhverfis- og samgöngunefnd á næsta fundi. Helgina í kjölfarið var haldið áfram með verkefnið sem varðar frístundabyggðina við Holtagötu. Búið er að tengja vatn og laggja að byggingarreitum og grafa fyrir frárennsli, en verktaki hefur einnig klárað talsvert af undirvinnu fyrir bæði veg að svæðinu og byggingarreitina sjálfa. 

Vikan 5.-9. janúar

Fundur með Pure North vegna sorpmála. Fundur mánudaginn 5. janúar þar sem farið yfir kostnað vegna sorphirðu og sorpeyðingar sem fyrstu skrefin í því að fara heildstætt yfir sorpmálin í Súðavíkurhreppi. Tekinn saman heildarkostnaður vegna sorphirðu og sorpförgunar með áætlun um að fá sundurliðað frá verktökum – Kubb og Sorpsamlagi Strandabyggðar – allan kostnað og hvernig hann skiptist niður á sorpflokka og einstaka liði.

Fundur um stöðu Iceland Sea Angling. Finnur Jónsson framkvæmdastjóri Iceland Sea Angling kom til fundar við sveitarstjóra. Fram kom að Finnur verður áfram í hlutverki framkvæmdastjóra út þetta tímabil meðan leitað er að eftirmanni, en hann hafði ætlað að vera hættur aðkomu að mestu frá og með síðasta ári.

Melrakkasetur og rekstur: Í framhaldinu af fundi með Sea ANgling komu til fundar við sveitarstjóra rekstraraðilar í Eyrardalshúsi – Félagar ehf (Genka og Yordan). Upplegg fundar var að fara yfir samningsmál vegna rekstrarins og árétting á því að rekstraraðilar sé að skila inn talsverðum tekjum fyrir Melrakkasetur Íslands samkvæmt samningi þar um og borgi jafnframt leigu af notkun hússins til Súðavíkurhrepps. Þau óska eftir því að leggja fyrir sveitarstjórn mál sín sem varða reksturinn og umtal um hvernig þeim viðskiptum er háttað.

Gamla Súðavík, dvöl á snjóflóðahættusvæði: Komið er fram frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda – mál S-258/2025 Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (markmið, kostnaður o.fl.) og um breytingu á lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnu samgöngumála) umsjón framkvæmda.

Sjá hér: Samráðsgátt | Mál: S-258/2025

Mikilvægt er að mati sveitarstjóra að sveitarfélagið skili inn umsögn, enda er frumvarpinu að stórum hluta beint til ástands í Súðavík. Einhverjir einstaklingar hafa virt að vettugi þær reglur sem gilda um viðveru á svæðinu án þess að lögregla hafi getað haft neitt um það að segja. Breytinga er þörf hvernig sem það er formað og ekki viðunandi að viðvera viðgangist utan þess tíma sem ákvarðaður hefur verið sem leyfilegur dvalartími á þeim svæðum þar sem skilgreind snjóflóðahætta er til staðar. Sveitarstjóri leggur til að Súðavíkurhreppur skili inn umsögn um frumvarpið.

Verkfundur – Langeyri: Fundur á miðvikudeginum vegna uppbyggingar verksmiðjunar við Langeyri. Á fundinn mættu fulltrúar frá Íslenska kalkþörungafélagsinu, Súðavíkurhrepp,  Vegagerðinni og svo verkfræðingar sem starfa fyrir framangreinda. Farið var yfir helstu mál sem varða frágang, vatn, rafmagn, vatn og fráveitu. Skoðað var með möguleika á því að spegla afstöðu rafmagnshússins við bryggjuna, hvort ekki væri hægt að koma því fyrir norðanmegin við þekjuna í stað þesss að hafa það sunnanmegin. Með því gæti sparast við kaup og lagning á dýrum kapli frá afhendingarstað niður á þekju að rafmagnshúsi. Um 80 m munar á staðsetningu svo það er auðveldara að grafa niður að því norðanmegin og koma fyrir ídráttarröri (og kapli) innan við þekjuna.

Hvalur við Mjóafjörð: Miðvikudagurinn var áhugaverður. Fékk senda mynd úr Djúpi af strönduðum búrhval við utanverðan Mjófjörð (innanvert við Ögurnes). Áætlað að um væri að ræða um 12 m langan búrhval sem var strandaður langt upp í fjöru á svæði sem er umlukið skerjum og frekar erfitt að athafna sig frá sjó.

Haft var samband við Björgunarsvetina Kofra og ákveðið að fara frá Súðavík um kvöldið rúmlega 21:00. Sveitarstjóri fór með enda á ábyrgð sveitarfélagsins þegar dýr eru í vanda innan marka sveitarfélagsins. Staðfest var í morgun (fimmtudegi) að hvalurinn væri dauður. Framhaldið er því væntanlega einhvers konar förgun. Slíkt er á ábyrgð landeiganda, en líklega er landið í eigu Garðstaða eða Strandsels.

 Mynd Magnús Erlingsson – tekið af facebook

Annað minna markvert,

 Bragi Þór Thoroddsen – sveitarstjóri