Skýrsla sveitarstjóra fyrir 39. fund sveitarstjórnar kjörtímabilið 2022-2026

Vikan 1. – 5. desember 2025

Langeyri:  Haldinn fundur miðvikudaginn 3. desember og farið yfir stöðuna. Búið  að fylla undir væntanlega byggingu og vegur að landfyllingu væntanlega fullhannaður miðað við samskipti byggingafulltrúa og ungverska fulltrúa Lakogep. Efni fundarins allt annað en fyrir nokkrum vikum síðan, enda hefur tíðarfar gert kleyft að klára það sem þarf til þess að verktakar geti hafist handa eftir að skipið kemur 19. mars 2026.

Landfyllingin hefur breyst á nokkrum vikum, en gríðarlegir efnisflutningar hafa átt sér stað bæði að landfyllingu og innan hennar. Efninu skipt niður eftir flokkun; grjót í grjótvörn, malað efni, grófefni og svo annað sem fer í undirlag við útsláttinn.

Þá liggur fyrir eftir helgina að færa grjótvörnina og stækka landfyllinguna að norðanverðu. Fyrirhugaður er fundur með Orkubúi Vestfjarða til þess að fara yfir lagnahönnun fyrir hafnarsvæði og tengingar við afhendingarstað raforku við Langeyri.  

Farsældarráð: Haldinn fundur vegna skipunar fulltrúa í farsældarráð, en þar er upplegg þar sem þarf að skipa í mismunandi stöður, en þær eru um 40 í allt. Um er að ræða tímabundið verkefni sem mun halda fram á vor 2027. Spurning hvað tekur við eftir það tímamark.

Hringferð Sambands íslenskra sveitarfélaga: Þrír fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þau Arnar Þór Sævarsson framkvæmdastjóri, Hugrún Geirsdóttir sérfræðingur í umhverfismálum frá stjórnsýslusviði sambandsins og svo samskiptastjóri sambandsins. Sveitarstjóri lagði fram kynningu á starfsemi sveitarfélagsins, áskoranir og það sem betur gengur. Fínn fundur sem er liður í því að kynna sambandið og tryggja milliliðalaust samtal við starfsfólk. Vel gert – löngu tímabært og gefur vonandi fyrirheit um betra samband við sveitarfélögin öll.

Úttekt – eftirlit með móttökuaðstöðu fyrir úrgang í Súðavíkurhöfn: Umhverfis- og orkustofnun mætti í eftirlit – Sigríður Kristinsdóttir teymisstjóri á umhverfissviði. Gerð var úttekt á sorpmóttöku við Súðavíkurhöfn. Reglur eru skýrar – reglugerð um móttöku á úrgangi og farmleyfum frá skipum nr. 1200/2014 og svo reglugerð nr. 1201/2014.

Rannsóknarnefnd Alþingis vegna snjóflóðanna í Súðavík 1995: Formaður nefndarinnar hefur verið talsvert í sambandi við sveitarstjóra vegna gagna og ekki síður vegna myndar af klukkunni í Grundarstræti. Uppleggið var að kanna hvort ákveðin gögn væru til hjá sveitarfélaginu – hættumatskort ásamt skipulagsuppdrætti. Annað þessara skjala fannst eftir talsverða leit, en hitt ekki. Þá var óskað eftir myndum af klukkunni í Grundarstrætinu til notkunar á forsíðu fyrir skýrsluna sem verður prentuð út og dreift til Alþingis við kynningu þann 15. desember nk. Nothæf mynd hefur verið send til nefndarinnar í  viðunandi upplausn. Gefur smá innsýn í hlutina sem bætast á skrifstofu Súðavíkurhrepps vegna rannsóknarinnar þó á lokametrum sé.  

Vikan 8. – 12. desember 2025

Fundur vegna sólmyrkva: Fyrirhugaður fundur vegna sólmyrkva sleginn af og boðaður aftur í janúar 2026.

Annað: Aðfararnótt mánudags 8. desember var netþjónn Súðavíkurhrepps notaður fyrir útsendingu svikapósta, en þann 3. desember varð öryggisbrestur eftir móttöku samskonar pósts sem sendur var út í nafni viðskiptamanns. Milli kl. 5:16 og 5:20 að morgni mánudags voru sendir út yfir 1000 póstar í nafni Súðavíkurhrepps með viðhengjum sem innihéldu annað hvort reikning eða slóð sem notuð er til að planta vírus í tölvukerfi viðkomandi. Fjölmargir höfðu samband upp úr miðjum morgni til að tilkynna um atvikið og var því haft samband við Advania sem sér um tölvumál fyrir Súðavíkurhrepp. Líklega er best að læra af þessu og fara í viðskipti við netöryggisþjónustu. Við fengum kynningu frá Syndis hér í byrjun þessa árs, en Advania taldi að við þyrftum ekki þá viðbót. En þann 3. desember var haft samband við Advania eftir að ljóst var að svikapóstur hafði verið opnaður, þeir keyrðu leit í kerfinu en fundu ekkert athugavert.

Fundur með Ískalk og Lakogep: Fundur með Súðavíkurhreppi og forsvarsmönnum Ískalks ásamt sendinefnd frá Lakogep sem er verktakinn í uppbyggingunni á Langeyri. Hópurinn var 9 manns, en þar voru verkfræðingur, verksmiðjustjóri og framleiðslustjóri ásamt forstjóran Ískalks, og fulltrúi Marigot. Þrír fulltrúar Lakogep og svo bættist sá fjórði við í hádeginu. Fundað var um allt sem tengist landfyllingu og tæknilegum atriðum sem varða verksmiðjuna fyrirhuguðu, en Lakogep spurði margra spurninga um allt milli himins og jarðar og ljóst að það verður nokkuð stíf áætlun sem þeir fylgja. Ágætis fundur þar sem flestu í óvissu hefur verið eytt.

Rannsóknarnefnd Alþingis ofl.: Rannsóknarnefndin hefur loks fengið sína forsíðu á skýrsluna sem kynnt verður eftir helgina með niðurstöðum úr rannsókn á snjóflóðunum í Súðavík 1995. Þessa vikuna hefur mikið verið falast eftir gögnum um sama efni og veltir upp spurningum um hvort ekki sé fullt traust á vinnu nefndarinnar.

Fjárhagsáætlun Súðavíkurhrepps 2026: Frekari yfirferð á fjárhagsáætlun - leiðréttir niðurstöðudálkar án frekari aðkomu. Útkoman er örlítið betri en reiknaðist í niðurstöðum – A- og B- hluti eru samanlagt neikvætt um 1,5 mkr. en A- hluti jákvæður um 2,651 mkr. meðan B- hluti er neikvæður um 4,2 mkr. Frábær útkoma hreint sagt miðað við öll áform um framkvæmdir og fjárfestingar.

Farsældarráð Vestfjarða: Haldinn var fundur um skipun stjórnar farsældarráðsins í vikunni. Margar stöður þarf að manna og munu Súðavíkurhreppur, Ísafjarðarbær og Bolungarvíkurkaupstaður skipta með sér þeim tveimur síðustu sem eru fulltrúar skólastjórnenda og foreldra í ráðið. Þar sem skólastjóri er að láta af störfum á næsta ári mun Súðavíkurhreppur ekki skipa það sæti, en skoða má fulltrúa foreldra í ráðið.

Annað minna markvert eða sleppt,

Bragi Þór Thoroddsen – sveitarstjóri.