Skýrsla sveitarstjóra er birt hér með örlitlum breytingum frá því sem lagt er fyrir sveitarstjórn. Efnislega er það sama að finna í skýrslunni en nálgun á hvern lið kann að taka breytingum frá grunnskjali til þess sem birt er á síðunni. Ekki vegna annars en að forsendur hvers liðar kunna að taka breytingum frá því það er ritað fram að fundi.
Hér er skýrslan fyrir 38. fund sveitarstjórnar kjörtímabilið 2022-2026 sem haldinn var í Álftaveri þann 28. nóvember 2025.

Skýrsla sveitarstjóra
fyrir 38. fund sveitarstjórnar Súðavíkurhrepp kjörtímabilið 2022-2026
Vikan 10.-14. nóvember
Mánudags morgunfundurinn kl. 10:00 var með starfsmanni Vestfjarðastofu – teymisstjóra markaðs- og menningar. Tilefni var sólmyrkvi 2026 sem verður nánar tiltekið 12. ágúst 2026. Frekari upplýsingar má m.a. finna á sólmyrkvasíðu Sævars Helga Bragasonar – Stjörnu-Sævars. Sjá hér: Almyrkvi á sólu á Íslandi 2026 | Sólmyrkvi 2026 Rætt um hvernig sveitarfélögin undirbúa sig undir viðburðinn. Ákveðið að halda c.a. mánaðarlega fundi, skoða umfang og áætla móttöku (safnsvæði) þeirra gesta sem kunna að heimsækja svæðið. Þess má geta að atburðurinn var ræddur á fundi sameiginlegrar almannavarnarnefndar Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps föstudaginn 21. nóvember 2025.
Hádegisfundurinn fór fram í Menntaskólanum á Ísafirði og var heimsókn Mennta- og barnamálaráðherra – Guðmundar Inga Kristinssonar. Rætt um hugmynd ráðuneytisins um að koma á fót menntaskrifstofum til þess að styðja við framhaldsskólastigið sem hafa fengið misjafnar móttökur. Um er að ræða stjórnsýslubreytingu og í raun sama upplegg og var með skólaskrifstofur fyrir barnaskólana áður. Einnig var rætt um byggingu verknámshúss sem hefur verið í skoðun undanfarin ár en fór út af fjárlögum sl. haust. Ljóst er að ráðherra vill byggja og ráðast í þetta strax en fyrirstaðan er að sögn í framkvæmasýslu ríkisins.
Frétt um fundinn á bb.is: Ráðherra heimsótti Menntaskólann á Ísafirði í gær | Bæjarins Besta
Langeyri: Síðastliðinn miðvikudag, þann 5. nóvember hófst Tígur efh. handa við að koma landfylligu í þá hæð sem skila á undir lóð og flytja að efni til þess að klára það sem útaf stendur. Innkoman á landfyllinguna að norðanverðu verður breiðari sem nemur því að garðurinn verður settur í beinni línu og kemur í hornið á gmlu bryggjunni við rækjuverk-smiðjuna til samræmis við deiliskipulag fyrir Langeyri. Einnig verður unnið samhliða, eftir veðurfari, að því að stækka fyllinguna um 40 m til norðurs. Mikið hefur unnist á stuttum tíma og áætlun að ganga eftir.
Tómstundir og hreyfing: Í samræmi við stefnu í málefnum barna- og ungmenna þá boðaði sveitarstjóri Ridial Fall á sinn fund til þess að ræða málefni félagsmiðstöðvar og tengd málefni. Fall var til í að sinna félagsmiðstöðinni og jafnframt taka að sér annað í tengslum við börn og ungmenni í Súðavík. Tillaga sveitarstjóra er að ráða Fall sem tómstundafulltrúa til samræmis við það sem hann hefur sett fram – heildstætt plan um aðgerðir fyrir börn og ungmenni í Súðavík. Jafnramt nefndi sveitarstjóri að koma með innlegg fyrir félagsstarfið í Súðavík, enda ágætt að hafa þar uppbrot á dagskrá varðandi hreyfingu, líffstíl og heilsu. Lagt fyrir sveitarstjórn að taka afstöðu til þessa erindis. Að mati sveitarstjóra er þetta metnaðarfullt innlegg sem við ættum að skoða með opnum huga.
Vikan 17.-21. nóvember
Vikan hefst á undirbúningi fyrir afgreiðslufund í svæðisskipulagsnefnd. Vinnslutillaga liggur fyrir og næstu skref eru að samþykkja það sem fer í augýsingu. Fundur svæðisskipulagsnefndar var þann 17. nóvember frá kl. 12:45 – 15:00. Á fundinum var farið er yfir umhverfismat, tillögu og innsend erindi ásamt stöðumati. Leggja þarf línurnar á fundi sveitarstjórnar um skipulagstillögu, en sveitarstjóri leggur til að tillagan verði lögð fyrir skipulags-, bygginga-, umhverfis- og samgöngunefnd. Erindið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórn þann 28. nóvember, en til ákvörðunar og afgreiðslu á fundi sveitarstjórnar þann 12. desember. Sjá frétt um málið á vefsíðu bb.is
Langeyri: Vinnufundur haldinn 19. nóvember kl. 15. Sveitarstjóri sat fundinn fyrir Súðavíkurhrepp ásamt byggingarfulltrúa og Vegagerðinni. Farið var yfir það helsta sem er framundan, skipulagningu tilflutnings á efni og uppmælingar á efnisþörf og línur skýrðar með atriði eins og hækkun grjótgarðs og fleira. Góður verkfundur og gefur tilefni fyrir bjartsýni um áætlun.
Vatnsveita: Búið er að uppfæra tölvukerfi og skynjara fyrir vatnsveitu og koma eftirlitskerfi í betra horf. Tölvubúnaður var allur uppfærður og aflestrarbúnaður sömuleiðis. Þessa dagana er verið að ganga frá nýju netfangi fyrir tilkynningarpósta – vatnsveita@sudavik.is og verður það til viðbótar við sms sendingar. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða var í sýnatöku á dögunum og liggur fyrir að gæði vatns standast allar kröfur sem fyrr. Borhola 7 og 8 eru til friðs báðar og kerfið er að virka, en talsvert bras hafði verið með borholu nr. 7 og því að mestu keyrt á varakerfi. Verið er að kanna með borun annarrar varaholu fyrir vatnsveituna, enda er það freistandi kostur til þess að leysa vatnsmál fyrir Langeyrina og Íslenska kalkþörungafélagið samhliða og hugsanlega að bora á svæðinu fyrir ofan Langeyri ef það gefur vatn.
Sólmyrkvi: Búið er að skipa starfshóp til þess að hafa umsjón með skipulagningu á öllu sem tengist ferðaþjónustu kringum sólmyrkvann í ágúst 2026. Fundur var haldinn í starfshópnum þann 10. nóvember og er áætlað að funda á um 1-2 mánaða fresti fram á vor 2026. Líklega verður fundað mun örar þegar nær dregur, en um er að ræða almyrkva á sólu og allt gistirými er uppselt frá því snemma á þessu ári á Vestfjörðum þennan dag. Búast má við fjölda fólks sem mun elta þá staði sem helst gefa gott útsýni að viðburðinum – sjá síðu stjörnu-Sævars: solmyrkvi2026.is Á síðunni má sjá kort yfir þá staði sem helst er hægt að njóta útsýnis og þá tímalengd sem hann varir.
Í tengslum við viðburðinn festi Ísafjarðarbær kaup á sólmyrkvagleraugum fyrir alla íbúa sína og bauð sveitarfélögum á Vestfjörðum að vera með. Súðavíkurhreppur keypti gleraugu fyrir sína íbúa, en kaupverð er kr. 17.420.- fyrir 295 gleraugu.
Farsældarráð Vestfjarða: Sveitarstjóri undirritaði samning um Farsældarráð Vestfjarða í vikunni. Eins og fram kemur í inngangsákvæði samningsins um markmið þá eru þau eftirfarandi: Sveitarfélögin vinna sameiginlega áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða um farsæld barna til fjögurra ára sem tekur mið af þingsályktun um stefnu og farsæld barna og framkvæmdaáætlun ríkisins og niðurstöðum farsældarþings. Sveitarfélögin vinna sameiginlega skýrslu um framvindu áætlana um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða á tveggja ára fresti.
Styrkbeiðni: Félag heyrnarlausra sendi erindi til Súðavíkurhrepps. Skrifstofustjóri er búinn með sína skúffupeninga fyrir styrkbeiðnir og leggur til að erindið verði fært undir skýrslu sveitarstjóra. Vísað til tp. dags. 19.11.2025 – Barnadagskrá heyrnarlausra. (erindi afgreitt á fundi sveitarstjórnar og samþykkt að veita 50 þúsund króna styrk í verkefnið) – sjá lið 5. í fundardagskrá sveitarstjórnar dags. 28. nóvember 2025.
Vikan 24.-28. nóvember
Vikan hefst á því að vinna að umgjörð um íbúafundinn í Súðavíkurskóla þann 29. nóvember. Jafnframt að fara yfir málefni Björgunarsveitarinnar Kofra. Þá lagði sveitarstjóri drög að fundi skipulags-, bygginga-, umhverfis- og samgöngunefndar á miðvikudegi fyrir sveitarstjórnarfund.
Á þriðjudegi liggur fyrir stjórnarfundur í Byggðasafni Vestfjarða, stjórnarfundur þar sem farið er yfir fjárhagsáætlun. Sveitarstjóri hefur ekki tök á að sækja þann fund en fyrir liggur fjárhagsáætlun sem ekki eru gerðar athugsemdir við af hálfu sveitarstjóra. Árstillag er liðlega 2 mkr. líkt og verið hefur, en hækkar líttilega fyrir árið 2026.
Fundur var boðaður í skipulags-, bygginga-, umhverfis- og samgöngunefnd á miðvikudegi. Klára þarf að fara yfir svæðisskipulagið ásamt breytingu á deiliskipulagi fyrir iðnaðar- og athafnasvæðið á Langeyri að ósk Íslenska kalkþörungafélagsins. Fleira er þar á dagskrá en fundur var sleginn af þar sem tilskilin mæting fékkst ekki af fulltrúum á fundinn (ýmsar ástæður fjarveru).
Erindi vegna listsýningar í Súðavík sem sent var á sveitarstjórn, en óskað var m.a. eftir því að fá lánaða klukkuna sem hangir uppi í Grundarstræti 1 úr gamla stjórnsýsluhúsinu í Súðavík. Sveitarstjóri vill ekki taka ákvörðun um það án þess að bera undir sveitarstjórn hver afstaða er til beiðnarinnar, hafði líka beint erindi til fræðslu-, tómstunda-, menningar- og kynningarnefndar.
Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.