Á síðasta fundi sveitarstjórnar þann 7. nóvember síðastliðinn var rætt um að opna skýrslu sveitarstjóra og miðla beint inn í samfélagið því efni sem þar er að finna. Með vísan til þess að það var niðurstaða fundarins verður það form eftirvegis, skýrslan sett hér fram í styttri útgáfu. Sveitarstjóri hefur á þessu skoðun þar sem vettvangurinn hefur verið í raun trúnaðarsamtal við sveitarstjórn. Hins vegar er í skýrslu sveitarstjóra samantekt sem geti verið góður upplýsingavettvangur til íbúa og því rétt að birta á heimasíðu sveitarfélagsins.
Í skýrslu sveitarstjóra notar sveitarstjóri vettvanginn sem upplýsingamiðlun til sveitarstjórnar um þau störf, fundi og annað markvert sem gerist í starfinu milli funda sveitarstjórnar. Og einnig sem almennan umræðuvettvang um það sem er framundan og nálganir við rekstur sveitarfélagsins. Þá hafa verið settar fram vangaveltur um stefnumörkun og fleira sem hefur jafnvel verið í tveggja manna tali og miðlað þannig áfram til sveitarstjórnar. Ekki hefur þessu verið haldið utan dagskrá leyndarinnar vegna, heldur frekar þar sem tíminn er afstæður varðandi það hvenær rétt er að birta suma hluti. Sum mál jafnvel á byrjunarreit og munu kannski ekki fara lengra, ekki klár til afgreiðslu eða birtingar en í einstaka tilvikum bókað undir liðinn í fundargerð um einstaka atriði. Engin fyriframgefin leynd hefur verið á því formi, heldur frekar upplýsingagjöf til sveitarstjórnar sem þróast hefur með sveitarstjórn og sveitarstjóra.
Skýrslan er eftirfarandi og stytt útgáfa að skýrslu sveitarstjóra frá fundinum:
Alþingi. Skýrslan hófst á því að sveitarstjóri gerði grein fyrir því að hafa verið kallaður inn á Alþingi sem varamaður vikuna 20. – 24. október. Finna má ræður og atkvæðagreiðslur sveitarstjóra sem þingmanns inn á vef Alþingis, en auk þessa var sveitarstjóri í nefndastörfum bæði í atvinnuveganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Sveitarstjóri flutti stutta tölu um afnám virðisaukaskatts á innviðaframkvæmdir sveitarfélaga og ræddi sameiningu sveitarfélaga við innviðaráðherra. Framundan er íbúafundur þar sem þau mál verða rædd frekar. Og til upplýsingar þá hefur sveitarstjóri farið fjórum sinnum inn á þing og notað til þess orlof vegna fjarveru, en sinnt brýnustu erindum frá degi til dags og tekið brýna fjarfundi þann tíma.
Heimsókn Rauða krossins. Rauði krossinn mætti til Súðavíkur þann 27. október og var tilefnið að leggja blómsveig að minningarreitnum um snjóflóðin 16. janúar 1995. Stuttur aðdragandi var að heimsókninni, en haldin var stutt og látlaus athöfn til að minnast þeira sem létust. Séra Fjölnir Ásbjörnsson flutti nokkur orð og svo var blómsveigur lagður að minningarreitnum og táknrænn þar sem um hring er að ræða sem táknar lífið. Þannig vildu þau ljúka sínum aðgerðum sem hófust eftir snjóflóðið, enda hefur Rauði krossinn á Íslandi verið samofinn hjálpar- og mannúðarstarfi vegna hamfara á Íslandi frá stofnun. Athöfnin var á margan hátt táknræn, kalt í veðri og viðstödd voru börnin úr leikskólanum Kofraseli ásamt starfsfólki, nokkrir aðstandendur, björgunarsveitin, starfsfólk Súðavíkurhrepps, prestur og Rauði kross Íslands.
Langeyri. Framundan er áframhaldandi vinna við Langeyri vegna landfyllingar. Í vetur verður unnið að stækkun fyllingarinnar um 40 m til suðurs, frágangur við aðkomu norðanvert. Samkvæmt samningi við Íslenska kalkþörungafélagið á að skila landfyllingunni í 4 m hæð y/s eða um 3,2 m y/s samkvæmt sjókerfi (hæðarkerfi sem hafnarsvið Vegagerðarinar styðs við). Unnið er að því í samráði milli aðila um að klára sem mest fyrir þann tíma þegar verktakinn frá Ungverjalandi mun hefjast handa við að reisa verksmiðju Ískalks. Áætlað er að skip komi þann 19. mars 2025 með forsteyptar einingar og því þarf að hraða verkefninu eftir föngum. Talsvert efni þarf að flytja að staðnum og það áætlað um 16000 m³ og jafnframt þarf að flokka það efni og taka mið af því hvað fer á hvern stað á landfyllingu. Steypuframkvæmdir vegna þekju við hafnarkant verða væntanlega í vor, en það verkefni er á hendi Vegagerðarinnar. Íslenska kalkþörungafélagið verður með erindi inn á íbúafund þann 29. nóvember nk. og verður væntanlega farið ýtarlega yfir það sem varðar uppbygginguna.
Fiskeldissjóður. Sveitarstjóri sat fund með stjórn Fiskeldissjóðs þann 29. október þar sem farið var yfir næsta úthlutunarár. Kynning og umræður um breytingar á regluverki sjóðsins sem lítur að fjölda og stærð verkefna og fleira sem varðar umsóknir. Sveitarstjórn mun skoða þau verkefni sem gætu hentað til umsóknar í sjóðinn.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Súðavíkurhreppur sendi inn umsókn til undirbúnings uppbyggingar á verkefni sem varðar forminjarnar í Vatnsfirði. Um er að ræða endurtekna umsókn þar sem fyrra erindi var synjað af sjóðnum. Áform eru uppi um veglega uppbyggingu á því svæði sem varðar gagnvirka útisýningu og frágang gönguleiða og aðkomu að svæðinu.
Skipulagsmál. Svæðisskipulag er langt komið, en unnið hefur verið að svæðisskipulagi fyrir Vestfirði undanfarna mánuði og ár. Skipulagstillaga verður lögð fyrir sveitarstjórnir viðkomandi sveitarfélaga til samþykktar og hefst þá eiginlegt kynningarferli. Um er að ræða viðamikla vinnu og verða því haldnir opnir fundir til kynningar fyrir íbúa og umhverfi.
Deiliskipulag fyrir svæði neðan Djúpvegar í Súðavík, frá svæði neðan við gatnamót Arnarflatar og Aðalgötu og inn að Langeyri. Um er að ræða svæði sem skilgreint hefur verið í aðalskipulagi sem frístundabyggð og opið svæði. Uppleggið er að bregðast við umsóknum um frístundahús á þessum reitum og því þörf deiliskipulagningar. Skipulagstillaga verður lögð fyrir næsta fund skipulags-, bygginga-, umhverfis- og samgöngunefndar til skoðunar og kynningar.
Annað. Sveitarstjóri og umsjónarmaður fasteigna sátu fund með Hagvís, sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í ýmsum lausnum fyrir fyrirtæki og sveitarfélög. Farið var yfir aðgengismál, aðgangsstýringar og fráveitumál. Búið er að óska eftir tilboði í aðgagnsstýringar fyrir stjórnsýsluhúsið og fá lyklalaust aðgengi með kortum og kóðum, bæði á innra og ytra byrði hússins. Þá hefur jafnframt verið óskað eftir tilboði í aðgagnsstýringu fyrir nýja hafnarsvæðið við Langeyri og tilboði í hreinsistöðvareiningar fyrir fráveituna.
Önnur smærri verkefni. Undanfarnar vikur hefur verið gengið frá skurðum, holum og haugum sem tengjast þeim framkvæmdaverkefnum sem voru í gangi í sumar og haust, bæði varðandi frágang við kanta og bekki auk verkefnis sem varðar heita potta í Súðavík. Unnið hefur verið við vatnsveitu Súðavíkurhrepps þar sem búið er að skipta út stýringum við borholur og tengja nýjan aflestrarbúnað til þess að fylgjast með neysluvatnsstöðu. Framundan er að hugað að frekari borunum eftir neysluvatni til þess að hafa varaleiðir við vatnsöflun.

Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.