Nýárskveðja frá sveitarstjóra

Við kveðjum merkilegt ár - 2022 þó það sé ekki með miklum trega. 

Það var vetrarfærð og álag á innviðum í byrjun ársins með endalausum snjómokstri, ófærð og lokunum á Súðavíkurhlíð í janúar og febrúar og veðurstofan gaf út metfjölda gulra, appelsínugulra og rauðra viðvarana frá því þeir tóku upp það kerfi.  Það þýðir í fámennum hreppi norðantil á Vestfjörðum að samgöngur voru erfiðar og hér voru strandaglópar sóttir inn í Djúp í tíma og ótíma og hér þurfti að græja gistingu og aðstöðu fyrir fólk á ferðinni sem ekki komst á áfangastað. Stór hluti af vinnutíma og frítíma sveitarstjóra fór í almannavarnahlutverkið ásamt þeim einstaklingum sem að því hlutverki koma hér. 

Rækja var ekki veidd í Djúpinu sem þýðir samdrátt í tekjum Súðavíkurhafnar og minni umsvif. En þrátt fyrir allt var róið frá Súðavíkurhöfn á strandveiðum þó allt hafi farið á versta veg með byggðakvóta. Hér var allt að einu blússandi gangur í sjóstönginni hjá Iceland Sea Angling. Það vó þó upp tekjumissi hafnarinnar að Háafell slagtaði regnbogasilungi og landaði í vinnslu í Súðavík. 

Þennan vetrartíma var samt sem áður klárað útboð á fyrirstöðugarði og uppdælingu efnis fyrir landfyllingu við Langeyri og hófst það verk í mars að keyra efni í garðinn. Það er mjög mikilvægur áfangi þar sem verkefnið er á samgönguáætlun og því tryggt að fjármagn ríkisins fari í verkið. Þá var gerður reki að því að bæta hafnaraðstöðu eftir að flotbryggjan okkar eyðilagðist í óveðri í lok september 2021. Ný flotbryggja var sett út og eldri flotbryggjan var yfirfarin og bætt. 

Stríð braust út í Evrópu eftir innrás Rússa í Úkraínu og hófst þar vargöld sem ekki verður séð fyrir endann á. Ísland fær þar stærra hlutverk en áður á slíkum tímum og liggur fyrir að metfjöldi flóttafólks hefur lagt leið sína til landsins. Súðavíkurhreppur hefur nú tekið á móti 12 manns frá Úkraínu í tveimur hópum. Fyrri hópurinn (fjölskylda) er farin en önnur jafnstór fjölskylda komin og dvelur hjá okkur í því skjóli sem við getum veitt. Ísland hefur enn fengið nýtt hlutverk með aðkomu sinni að NATO og þrátt fyrir herlaust land að mestu er okkar hlutverk ekki minna í því tilliti að aðstoða þá þjóð sem við höfum áður veitt liðsinni þegar ráðist hefur verið að höfuðborg þeirra í Kiev (Kænugarði). Þeir sem þekkja vel söguna vita að þar hafa íslenskir kappar lagt lið gegn innrás áður. En eins og fyrr þá dofnum við fyrir þessari neyð eftir því sem frá líður og fréttir af daglegum stríðsrekstri verða síbylja í fréttum, við vorum slegin fyrst en síðan verður þetta veruleikinn, því miður.

Hér kom sumar um síðir og var það ekki síst seinnihluti sumars sem var eins og það á að vera. Ferðafólk lagði leið sína um hreppinn og var ekki minna um að vera en vonir stóðu til þar sem Vestfirðir voru valinn áfangastaðurinn til að heimsækja af Loneley Planet árið 2020. Mikið líf var í Raggagarði sem var verðlaunaður af Ferðamálastofu, en allt umhverfi þar og aðgengi er keppnis og mikill metnaður hefur verið lagður í alla umgjörð. Það hefur gerst með áræðni Boggu og endalausum viðvikum heimamanna og velunnara í stækkun og endurbætur. Núverandi fyrirkomulag er þannig að Súðavíkurhreppur leggur til sumarstarfsmann fyrir utanumhald og eftirlit með garðinum og verður vonandi áfram. 

Skólinn fékk langþráða andlitslyftingu þegar þak skóla og íþróttahúss voru máluð í sumar, en einnig fékk Eyrardalshúsið andlitslyftingu með sama hætti. Ekki seinna vænna þar sem Eyrardalshúsið er mikið sótt yfir sumarið þar sem rekin er ferðaþjónusta og safn. 

Sveitarstjórnarkosningar fóru fram í maí og var það staðan að ekkert framboð kom fram með lista svo allir kjörgengir voru í boði sem ekki voru fyrirfram útilokaðir vegna fyrri setu í sveitarstjórn. Sveitarstjóri ásamt 9 öðrum einstakilungum fengu það hlutverk að setjast í sveitartjórn eftir kosningar. Það kom í hlut þeirra Anítu Bjarkar Pálínudóttur, Yordan Slavov Yordanov, Kristjáns Rúnars Kristjánssonar og Jónasar Ólafs Skúlasonar að manna sveitarstjórn aðalmönnum með sveitarstjóra. Varamenn eru Eiríkur Valgeir Scott, Kjartan Geir Karlsson, Dagbjört Sigrún Hjaltadóttir, Sigurdís Samúelsdóttir og Anne Berit Vikse. Samstarf hefur gengið með ágætum. Fráfarandi sveitarstjórn þakkar sveitarstjóri góðan tíma og gott samstarf. Þessar tvær sveitarstjórnir hafa fengið í fangið stórt hlutverk, en á fyrra tímabilinu lagðist ráðherra málaflokks sveitarstjórna í víking gegn fámennum sveitarfélögum með fulltingi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sú vegferð stendur enn og er Súðavíkurhreppur óæskilegt sveitarfélag í þeirri flóru sveitarfélaga sem til staðar eru. En hitt stóra verkefnið er að klára uppbyggingu atvinnulífs í Súðavík í bandalagi við Íslenska kalkþörungafélagið. Þeir hlutir eru nú að raungerast eftir langan aðdraganda frá árinu 2014. Einnig er komið að þeim tímapunkti að fiskeldi hefur byrjað af krafti í Ísafjarðardjúpi. Háafell sem er sem stendur eina fiskeldisfyrirtækið með eldisleyfi í Djúpi hefur sett um 1300000 seiði í Vigurál í sjókvíar og hefur starfsstöðvar í Súðavík. Merkileg vinna er í gangi varðandi skiptingu fiskeldisgjalds milli fiskeldissveitarfélaga, en í núverandi mynd er sjóðurinn á samkeppnisgrundvelli og úthlutar styrkjum í verkefni sem sótt er um. Viðræður um samkomulag milli þessara sveitarfélaga eru í þá átt að talsvert þarf að vinnast til þess að sátt náist um verkefnið. 

Eins og gengur og gerist hefur verið hreyfing á fólki í sveitarfélaginu. Einhverjir hafa flutt frá okkur og aðrir til okkar. Í nóvember 2022 voru íbúar Súðavíkurhrepps 235, en voru 205 þegar sveitarstjóri tók til starfa hér árið 2019. Mikið munar um uppbyggingu húsnæðis en fleira kemur til. Við vitum það sem búum í Súðavíkurhreppi að hingað er margt að sækja og við höfum alla burði til þess að geta verið aðlaðandi staður til þess að búa á. Við höfum í höndunum margt sem hægt er að efla og stækka, tækifæri í ferðaþjónustu og ekki síst með stórverkefni í atvinnumálum sem tengist verkefni hafnar og atvinnu við Langeyri. Og okkur fæddust börn, bæði í Súðavík og Reykjanesi þannig að hér er enn að fjölga. 

Haustið hefur einkennst af ýmsum áskorunum og næstum átökum fyrir sveitarstjóra í hagsmunabaráttu fyrir Súðavíkurhrepp. Er þar af ýmsu að taka, ekki síst skólamálum og tilvist Súðavíkurskóla. Þá hefur enn verið áformað að breyta viðmiðum Jöfnunarsjóðs í sama markmiði og lögum, en þeirri vegferð er beint gegn fámennum sveitarfélögum. Þess ber að geta að stór hluti tekna fámennra sveitarfélaga kemur gegnum Jöfnunarsjóð í dag og því er þetta mikið áhyggjuefni hvernig málin geta þróast. Sama er uppi á teningnum varðandi grænbók um stefnumörkun í málefnum sveitarfélaga. Sveitarstjóri sendi inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um bæði þessi verkefni og hefur þar lýst þeim álitamálum sem snúa að rekstri fámennra sveitarfélaga og hlutveki Jöfnunarsjóðs. En það skal vera den tid den sorg en ekki lita um of rekstur og stefnumörkun í dag. 

En veturinn var snjólaus fram í desember og tíðarfarið eitthvað það besta í manna minnum. En það kann að breytast fljótt eins og gengur og gerist á Íslandi. En við tökum einn dag í einu og erum þakklát fyrir það sem við höfum, ekki það sem var eða kann að vera. 

Að því sögðu vil ég nota tækifærið til þess að þakka ykkur öllum fyrir samferðina og samstarfið á árinu 2022 og vænti þess að við tökum öllu sem fylgir ári komandi með æðruleysi og jafnaðargeði. Höfum væntingar og temmilegar áhyggjur, hér gleðjumst við saman og hjálpumst að þegar þannig er. 

Gleðilegt nýtt ár komandi og takk fyrir það liðna. 

Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.