Sýslumaður Vestfirðinga, Jónas B. Guðmundsson, hafði samband við sveitarstjóra fyrr á þessu ári. Meðal verkefna sem sýslumannsembættinu var falið var að fara ofan í ýmis félög og stofnanir og kanna tilvist þeirra og virkni, en fjölmörg félög stofnanir og sjóðir hafa verið stofnsett í gegnum tíðina og eru mis virk í dag. Eitt af því sem fannst við þessa yfirferð sýslumannsembættisins var Menningarsjóður Súðavíkurhrepps.
Við skoðun á sjóðnum fannst skipulagsskrá frá 1965 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda í febrúar 1965. Samkvæmt skipulagsskránni heitir sjóðurinn Menningarsjóður Súðavíkurhrepps og var stofnaður af hjónunum Þuríði Magnúsdóttur og Grími Jónssyni frá Súðavík til minningar um hjónin Jón Velgeir Hermannsson og Guðrúnu Jóhannesardóttur í Súðavík. Þar segir að sjóðurinn taki við eignum Sjúkrasamlags- og styrktarsjóðs Súðavíkurhrepps stofnuðum 1929 af Jóni V. Hermannssynim bónda í Súðavík og Grími syni hans. Stofnfé var kr. 213 750.00.
Sjóðurinn skyldi hafa það markmið að hlúa að menningarmálum í Súðavíkurhreppi og mátti verja til þess helmingi árlegra vaxtatekna sjóðsins og skyldi hinum helmingi við höfuðstól sem aldrei mætti skerða. Jafnframt kom fram að á afmælisdegi Gríms Jónssonar þann 5. apríl 1970 skyldi gefa öllum börnum fæddum á árinu 1960 til 1964 100 kr. innistæðu og skyldi svo vera árlega fyrir hvert barn fætt almanaksárið á undan.
Í stjórn sjóðsins skyldi skipa sóknarprest, sýslumann og oddvita hreppsnefndar.
Ekki liggur fyrir fundargerðabók eða annað sem upplýsir um hvernig úthlutað var eða hversu lengi sjóðurinn var með raunverulega starfsemi samkvæmt skipulagsskrá og samþykktum. Sjóðurinn hefur að öllum líkindum legið í dvala um nokkurn tíma.
Sýslumaður, Jónas B. Guðmundsson, hafði samband við þá sem falla undir skipulagsskrá sjóðsins og skipaði nýja stjórn og boðaði til fundar stjórnar.
Á fundi sem haldinn var í Súðavík þann 12. desember 2025 fór ný stjórn, skipuð samkvæmt skipulagsskrá, yfir fyrirliggjandi skipulagsskrá og hlutverk sjóðsins. Stjórnina skipuðu þau Hildur Inga Rúnarsdóttir prestur, Jónas B. Guðmundsson sýslumaður og Kristján Rúnar Kristjánsson oddviti. Sveitarstjóri sat einnig fundinn án sérstaks hlutverks í stjórn. Fundurinn ákvað að leggja sjóðinn niður þar sem örðugt er að halda markmið sjóðsins í heiðri í núverandi mynd. Tók stjórn þá ákvörðun að finna þeirri inneign hlutverk sem sjóðurinn bjó yfir. Staða reiknings sjóðsins á fundardegi var rétt um 1,8 mkr. Einhugur var með stjórn að ánafna fjármunina Raggagarði í Súðavík, enda uppfyllir hann þau markmið sem sjóðnum var ætlað. Sjóðurinn á að styðja við menningarstarfsemi og börn í Súðavíkurhreppi, sem sannarlega fer saman við starfsemi Raggagarðs. Að því tilefni var haft samband símleiðis við primus motor í Ragaggarði - Vilborgu Arnarsdóttur - Boggu í Raggagarði eins og hún svarar til alla jafna til nafns.
Um leið og Menningarsjóður Súðavíkurhrepps hefur formlega lokið hlutverki sínu var lokaúthlutun sjóðsins varið til styrktar Raggagarði í Súðavík.
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.