íbúafundur

Íbúafundur í Súðavíkurskóla 29. nóvember 2025

Fundurinn hófst á því að fundarstjóri, Annska (Anna Sigríður Ólafsdóttir), og fundarritari Magnús (Magnús Bjarnason), voru sett í embætti af sveitarstjóra sem afhenti þeim stjórn fundar og dagskrá. Fundur var ágætlega sóttur og um 60 gestir viðstaddir.

Fundarstjóri kynnti dagskránna og bauð fyrsta frummælanda að flytja erindi sitt.

Fyrstur var Halldór Halldórsson forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins sem kynnti starfsemi félagsins og áform í Súðavík. Fram kom að uppbygging verksmiðju á landfyllingu á Langeyri mun hefjast í maí 2026 og verða lokið í október sama ár. Þá verði vélbúnaður og annað sem tilheyri starfseminni klárt í júní 2027. Halldór fór yfir umfang starfsemi, verktaka sem sinna uppbyggingunni og húsnæðismál. Fram kom að stefnt sé að því að húsnæði fyrir starfsmannaaðstöðu á uppbyggingartíma verði nýtanlegt sem frístundahús til framtíðar. Verksmiðjan muni starfa 24 tíma sólarhringsins og að æskilegast væri að sem flestir starfsmanna yrðu búsettir í Súðavík eða sem næst starfseminni. Vörum félagsins verður skipað út frá Súðavíkurhöfn.

Næstur var Gauti Geirrson framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins Háafells. Gauti fór yfir það helsta sem varðar uppbyggingu sjókvíaeldisins og seiðaeldisstöðvarinnar á Nauteyri. Fór hann yfir helstu áskoranir og stefnu félagsins í eldismálum. Félagið er varfærið og byggir upp til framtíðar með langtímaárangur í huga. Háafell starfar eingöngu í Ísafjarðardjúpi, en starfsemin nær yfir þrjú sveitarfélög. Starfsmannafjöldi er um 32 í dag og kemur starfsfólkið víða að á Vestfjörðum. Þá rakti hann leyfamálin og helstu breytingar í eldismálum við Djúp, en í dag er unnt að hafa eldissvæði innan Æðeyjar. Áskoranir eru lagaumgjörð og ekki síður laxa- og fiskilús. Félgið hefur allt að einu náð mjög góðum árangri í baráttu við lúsina með lasertækni, hrognkelsum, lúsapilsum og ferskvatni og undanfarin tvö ár án lyfjameðferðar. Þá er uppbyggingin á Nauteyri mikilvæg til þess að ala seiði lengur og setja út stærri seiði. Fram kom að árangur hefur verið góður – lifun góð og afföll um 6,7% á ársgrundvelli. Þá er félagið að byggja upp traust á starfseminni.

Því næst kom Þorsteinn Másson framkvæmdastjóri Bláma og kynnti starfsemi Bláma og verkefni í Súðavík sem þau Þorsteinn Másson og Tinna Rún Snorradóttir hafa staðið að með Súðavíkurhreppi. Í Súðavík er tekið vatn úr gömlu vatnsveitunni og leitt gegnum segulhitara til þess að framleiða heitt vatn. Varmaskiptar hafa verið settir upp til að tengja við heita potta til þess að halda jöfnum hita og tryggja stöðugleika. Í því verkefni felst tækifæri til uppbyggingar á aðstöðu í náttúrunni líkt og á Drangsnesi. Í verkefninu er nálgun á nýja tækni, að færa orku úr vatni sem er ekki eins létt og það hljómar kannski. Um er að ræða þróunarverkefni og fullt af óvissuþáttum sem þarf að taka sem áskorun. Súðavíkurhreppur hefur stutt við verkefnið og haft þolinmæði fyrir þeim tilraunum sem felast í verkefninu. Verkefnið er styrkt af Fiskeldissjóði. Þorsteinn bendir á að ef við viljum geta fullnýtt þau tækifæri sem eru í boði þá þurfi samgöngubætur og jarðgöng milli Súðavíkur og Ísafjarðar séu forsenda þess og einnig forsenda vaxtarmöguleika eins og dæmið sanni í Bolungarvík. Engin Drymla hefði risið í Bolungarvík nema fyrir jarðgöng sem leystu af Óshlíðina. Framundan sé uppbygging raforkuframleiðslu og afhending í Súðavík og samgöngubætur myndu styrkja svæðið mikið. Jarðgöng og varmadælur fari vel saman þar sem vinna megi með berghita sem sé að finna á svæðinu og sé að mörgu leyti á pari við jarðhita.

Eftir þessi þrjú erindi voru fyrirspurnir og umræður. Spurningum var beint til allra framsögumanna varðandi starfsemi þeirra fyrirtækja sem þeir tengjast. Spurt var um kvíastæðu fyrir framan þorpið í Súðavík, um vatnshreinsun vegna starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins, um rykmengun vegna starfseminnar og svo um fjölda starfa við verksmiðju. Þess má geta að greinargóð svör fengust við öllum spurningum. Þá var spurt um seiðaeldið á Nauteyri og um laun fyrir störf við veksmiðjustarfsemi og staðsetningu þeirra sem vinna við kalkið. Þá var spurt um bílastæði vegna heitupottaaðstöðu í verkefni Bláma og Súðavíkurhrepps. Deiliskipulagsdrögum var varpað upp á skjá í því samhengi. Nefndar voru fuglarannsóknir á Langeyrarsvæðinu og hugmyndir um fuglaskoðun og friðun. Minnst var á varmabrensu, en því til svarað að um væri að ræða mikla verkfraæðilega óvissu. Þá kom athugasemd frá Ískalk um aðlögun húsa við Langeyri, varðandi litaval – grátt eða grænt eins og á Bíldudal.

Eftir kaffihlé kl 14:00 var uppleggið sameiningar sveitarfélaga og svo Súðavíkurhreppur í nútíð og framtíð – umræður. Framsaga hófst kl. 14:20.

Gylfi Ólafsson formaður bæjarráðs Ísafjarðabæjar og formaður Fjórðungssmabands Vestfirðinga var með framsöguerindi um sameiningarmál á Vestfjörðum. Lagði hann upp með verkefni sem ber vinnuheitið Sjávarbyggð. Með innleginu taldi hann upp þrjú hagsmunamál Vestfirðinga: Orkuframleiðsla og þar með Hvalárvirkjun sem kost sem er að fara að raungerast á næstu árum. Laxeldi og að Háafell m.a. væri raunverulega í fjórum sveitarfélögum. Fræðslumál og samstarf um skólastarf sem sé erfiðara ef skólar eru í sitthvoru sveitarfélagi. Minnti á frumvarp þar sem endurskoðun um 80 greina sveitarstjórnarlaga væri uppleggið. Þá lægi fyrir breyting sem festi í sessi valdleysi landshlutasamtaka á borð við Fjórðungssamband Vestfirðinga og Vestfjarðastofu, ekki væri áhugi á þriðja stjórnsýslustiginu. Þá væru breytingar yfirstandandi varðandi svietarfélagastigið og mest áhrif væru á fámenn sveitarfélög eins og á Vestfjörðum. Ef verkefnið Sjávarbyggð fengi framgang (Ísafjarðarbær, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Kaldrananeshreppur og Árneshreppur) yrði til 3. landmesta sveitarfélag landsins en um leið lang-stærst varðandi strandlengju.

Að loknu erindi voru umræður og spurningar.

Fram komu ýmis sjónarmið um kosti og galla sameininga og samskipti Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar. Heilt yfir var ákall um stuðning Ísafjarðarbæjar um samgöngubætur við Djúpveg um Súðavíkurhlíð. Einnig var rætt um þær óformlegu viðræður sem væru í gangi við Djúp um sameiningu sveitarfélaga. Fram kom ólík sýn á áform innviðaráðherra um að hafa forgöngu um sameiningu sveitarfélaga undir 250 íbúa og kristallaðist ólík skoðun eftir því hvort horft var frá stærra eða minna sveitarfélagi.

Að lokum voru umræður og fyrirspurnir um framtíð og nútíð Súðavíkurhrepps, en þar gafst íbúum og fundarmönnum kostur á að beina fyrirspurnum eða ábendingum til sveitarstjórnar. Sveitarstjóri, oddviti og tveir kjörnir fulltrúar að auki sátu í pallborði og svöruðu að mestu spurningum sem beint var til þeirra.

Fram komu spurningar um ferðamálafulltrúa sem ekki er starfandi, lið í fjárhagsáætlun sem varðar upplýsingamiðstöð. Vangaveltur um verslun á staðnum, opnunartíma og vöruframboð. Ábending til íbúa um að nota þá verslun þar sem rekstrargrundvöllur myndi ráðast af því að verslað væri í heimabyggð að einhverju leyti. Að verslun væri hluti almannavarna fyrir aðgengi að vörum í einangrun. Rætt um framtíðarmynd á þorpinu í Súðavík með augum aðkomumanna, tjaldsvæði, heimasíðu sveitarfélagsins og skort á upplýsingum þar. Bent á síðuna Íbúasamtök Súðvíkinga á Facebook sem upplýsingaveitu. Komið inn á Súðavíkurhringinn (göngustíg) sem er vaxinn gróðri og ófær, samkomuhúsið og brýna þörf á lagfæringum og endurbótum. Upplýst að það standi til og áform um að breyta og hanna meðan það er enn hægt áður en húsið verður friðað. Óskir um að samráð yrði um endurbætur á samkomuhúsinu. Spurt var um vatnsveitu og hvort hún anni því sem þarf til fyrir Langeyri og vegna vatnsafgreiðslu til fiskeldis. Upplýst um stöðu vatnsveitu og áforma um lagnavinnu samhliða lagningu jarðstrengs til Langeyrar og framtíðaráforma um frekari boranir til að setja upp auka veitu. Spurt um sorpskýli sem keypt voru en hefur ekki verið ráðstafað. Upplýst að óánægja hafi verið í Inndjúpi með þær breytingar sem reynt var að fara í þar í vor, en skýlin yrðu nýtt í annað og m.a. á hafnarsvæði. Spurt um það hvort laus störf verði auglýst hjá sveitarfélaginu og því svarað að það væri almennt þannig. Þá var spurt um tómstundastarf með börnum og ungmennum í Súðavík, en upplýst að búið væri að semja um starf tóstundafulltrúa sem verður ráðinn í það hlutverk. Rætt um starf skólastjóra þegar kemur að því að ráða í Súðavíkurskóla og vangaveltur um húsnæði. Sveitarstjórn upplýsti að til stæði að byggja í Súðavík. Umræður um hvort hægt væri að reysa þjónustkjarna fyrir eldri íbúa sem vilja minnka við sig, en það er til skoðunar varðandi fyrirkomulag uppbyggingar nýrra íbúða. Spurt um lýsingar á göngustígum í þorpinu og þar rætt um að bæta lýsingu fyrir tvo göngustíga enda aðrir upplýstir. Rætt um göngukort og lýsingu á göngustígum fyrir heimasíðu og ábendingar um efni til að setja þar inn. Í framhaldi vikið að Seljalandi og stígum að Valagili.  

Sveitarstjóri óskaði eftir afstöðu fundarins varðandi sameiningarmál. Helstu raddir settu sameiningar sveitarfélagsins í samband við að gerð yrðu jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar, aðrir voru á móti sameiningu og enn aðrir vildu skoða sameiningu við Ísafjarðarbæ eða sveitarfélögin við innanvert Djúp til Stranda. Einnig kom fram að ef sameining ætti sér stað að hætta væri á því að frestun jarðgangagerðar gæti fylgt því. Ýta þyrfti undir stuðning Ísafjarðarbæjar við samgöngubætur við Djúpveg með jargöngum. Djúpvegur væri áfram þjóðleiðin þrátt fyrir Dynjandisheiði, ekki síst varðandi þungaflutninga.

Þá var áréttað að þjónustukjarni þyrfti að vera til staðar í Súðavík til þess að tryggja eldra fólki samastað í sveitarfélaginu. Sveitarstjóri nefndi að undanfarin ár hafi aðgerðir og afstaða Ísafjarðarbæjar síst styrkt stöðu Súðavíkurhrepps, hvorki í samgöngum eða varðandi stöðu sveitarfélagsins á sveitarfélagastiginu.

Fundi lauk formlega kl. 16:00 en umræður og fyrirspurnir héldu áfram til um 16:20.