Hvalreki við Mjóafjörð

Tilkynnt var um strandaðan búrhval við utanverðan Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi í gær.

Sveitarstjóri fékk skilaboð frá Aðalsteini L. Valdimarssyni á Strandseljum um strandaðan hval utanvert í Mjóafirði. Stuttu síðar hringdi Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn á Ísafirði og tilkynnti sveitarstjóra um strandaðan búrhval um 2 km austan við Ögurnes. Sérfræðingar frá Hafró höfðu að sögn verið á ferðinni og staðfest tengund hvals og að hvalurinn væri á lífi. Fram kom í samtali við Hlyn Snorrason að búið væri að hafa samband við hlutaðeigandi stofnanir og að Björgunarsveitinni Kofra í Súðavík tilkynnt um málið og ákveðið að fara á staðinn og kanna með hvalinn, meta aðstæður og möguleika til björgunar. Björgunarsveitin Kofri bjó sig undir útkallið og mannaði bátinn og sveitarstjóri slóst í för með þeim þar sem málið varðar sveitarfélagið samkvæmt tilkynningu. Næstu skref væru að átta sig á því hvar hann væri nákvæmlega staðsettur varðandi aðlæga jörð. 

Lagt var af stað frá Súðavíkurhöfn um kl. 21:20 og siglt inn Djúp. Veður var ekki hagstætt, en vindur um 15-17 m/sek og aðeins hreyfing. Eftir að hafa þrætt bát björgunarsveitar um sker við Ögurnes hófst leit að hvalnum, en dimmt var og bára og ekki auðvelt að finna hvalinn í myrkrinu. Hvalurinn fannst svo um kl. 22 en ljóst að engin hreyfing var á honum og gekk sjór yfir hann. Var það metið svo á staðnum að ekki væri lífsmark með hvalnum og auk þess erfitt að komast að honum á sjó eins og aðstæður voru, bæði grunnt og skerjótt og erfitt að athafna sig . Þá var frekar óljóst hvernig ætti að standa að björgun svo stórrar skepnu, en samkvæmt þeim upplýsingum sem fylgdu útkallinu var áætlað að búrhvalurinn væri líklega um 12 m langur og eftir því þungur. Enginn var á staðnum í landi og því ekki um annað að ræða en að nota kastara til þess að finna hvalinn í sjó. Þar sem fremur þröngt var um Svaninn, bát björgunarsveitarinnar, var erfitt að athafna sig við leit með kösturum. Það hafðist þó með töluverðri áræðni en dugði þó skammt þar sem aðstæður voru eins og áður er lýst. Snúið var til hafnar og mannskapurinn kominn til Súðavíkur rétt um kl. 23.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem komu frá tilkynnanda, sem hafði samband í morgun, þá var við skoðun ekki að sjá að lífsmark væri með hvalnum sem var á sama stað og hann fannst í gær. Ljóst er að næstu skref eru að meta hvað gera á við hræið af hvalnum og tryggja að ekki stafi af honum mengun eða annað sem slíku fylgir. 

Meðfylgjandi myndir hér fyrir neðan eru aðsendar en aðrar framar í fréttinni tók sveitarstjóri á vettvangi. 

 

Sjá myndband - facebooksíða Magnúsar Erlingssonar: