Gleðilegt sumar

Kæru íbúar Súðavíkuhrepps. Samkvæmt dagatalinu er komið sumar, sumardagurinn fyrsti er í dag 22. apríl 2021 og markar þannig nýja árstíð og boðar vonandi gott tíðarfar.

Á vísindavef Háskóla Íslands segir um sumardaginn fyrsta: Sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár, eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25. Á þessum tíma er hlýnun á vori komin vel í gang, meðalhiti 25. apríl er 0,3 stigum hærri en 19. apríl.

Eins og okkur flestum er ljóst er reyndar allra veðra von á þessum árstíma og dæmi um hret yfir sumarmánuði á Íslandi. En það er allt í lagi. Dagurinn er orðinn langur, sólin skín þó það snjói og hann tekur upp eftir örskotsstund þó alhvít jörð verði á milli. En það er ekki síst í hjarta okkar og sinni sem þetta skiptir meira máli. Að vita hvað er framundan, mildari dagar og lengri, albjört nótt og stemmning sem ekki næst nema á sumardögum á Íslandi.

Ég þakka ykkur öllum fyrir liðinn vetur, en hann var sem betur fer mildur og snjóléttur. Við horfum fram á bjartari tíð og megi sumarið vera ykkur gott.

Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.