Gefðu íslenskunni séns

Verkefnið sem kynnt var í gær byggir á námsskrá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og verðlaunaverkefninu hans Ólafs Guðsteins Kristjánssonar, Gefum íslensku séns.  Hann var með kynningu og svo tóku þær Barabara Maria Gunnlaugsson og Sædís María Jónatansdóttir við keflinu og fræddu gesti nánar um verkefnið.  Fara á af stað með samfélagsverkefni hér í Súðavík til þess að miðla íslensku með námskeiði og jafninngjafræðslu þar sem markmiðið er að allir taki þátt. Inn í þetta verður fléttað menningarlæsi og fræðslu um íslenskt samfélag. Markmiðið er að allir læri eitthvað af þessu og frábært ef við kynnumst betur og virkni í samfélaginu okkar aukist. Sú staðreynd er að 33% íbúa Súðavíkurhrepps eru af erlendu bergi brotin og móðurmál ekki íslenska, kallar á að við reynum að bregðast við því með þátttöku sem flestra.  Verkefnið er afrakstur af fundum sveitarstjóra með Fræðslumiðstöð Vestfjarða þar sem Sædís og Barbara buðu sveitarstjóra á kynningu með Ólafi þar sem hann fór yfir verkefnið sitt. Það er frábært tæki sem við ættum að nýta okkur, enda hefur það vakið athygli og fengið verðlaun fyrir bæði framsetningu og virkni.

Bragi Þór Thoroddsen

ljósmyndir Th. Haukur