Framtíðargámasvæði og geymslusvæði í Súðavík

Að gefnu tilefni vill Súðavíkurhreppur benda á að stefnt er að því að framtíðar geymslu- og gámasvæði verði á gamla fótboltavellinum neðan Sauradals. Þau leyfi sem gefin hafa verið út (stöðuleyfi) fyrir gáma og annað á hafnarsvæði og Langeyri hugsast sem tímabundin þar til búið er að laga aðkomu að geymslusvæði og jafna undirlag. Ef gefið er út stöðuleyfi fyrir gám er ekki þar með gefið leyfi fyrir geymslu á öðru utan við gáminn eða til annarra athafna á svæðinu. 

Samkvæmt þeirri stefnu sem samþykkt var í skipulags-, bygginga-, umhverfis- og samgöngunefnd á kjörtímabilinu 2018-2022, og staðfest var af sömu sveitarstjórn, stendur til að einungis verði gefin stöðuleyfi fyrir gáma og tilheyrandi á því svæði nema í undantekningartilvikum tengt annari starfsemi s.s. við höfn eða vegna yfirstandandi vinnu. 

Þá er einnig á það minnt að ekki verður viðhaft það fyrirkomulag að leita samþykkis eftirá, og er heimilt að láta fjarlægja það sem þannig er komið fyrir á kostnað eigenda að undangenginni áskorun. Fyrir liggur að ný reglugerð tekur gildi þann 1. janúar 2023 um alla slíka starfsemi þar sem takmarkanir á geymslu bifreiða og annarra tækja, sem ekki eru á númerum eða í umferð verður verulega takmörkuð utan eignarlanda viðkomandi. 

Höldum umhverfinu okkar þannig að við getum verið stolt af. 

Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.