Framkvæmdir við Langeyri

Þessa dagana er Tígur ehf. að byrja á efnisöflun og yfirlögn kjarna og efnis yfir landfyllinguna við Langeyri. Tekið verður efni af Súðavíkurhlíð og ætti það að vera gleðiefni að hún í það minnsta minnkar að einhverju leyti. Áætlað er að flytja um 13600 m3 af efni sem flokkast sem kjarni og efni. Sprengja þarf efni á Súðavíkurhlíð, en annað er fleygað og grafið. Því verða yfirstandandi efnisflutningar frá Súðavíkurhlíð að Langeyri næstu dagana. 

Stálþil er í útboðsferli og verður hafist handa við að reka það niður árið 2024. Tímasetning liggur ekki fyrir, en farið verður í verkefnið svo fljótt sem unnt er. Þá er átælað að steypa þekju fyrir nýja höfn vorið 2025 og um sama leyti mun Ískalk hefja vinnu við að reysa sér húsnæði á landfyllingunni. Áætlaður verktími uppbyggingar verksmiðju er 9-24 mánuðir. Flest af þessari tímalínu er með fyrirvara um allt sem kann að koma upp á og mun án efa gera það. Hins vegar er tímalínan vel rúm þannig að ekki er ólíklegt að hún standist í grófum dráttum.