Áramótakveðja Súðavíkurhrepps 2023

Kæru íbúar Súðavíkurhrepps og samferðafólk.

Þrátt fyrir ýmiss konar blikur og kólguský sem verða ekki síst til á Alþingi í garð sveitarfélags af þeirri stærðargráðu sem við byggjum er útlitið allt annað en dökkt. Má þar helst nefna að enn er lagt að okkur að leysa úr því að við skulum ekki vera fleiri en 1000 íbúar og þarfnast það frekari skoðunar. Og á sama tíma er verið að endurskipa innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar sem við ásamt nokkrum öðrum teljumst hafa notið ofjöfnunar framlaga úr sjóðnum. Þetta er kaldhæðnislegt meðan á sama tíma er verið að loka síðustu opinberu stofnunum sem hér hafa verið s.s. póstþjónustu. Er það sveitarstjóra umhugsunarefni til hvers Jöfnunarsjóður er í raun ef ekki til þess að mæta slíku. Hér er ekki kvóti í neinu formi sem varðar sjávarútveg og trauðla hefur gengið að nýta þann byggðakvóta sem Súðavík er markaður. 

En það er ekki allt á þennan veg. Hér eru framkvæmdir og nokkuð stöðug íbúabyggð, fjárhagur sveitarfélagsisns sterkur í samanburði á landsvísu. Framkvæmdum við Langeyri miðar vel og verður næsta ár komandi nokkur vendipunktur varðandi útlit og ásýnd. Upphafið að nýjum hafnarframkvæmdum sem gefa góða möguleika á atvinnusköpun okkur öllum til heilla. Flest hefur fallið með okkur þó auðvitað megi alltaf gera betur og gera meiri kröfur til okkar sjálfra. Og það er fæst vegna utanaðkomandi aðstoðar.  

Árið hefur gengið flestum hér stóráfallalaust, en framgangur lífsins markar okkur öll og sumt er ekki umflúið. Börn fæddust í sveitarfélaginu og aðrir hurfu á braut. Byggð treystist í Reykjanesi eftir langan tíma samdráttar. En það er samt langt á milli bæja í Djúpi. 

Súðavíkurhlíðin minnti á sig og gerði jólahald hér með öðru sniði rétt um aðfangadag og jóladag. En á sama tíma er verið að vinna verðmætt efni úr hlíðinni til uppbyggingar á athafnasvæði við Langeyri. Vonandi verður það táknrænt varðandi þennan veg. Súðavíkurhöfn hefur gengið í gegnum nokkra endurnýjun með bættri aðstöðu og nokkuð tíð umferð hefur verið stærri skipa þar um með uppskipun á laxafóðri og búnaði til fiskeldis. En vonandi berum við gæfu til þess að landa þar um fiski til frambúðar. 

Þá er langt komið með að tengja hér allt ljósleiðara í sveitarfélaginu og fyrstu áföngum að ljúka með tengingu þrífasa rafmagns. Fátt breytist til hins betra nema þessir hlutir séu í lagi. Ég vil nota tækifærið á síðasta vinnudegi fyrir áramótin að þakka öllum íbúum og samferðafólki ánægjuleg kynni og samskipti á árinu. 

Fyrir hönd Súðavíkurhrepps vil ég óska ykkur gleðilegs nýs árs komandi og þakka um leið fyrir árið sem er að líða.

Og ég vil minna á að hér verður brenna á gamlársdag og viðeigandi fjáröflun Björgunarsveitarinnar Kofra:

Flugeldasala Bj.sv. Kofra verður opin í Samkomuhúsi Súðavíkur sem hér segir.
29. Des. frá kl: 18-21
30. Des. frá kl: 13-16
31. Des. frá kl: 12-15
6. Jan. frá kl: 17-19
Boðið verður upp á heitt súkkulaði og vöfflur m/rjóma.☕️
Styrkjum Björgunarsveitina í okkar heimabyggð.🎆🎇
Óskum íbúum Súðavíkurhrepps gleðilegs nýs árs og þökkum stuðninginn á árinu.
Kveikt verður í áramótabrennunni kl. 20:30 á gamlárskvöld í fjörunni fyrir neðan grunnskólann, flugeldasýningin hefst kl. 21:00.
 

Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.