Sitemap
TextSizeButtonSmall TextSizeButtonMed TextSizeButtonBig
Valmynd2
lifid
« 2020 »
« ┴g˙st »
S M Ů M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          
lifid
Facebook Skolastarfsemi Skolar dagskra
Utgefid efni
sunnudagurinn 2. febr˙ará2020

Jan˙ar 2020

Þá er þessi magnaði janúar 2020 liðinn. Margir eflaust fegnir enda gekk talsvert á veðurfarslega. En það var líka gjörningaveður í fleiri en einni merkingu og því barasta ágætt að ekki verða fleiri janúardagar þetta árið. 

Fyrir utan flóð í nágrannasveitarfélaginu Ísafjarðarbæ er líkast til nærtækast að horfa til þess hversu samgöngur rofnuðu ítrekað um Súðavíkurhlíð auk þess sem oft var lokað á Steingrímsfjarðarheiði og um Þröskulda. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var Súðavíkurhlíð lokuð alls 9 sinnum í 8 klst eða lengur í janúar. Það er jafn oft og allan síðasta vetur og gefur kannski glögga mynd af því þegar hér ríkir vetur. Farið að bera á vöruskorti á "stór Ísafjarðarsvæðinu" um miðjan mánuðinn og hafði líka áhrif á starfsemi fyrirtækja og allt líf hér vestur á fjörðum. 

Pólitíkin tók toll, hvernig sem það bar að, en bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar er farinn. Fyrir mína parta tel ég missi af honum, enda frambærilegur fyrirsvarsmaður fyrir sveitarfélagið og margt til lista lagt. En óþarft að fabúlera um ástæður enda margar hliðar á hverju máli. Fyrir mína parta, góð kynni og ánægjulegt samstarf við Guðmund Gunnarsson. Óska ég honum velfarnaðar hvað sem hann tekur sér fyrir hendur. 

Stjórnsýslan var líka sett í sérstakar skorður að mínu mati. Ég dreg ekki dul á það að ég er afar ósannfærður um að réttmætt hafi verið að ákvarða svo um örlög sveitarfélaga í landinu líkt og gert var með samþykkt þingsályktunartillögu um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga á alþingi nýverið. Ég tel að þar hafi verið stigið varhugavert skref í því að virað að vettugi sjálfsákvörðunarrétt og jafnframt virða að vettugi sáttmála sem við eigum aðild að og erum skuldbundin gagnvart að þjóðarétti. Finnst mér hér einn hluti þrígreinds valds í Lýðveldinu Íslandi hafa seilst lengra en lög og landsréttur heimila. M.ö.o. tel ég að Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafi stigið óheillaspor og hafi farið á skjön við lög og að Alþingi hafi sofið á verðinum. Framtíðin mun leiða í ljós hvort það var til heilla eða ekki. 

Við búum í frábæru samfélagi hér í Súðavíkurhreppi. Það er ekki bara mitt mat heldur vil ég halda því fram að það sé staðreynd - fasti. Sveitarfélagið telur liðlega 200 manns en hér er allt að einu mikill mannauður. Við byggjum einstakt fjölþjóðlegt samfélaga sem mætti vera mörgum til eftirbreytni. Með bakgrunn í starfi á sviði útlendingamála tel ég mig hafa einhverja innsýn í það mikilvægi sem felst í því að eiga samfélag sem ekki er einsleitt, heldur er borið uppi af fólki með fjölbreyttan bakgrunn. Við erum ríkari fyrir vikið þó því fylgi ýmsar áskoranir. 

Það er ekki ástæða til þess að örvænta um örlög Súðavíkurhrepps þó ég tjái mig með dramatískum hætti í miðlum og dragi upp efni og ástæður sem kunna að hljóma líkt og hér sé verið að setja hreppinn af. Öðru nær, ég tel stöðu Súðavíkurhrepps sterka og það á margan hátt. Við búum af einstöku landslagi hér sem er söluvara eitt og sér - endalaus tækifæri og forréttindi að fá að njóta. Með tíð og tíma, ef vilji er fyrir hendi, er auðvelt að selja fólki hugmynd um að fara hér um og njóta þess.

Ég tel að við ættum að einblína á að bjóða heim og sýna fólki hvað býr hér undir fjöllum við Djúp. Hér stendur til að halda hátíð í sumar af tilefni sem varða stofnun amk tveggja áberandi stoða í Súðavíkurhreppi, en þar er tækifæri til að minna á hvað hér er að finna.

Langtímamarkmið ætti að vera að styrkja umhverfi fyrirtækja sem hér starfa og opna á fleiri möguleika til þess að halda uppi traustri atvinnu. Þá er liður í því að byggja hér húsnæði sem nýtist í því að efla samfélagið. Sýn mín á sveitarfélagið er sú að hér sé miklu meira en sjálfbært samfélag þrátt fyrir mannfæð, enda held ég að enginn hafi skýrt sjálfbærni til hlítar í skilningi sveitarfélaga þannig að það haldi vatni. Það hefur í það minnsta ekkert með fjölda íbúa að gera, ekkert til minnkunar að kaupa að þjónustu sem varðar hlutverk hreppsins enda eru fá sveitarfélög á landinu sjálfum sér nóg um allt sem lítur að því að veita þjónustu. 

Ég ætla að deila með ykkur hluta af þeirri sýn sem bið mér blasir og hvernig ég sé mitt nánasta umhverfi hér í Súðavík, en ætlan mín er að deila einnig með mér því sem við mér blasir um allt sveitarfélagið frá hreppamörkum á Súðavíkurhlíð inn að Ísafjarðará, enda er hreppurinn stór landfræðilega. Súðavíkurhreppur er fullur af tækifærum sem fólk þarf að fá hvatningu og tækifæri til þess að nýta samfélaginu öllu til heilla.

Ég skil vel þá sem hér hafa búið þrátt fyrir ýmsar áskoranir, enda hefur ekki alltaf verið auðvelt með atvinnu eða nábýli við náttúruöfl. En enginn staður á landinu er laus við einhverja vankannta með veður eða jarðhræringar, enda búum við á eylandi sem er byggt upp af eldfjöllum sem hafa ekki að öllu lokið virkni sinni, á sprungusvæði sem liggur gegnum landið og teygir sig og skiptir landinu. Fári staðir hafa verið lausir við sveiflur í atvinnulífi og hafa flest svæði átt sinn uppgangstíma og hnignun. Ég tel óþarfa hrakspár vera með mannfjöldaspá á Vestfjörðum og tet að slíkt byggi á uppgjöf og stefnuleysi í málefnum landsbyggðar. Að fyrir löngu sé búið að gefa upp á bátinn að hér þrífist byggð, hvað þá eflist. Það eru engin lögmál sem valda því hver íbúatalan er á Vestfjörðum í dag, öllu heldur ákvarðanir teknar á alþingi og af stjórnvöldum sem töldu sig hafa vald til þess að ákveða og skipta eftir einhverri fyrirframskrifaðri forræðishyggju. 

Verið stolt af Súðavíkurhreppi enda er hér fallegt, veðursælt víðast og gott að búa. Ekki síst í Súðavík við Álftarfjörð. 

Bragi Þór Thoroddsen 

Vefumsjˇn