Sitemap
TextSizeButtonSmall TextSizeButtonMed TextSizeButtonBig
Valmynd2
lifid
« 2019 »
« September »
S M Ţ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          
lifid
Facebook Skolastarfsemi Skolar dagskra
Utgefid efni
Sæl verið þið íbúar Súðavíkurhrepps. 
 
Eftirfarandi sendi ég á þingmenn og ráðherrra NV-kjördæmis og varðar málefni sveitarfélagsins Súðavíkurhrepps.

 

Sæl verið þið öll, þingmenn og ráðherrar.

Eins og ykkur er kunnugt lá í samráðsgátt þingsályktunartillaga Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurðar Inga Jóhannsonar, um málefni sveitarfélaga – stefnumótun til fimm ára.

Í þingsályktun eru tillögur að breyttu sveitarstjórnarstigi að því leyti að tilvist þeirra markast af fjölda íbúa; 250 íbúar frá og með 2022, 500 íbúar árið 2024 og 1000 íbúar árið 2026. Er þetta allt í nafni eflingu sveitarstjórnarstigsins og leiðarljósið er sjálfbærni. Þingsályktun byggir á niðurstöðum starfshóps skipuðum af ráðherra, en vinnan kallast grænbók. Að nafninu til var víðtækt samráð að baki þeirri vinnu og mætti undirritaður til samráðsfundar á Ísafirði sl. vor.   

Undirritaður er Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps frá og með 1. maí 2019. Þann 1. janúar 2019 voru skráðir 204 íbúar í hreppnum og er þar um 195 þeirra í þéttbýli. Næsta byggð er Ísafjarðarbær, um 21 km landleiðina, með um 3800 íbúa sem fletir búa við Skutulsfjörð í Ísafjarðarbæ. Framantalið eru upptalningar á staðreyndum sem upplýsa ekki mikið, en varða þó þetta erindi til ykkar. 

Milli Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps liggur á landleiðinni mörk sveitarfélagana, á Súðavíkurhlíð. Í venjulegu tíðarfari er hlíðinni lokað að vetri til all nokkur skipti, vegna hættu á ofanflóðum og grjóthruni. Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps fer með almannavarnir í hreppnum og hefur m.a. það hlutverk að loka hliðnu um hlíðina til að koma í veg fyrir umferð þegar aðstæður leyfa hana ekki. Í sumar hafa farið fram og standa enn yfir framkvæmdir á hlíðinni, um hluta þess kafla sem talinn er erfiðastur. Er verið að sprengja berg, flytja grjót og breikka veginn og hefur stálþil verið rekið í vegkant hluta leiðarinnar til þess að hindra óheftan kraft ofanflóða og grjóthruns. Hér fyrir neðan gefur að líta nokkrar myndir frá hlíðinni, en allt eiga þær sameiginlegt að finnast á leitarvélinni google.is þegar flett er upp myndaniðurstöðum fyrir Súðavíkurhlíð. Jafnframt koma upp fréttir af ofanflóðum, bílslysum og tilkynningum um lokun hlíðarinnar á ýmsum miðlum.

frétt bb.is bílvelta

frétt www.bb.is framkvæmdir

frétt ruv.is lokun

frétt ruv.is snjóflóð á hlíðinni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt til með þessari þingsályktun að, í samráði vði Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, verði sveitarfélög „hvött“ til sameiningar, þau sem ekki ná framangreindum mörkum. Mun þeim boðið fjármagn til verksins við aðlögun stjórnsýslu vegna sameiningar, en boðað er að markaður verði peningur úr sjóðnum. Sveitarfélög fá allt að 594 milljónir til verksins á 5 ára tímabili, gangist þau undir þetta, en misjanflega verði í lagt eftir skuldsetningu þeirra. http://www.bb.is/2019/09/rikisstjornin-23-milljardar-krona-til-sameiningar-sveitarfelaga-a-vestfjordum/  

Þannig er Súðavíkurhreppi ætlað um 109 milljónir, enda sveitarfélagið í raun ekki skuldsett þar eð lítt hefur verið framkvæmt í hreppnum undanfarin ár. Um það vitna ársreikningar og unnt að sjá það af opinberum gögnum. Það er ekki að furða að þau sveitarfélög, sem í senn eru skuldsett og jafnframt ná yfir 1000 íbúa markið sjái hag í því að innlima skuldlaus lítil sveitarfélög, enda fylgir því ríkur heimanmundur. Á sama tíma eru settar í uppnám stjórnsýslueiningar líkt og í Súðavíkurhreppi sem hafa haldið að sér höndum með skuldsetningu og hafa áform um sókn og eflingu. Það er öllum ljóst sem þekkja til þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa sameinast, yfir fjöll og vegleysur, að þar hefur stjórnsýslan orðið eftir í öðru eða einu þeirra og hagur versnað til muna í þeim fjarlægari sem hafa misst stjórnsýslu úr sinni sveit. Einn stærsti vinnuveitandinn mun fara úr Súðavík, Súðavíkurhreppur, skólahald sett í uppnám og sú litla þjónusta sem ekki er aðkeypt.

En hvernig stendur Súðavíkurhreppur. Sveitarfélagið hefur lýst yfir samstarfsvilja vegna uppbyggingar atvinnu í hreppnum, inn á Álftafirði skammt innan þorpsins Súðavíkur. Er það að rekja aftur til ársins 2014 en ferlið er að vonum langt. Er það kalkþörungaverksmiðja sem fyrrtækið Marigold er eigandi að – móðurfélag Íslensks kalkþörungs. Uppbygging verksmiðju mun gefa af sér stöðug 35-50 stöðugildi, samkvæmt áætlunum og upplýsingum félagsins, en mun leiða til þess að grundvöllur verður fyrir fleiri störf og stöðugildi í Súðavík sem muni gagnast öllu sveitarfélaginu. Verksmiðjan ein og tilvist hennar í hreppnum mun geta gefið af sér afkomu sem nægir til reksturs sveitarfélagsins og yrði það áfram miklu meira en sjálfbært þannig að notuð séu þau hugtök sem er að finna í þingsályktun og vinnu grænbókar. Áform eru uppi um að reisa hér húsnæði og undirbúa það sem telst í daglegu tali til innviðauppbyggingar og mönnum er tamt að nefna. Á það við um slökkvilið, verslun- og þjónustu vegna starfsfólks auk allra annarra tilfallandi viðhalds og þjónustureksturs.

Það er engin launung að stefnumörkun sem felst í þessari þingsályktun setur þessi áform hér í talsverða klemmu. Skipulagsvinna er afgreidd frá Skipulagsstofnun er að fara í auglýsingarferli auk þess sem hafnarmannvirki eru á samgönguáætlun. Þessi vinna fari þannig í hít verri afkomu sveitarfélags.  Á sama tíma og sveitarfélög á Vestfjörðum geta þegið það fé sem fæst úr Jöfnunarsjóð til þess að „innlima“ Súðavíkurhrepp er það ljóst að ekkert þeirra er þess umkomið að halda hér uppi þjónustu við þá sem hér búa á heilsárs grundvelli. Nægir að nefna þar Súðavíkurhlíðina og ættu þessar myndir allar að tala sínu máli, þó aðeins sé 21 km milli kirkju Súðavíkursóknar að kirkju þeirra í Ísafjarðarbæ. Það er skemmst frá að segja að þegar síðast var borin upp tillaga um sameiningu þessara sveitarfélaga hér á norðanverðum Vestfjörðum var sameining felld í Súðavíkurhreppi.

Þrátt fyrir að í því geti verið akkur að sameina sveitarfélög á Íslandi hlýtur að skjóta skökku við að hafa það að markmiði að fækka þeim til þess eins að þau verði færri. Ekki hefur veirð sýnt fram á að hreppur með íbúa um 1000 verið sjálfkrafa hagstæðari eða betur rekin eining, einkum þegar útkoman er fjölkjarnasveitarfélag. Má hafa það í huga að ef Vesturbyggð færi í sameiningu þarf aðeins um tvo íbúa í dag til þess að ná 1000 íbúa marki en sveitarfélagið fengi um 441 milljónir til verksins miðað við reiknaða niðurstöðu. Hvernig hyggst ráðuneyti sveitarstjórnarmála bregðast við þeim sem ekki ná tilsettu marki innan tilskilins frests? Verður það gert með því að „svelta sveitarfélögin“ til hlýðni með því að draga úr framlagi Jöfnunarsjóðsins? Er heimild til slíks með fulltingi sjóðsins? Verður það gert með fulltingi framkvæmdavalds? Fyrir þá sem vita hvers vegna Jöfnunarsjóður sveitarfélaga var stofnsettur ætti að vera fyrirvari við að beita honum með þessum hætti.  

Það er von undirritaðs að fá viðbrögð við þessu bréfi og um leið afstöðu ykkar til þess sem lagt verður fyrir þing til samþykktar, höfnunar eða svæfingar – þingsályktun um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Okkur þykir hér í Súðavíkurhreppi lítt hafa komið frá ykkur, þingmönnum kjördæmisins, en öll sveitarfélög Vestfjarða eru þessu marki brennd, að ná ekki 1000 íbúa viðmiði við núverandi aðstæður utan Ísafjarðarbæjar.

Undirritaður æskir þess, ef unnt er, að fá afstöðu ykkar og skoðun, hvort það samrýmist hlutverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að marka stefnu og veita fé í fækkun sveitarfélaga, þau er varða um eða innan við 5% íbúa landsins, undir þeim formerkjum að efla þessi sveitarfélög.

Hvort og þá hvernig þið teljið sveitarfélög á Vestfjörðum betur í stakk búin til þess að starfrækja hlutverk sitt og þjónust íbúa sína með því að slá þeim saman. Íbúar Vestfjarða ná ekki 10000 í heildina og því ljóst í huga undirritaðs að þar næst aldrei stærðar eða fjöldahagræðing. Vegalengdir um Djúp munu áfram verða þær sömu og Súðvíkurhlíð jafn erfið umferðar að vetri og endranær, þrátt fyrir góða viðleytni í þá átt að gera hana öruggari. Hvernig verða samgöngumál er varða Súðavíkurhrepp leyst, ef sameining verður við sveitarfélagið Ísafjarðarbæ eða Bolungarvíkurkaupstað þannig að unnt sé að þjónusta svæðið hér með fullnægjandi hætti og vera hreppnum til eflingar?

Það er ekki hald manna hér í Súðavíkurhreppi að ekki megi leggja til hagræðingu með sameiningu sveitarfélaga. Það segir sig sjálft að það næðist víða um land, einkum þegar sveitarfélög liggja saman, samnýta alla þjónustu meira og minna og samgöngur með þeim hætti að unnt er að sækja þjónustu allt árið um kring. Hér vekur þó furðu aðferðafræðin og sá fögnuður sem virðist endurspegla niðurstöðu um verkefnið, afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga á nýafstöðnu aukaþingi svo eitthvað sé nefnt. Það er undirrituðum til efs að þeirri fækkun starfa i hreppnum sem óhjákvæmilega fylgir þvingaðri sameiningu við sjálfbært sveitarfélag verði mætt með því að fjölga störfum hins opinbera af hendi ríkisins eins og boðað hefur verið. Það getur hver og einn velt fyrir sér hvernig er um efndir slíkra starfa á landsbyggðinni allri og hversu vel og hratt það hefur gengið að koma störfum af hendi íslenska ríkisins á stofn í fámennum sveitarfélögum.  

Með kveðju,
Bragi Þór

 

fimmtudagurinn 12. september 2019

Kynning - Hrafnshóll ehf.

1 af 2

Fyrirhugað er að vera með kynningu á Hrafnshóli ehf. Um er að ræða byggingafélag sem hefur verið í sambandi við Súðavíkurhrepp og hefur áhuga á að reisa hér húsnæði. Mun félagið kynna hugmyndir og útfærslur á húsnæði sem hentað gæti í Súðavík (eða víðar í hreppnum). 

Félagið hefur verið í samvinnu við sveitarfélög og einbeitir sér að landsbyggðinni. Hrafnshóll hefur m.a. verið í samstarfi við Reykhólahrepp um byggingu húsnæðis, Skagafjörð sbr. feykir.is og Vík sbr. dfs.is en sjá má meira um starf þeirra á facebook.com/hrafnsholl

Öllum sem vilja kynna sér áform og hugmyndir um uppbyggingu húsnæðis í Súðavíkurhreppi er boðið að koma og kynna sér það sem Hrafhóll hefur verið að gera og hefur upp á að bjóða. 

Kynning hefst um 18:00 á morgun, föstudaginn 13. september 2019 og fer fram í Grundastræti í Álftaveri. 

ţriđjudagurinn 10. september 2019

Septemberbyrjun 2019

Síðastliðna viku fór undirritaður til Reykjavíkur vegna funda- og þingsóknar fyrir Súðavíkurhrepp. Með nokkur uppsöfnuð erindi í farteskinu og erindi fyrir flesta daga vikunnar til þess að fá sem mest út úr heimsókn á SV-hornið. 

Er skemmst frá að segja að Sigurður Ingi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varð við ósk undirritaðs um fund um stöðu Súðavíkurhrepps. Fundarefni var m.a. með vísan í nýkynnta þingsályktunartillögu um lágmarksstærð sveitarfélaga. Fundur með Sigurði Inga og starfsmönnum ráðuneytis var gagnlegur þrátt fyrir að ekki fengist lausn allra mála fyrir Súðavíkurhrepp. En samtöl eru til alls fyrst og ekkert gerist án þess að reyna að finna lausn. Vildi undirritaður fá svör við því hvernig ráðuneyti sæi fyrir sér framtíð hreppsins í ljósi þess að til stendur að leggja framangreinda þingsályktun fyrir Alþingi í haust. 

Líkt og flestum er kunnugt mun, ef þingsályktun fær náð fyrir haustþingi, frá og með 2022 ekkert sveitarfélag á landinu eiga tilverurétt nema með að lágmarki 250 íbúa. Árið 2024 verður markið 500 íbúar og árið 2026 verður markið 1000 íbúar. Því er ljóst að mörg sveitarfélög verða að hafa sameinast öðrum, þau sem ekki ná tilskyldum fjölda. Á mannamáli þýðir þetta að tilvist 40 sveitarfélaga af 72 er í uppnámi í núverandi mynd. Þau sem ekki telja 1000 íbúa þurfa að undirbúa samruna við önnur og ná lágmarkinu. 

Á Vestfjörðum er í dag einungis Ísafjarðabær yfir þessu marki, en Vesturbyggð er rétt undir - 998 íbúar miðað við 1. janúar 2019. Ráðuneyti leggur til, með vísan í niðurstöður starfshóps, að markaðir verði sérstakir fjármunir úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, alls eru það nokkrir milljarðar til þess að liðka fyrir sameiningu sveitarfélaga. Í því felst niðurfærsla skulda þeirra skuldugu auk sérstaks framlags til þess að aðlaga stjórnsýslu sameinaðs eða sameinaðra sveitarfélaga. Líkt og undirritaður hefur áður vikið að hér var opið fyrir umsagnir á framangreint á samráðsgátt stjórnvalda til 10. september 2019. Lítt hefur verið tekið tillit til umsagna að því er virðist, enda mikill stuðningur við þetta mál hjá stærri sveitarfélögum og ýmsum sem að málaflokknum koma bb.is og bb.is.

Aukaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið í Reykjavík þann 6. september 2019 og var XXXIV. landsþingið. Mikill meirihluti þingsins studdi framangreinda niðurstöðu starfshóps um afdrif sveitarfélaga undir þessum lágmarsktölum. Jú, enda hanga saman við þetta peningar og er akkur fyrir stærri skuldsett sveitarfélög í sameiningu við þau minni sem betur eru stödd. Auk þess fylgja þeim tilefni til þess að hagræða frekar rekstri sínum og hafa borð fyrir báru með þá yfirbyggingu sem raun er í dag. Stærðarhagkvæmni. En um þetta eru auðvitað skiptar skoðanir og sýn undirritaðs er þar bara eitt stykki í pússluspilið sem myndar heildarsýn og raunveruleikann um það hvað fámennum sveitarfélögum er fyrir bestu.

Í Súðavíkurhreppi eru vegalendir miklar frá ystu mörkum þorpsins við Álftafjörð inn að þeirri byggð sem stendur fjærst þorpinu, inn að Svansvík í Inndjúpi. Byggðin er dreifð að því leyti og erfitt að sjá fyrir sér að þessar vegalengdir styttist við sameiningu sveitarfélaga, enda þótt stutt sé til Ísafjarðarbæjar frá Súðavík. Margbreytileika verður hér fórnað í skyni hagræðingar og meintri vangetu til þess að sinna skyldum sveitarfélags. Súðavíkurhreppur er ekki sjálfbær samkvæmt þeim viðmiðum sem felast í niðurstöðum starfshópsins fyrrnefnda. En hvaða sveitarfélag landsins er það í raun?

Öll sveitarfélög landsins hafa samráð og samvinnu um mýmörg verkefni, allt frá byggingafulltrúa yfir í velferðarmál, samgöngum, sorpmálum og skólamálum. Verða þar fá sveitarfélög undanskilin þrátt fyrir stærð þeirra og efnahag. Það þykir ekki til marks um vangetu þeirra stærri að hafa slíka samvinnu, en þegar kemur að fámenni er annað uppi og enn án þess að litið sé til efnahags og aðstæðna að öðru leyti.

Hvað sem öllu líður verður þetta mál til alvarlegrar skoðunar í Súðavíkurhreppi. Hér verður ekki fjölgun upp á 800 íbúa án þess að sveitarfélagið fari í samvinnu við annað með sameiningu, það þarf eitthvað frekar að koma til. 

Verkefnin framundan eru að öðru leyti óbreytt. Enn eru áform um uppbyggingu atvinnulífs í Súðavíkurhreppi og skipulag styður uppbyggingu kalkþörungaverksmiðju hér í Álftafirði. Hér þarf líka að huga að því að byggja húsnæði að óbreyttu og hefur aðeins verið þreifað á þeim möguleikum sem eru í stöðunni. Fulltrúar frá Hrafnshóli - byggingafélagi hafa mætt á fund með fulltrúum sveitarfélagsins. Þeir hafa áformað að vera með kynningarfund í húsakynnum hreppsins næstkomandi föstudag, í Grundarstræti. Tímasetning liggur þó ekki nákvæmlega fyrir. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér það sem þeir hafa fram að færa eru hvattir til að fylgjast með og hafa samband við skrifstofu Súðavíkurhrepps. Hrafnshóll hefur verið í samvinnu við nokkur sveitarfélög, m.a. á Höfn, Reykhólum og á Blönduósi. Áform þeirra taka m.a. mið af nýjum leikreglum um aðkomu Íbúðalánasjóðs og breyttra viðmiða og reglna sjóðsins. Með reglugerðarbreytingu hefur verið reynt að koma til móts við dreyfðari byggðir landsins hvað varðar fjármögnun í tilliti byggingakostnaðar. Þeim Hrafnshólsmönnum mun eftirlátið að skýra það nánar á fundinum. 

Með kærri kveðju,

Bragi Þór Thoroddsen  

 

laugardagurinn 31. ágúst 2019

Haustleitarseđill fyrir Inndjúp 2019

Haustleitir 2019

Atvinnu og landbúnaðarnefnd Súðavíkurhrepps hefur komið sér saman um tilhögun og hvaða dagar skuli notaðir til fyrstu leita sem eru eftirfarandi:

 1. september 2019

Smalað verði frá Múla í Ísafirði til og með Gervidal og rekið inn í þar til gerða rétt við mæðuveikisgirðingu. 

Leitarstjóri: Marinó Hákonarson.

 1. september 2019

Smalað í Mjóafirði, Bessadalur-Botnsfjall og út í Botn í Mjóafirði.

Leitarstjóri: Þorsteinn Sigfússon.

 1. september 2019

Smalað verði frá Miðdal/Gervidal/Hvanneyrdal og rekið inn að Eyri í Ísafirði.

Leitarstjóri: Marinó Hákonarson.

 1. september 2019

Smalað á Hestakleif og út í Botn í Mjóafirði.

Leitarstjóri: Þorsteinn Sigfússon.

 1. september 2019

Smalað frá Hestakleif og rekið inn í Svansvík

Leitarstjóri: Marinó Hákonarson. 

 1. september 2019

Smalað frá Mýflugnavatni að Eiríksstöðum.

Leitarstjóri: Barði Ingibjartsson.

 1. september 2019

Rekið úr Heydal að Gljúfurá.

Leitarstjóri: Stefán Sigmundsson.

 1. september 2019

Smalað út Skötufjörð að austanverðu og út að Strandseljum.

Leitarstjóri: Aðalsteinn L. Valdimarsson.

 1. september 2019

Smalað frá Miðhúsum og rekið inn í Skálavík. Gert ráð fyrir að smalamenn frá Hörgshlíð komi í Skálavík.                           

Leitarstjórar: Marinó Hákonarson og Þorsteinn Sigfússon.

 1. september 2019

Smalað frá Gljúfurá og Þernuvík að Látrum.

Leitarstjóri: Stefán Sigmundsson.

 1. september 2019

Smalað frá Eiríksstöðum að Laugarbóli.

Leitarstjóri: Barði Ingibjartsson.

 1. september 2019

Smalað frá Blámýrum að Strandseljum.

Leitarstjóri: Aðalsteinn L. Valdirmarsson.

 

Miðað er við framangreint skipulag haustleita ef veður leyfir.

Fyrirhuguð eftirleit er 5. október 2019 ef veður leyfir. 

Atvinnu og landbúnaðarnefnd biður bændur góðfúslega að hafa samband við smalafólk sitt í tíma.

Heimafólk/bændur stýra öðrum smalamenskum.

 

Frekari upplýsingar veita:

Jóhanna Kristjánsdóttir í síma: 846-4735.

Barði Ingibjartsson í síma: 846-6350.

Stefán Sigmundsson í síma: 896-0892.

Aðalsteinn L. Valdimarsson í síma: 869-4812.

 

 

Fundur Sveitarastjórnar Súðavíkurhrepps kjörtímabilið 2018-2022 var haldinn í Heydal þann 30. ágúst 2019. Fundurinn, sem er 16. reglulegi fundur sveitarstjórnar þetta kjörtímabil hófst klukkan 8:30. Staðarhaldari, Stella Guðmundsdóttir, bauð upp á veglegt morgunverðarhlaðborð við upphaf fundar og var það að sjálfsögðu til mikillar fyrirmyndar móttökur höfðinglegar. 

Fundurinn var með hefbundna dagskrá sem auglýst hafði verið fyrirfram auk þess sem tekið var fyrir, undir liðnum "önnur mál" ýmis mál sem varða meira Inndjúpið ásamt fleiri atriðum sem unnt var að taka fyrir. Svo sem sjá má af fundargerðinni sem er aðgengileg hér á heimasíðunni var þetta mikill vinnufundur og margt erinda afgreitt.

Í Súðavíkurhreppi er að sjálfsögðu í mörg horn að líta varðandi stjórnsýslu og rekstur sveitarfélags, enda hreppurinn landfræðilega stór. Hér er landbúnaður og sjávarútvegur, ferðaþjónust, iðnaður og fleira sem krefst umfjöllunar og athygli sveitarstjórnar. Ýmis mál sem þykja sjálfsögð í þorpi Súðavíkur eru erfiðari viðfangs í dreifðari byggðum hreppsins eins og gefur að skilja. Þar má nefn sorphirðu og netsamband, snjómopkstur og aðgengi að stjórnsýslunni. 

Undirrituðum fannst fundurinn góður og fróðlegur og eru uppi áform um að halda fleiri fundi sveitarstjórnar í Inndjúpi, en dagsetningar hafa ekki verið ákveðnar. Helstu breytingar sem ákveðnar voru á fundinum voru meðal annars fundartími sveitarstjórnarfunda, en fastir fundir munu eftirleiðis hefjast klukkan 9:30, annan föstudag hvers mánaðar. 

Um flest málefni og fundarefni voru fundarmenn að mestu sammála en áherslumunur er þó um einhver þeirra. Var helst að framkvæmd grenjavinnslu og vargeyðingu er sveitarstjórn hugleikin með ýmsu móti, en sveitarstjóri lagði af stað með lausn þeirra mála í vor. Þar eð fundurinn var góður og andinn léttur var ákveðið að fresta frekari umræðum þar um og leggja frekari þrætur fyrir viðkomandi nefnd. 

Sveitarstjóri fór ásamt oddvita og sveitarstjórnarmanni akandi inn Djúp, eldsnemma að morgni að flestum fannst og kann það að skýra breytingar fundartíma sveitarstjórnar, enda eru aðal- og varamenn í sveitarstjór búsettir frá Súðavíkurþorpi inn að Svansvík í Djúpi, og því um einnar og hálfrar klukkustundar akstur í besta færi á milli þeirra. Dagurinn í gær markaði að mörgu leyti lok sumarvertíðar í flestum skilningi þó nýtt kvótaár hjá sjávarútvegsfyrirtækjum hefjist ekki fyrr en á morgun. Snjóað hafði í fjöll víða um Vestfirði og var það vel sýnilegt hér í Súðavík. 

Til stendur að taka nýja heimasíðu í gagnið á næstunni fyrir Súðavíkurhrepp og mun sveitarstjóri kappkosta að koma með uppfærslur og samantekt frá fundum og um einhver málefni sem varðar sveitarfélagið. Ýmsar hugmyndir eru um opnari stjórnsýslu - íbúalýðræði, en stefnt er á að hafa íbúafund í Súðavík fyrir hreppinn allann, en dagsetning eða fyrirkomulag hefur ekki verið ákveðið. 

Ýmislegt er hér að gerast þó það þyki að sjálfsögðu mis fréttnæmt, en helsta frétt Djúpsins var ekki rædd á fundi sveitarstjórnar. Sala á eynni Vigur myndi þó flestum þykja frétt, en skrifað hefur verið undir kaupsamning eftir því sem sveitarstjóra er helst kunnugt. Kaupendur eru samkvæmt fréttum fjölskylda sem hefur áform um búsetu í eynni og rekstur í sem mest óbreyttri mynd. Ber að fagna því og ætti það að róa þær raddir sem hafa haft áhyggjur af því að sala myndi leiða til þess að eynni yrði lokað fyrir almenningi. 

 Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri

 

fimmtudagurinn 29. ágúst 2019

Vatn tekiđ af í Túngötu og Nesvegi

Vegna fyrirhugaðra viðgerða á vatnsveitu í dag 29.ágúst verður vatnið tekið af í Túngötu og Nesvegi seinnipartinn í ca klukkutíma. Er beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem það veldur.

mánudagurinn 19. ágúst 2019

Grćnbók og stefna í sveitarstjórnarmálum.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið í svokallaðri Grænbók um málefni sveitarfélaga. Þetta er verkefni sem hefur forsögu til sumarsins 2018, en vinna hófst af alvöru í lok desember 2018. Yfirskriftin er að vinna að mörkun stefnu um málefni sveitarfélaga og þemað að sveitarfélög verði sjálfbær og um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Ráðherra skipaði starfshóp sem átti að skila tillögu og hlaut afurð hópsins nafnið Grænbók og var birt á vormánuðum; Grænbók - Stefna um málefni sveitarfélaga.

Undirritaður hóf störf hér um mánuði eftir að þetta skjal var birt, þann 1. maí 2019, og hefur því ekki haft aðra aðkomu en að mæta á fund á Ísafirði þar sem samtal við sveitarfélögin á Vestfjörðum átti sér stað í vor. Var fundurinn haldinn með fulltrúum sem standa að hópnum og spunnust líflegar umræður um málið þar sem kynnt var að frá og með 2022 væri lágmarkstala fyrir sveitarfélag 250 manns og frá og með 2026 yrði lágmarkið 1000 íbúar. Þetta útilokar frá 2025 öll sveitarfélög á Vestfjörðum í núverandi mynd frá því að teljast sveitarfélag, en ekki liggur fyrir hver "viðurlögin verði". Þó  hefur verið viðrað að stýra verkefninu gegnum Jöfnunarsjóðinn og stýra þannig framlögum eftir vilja til sameiningar.

Líkt og ykkur, íbúum Súðavíkuhrepps, má vera kunnugt verðum við að óbreyttu ekki hreppur án aðkomu annarra frá og með 2022 nema eitthvað breytist. Þetta er stefna starfshópsins, en hópinn leiðir fyrir hönd sveitarfélaganna Aldís Hafsteinsdóttir - bæjarstjóri í Hveragerði. Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri í Bolungarvík var nýverið fyrir svörum með Aldísi á Sprengisandi visir.is um málið. Má heyra af Aldísi að hún telur þetta til góðs. Það mál líka til sanns vegar færa að aðstæður eru aðrar á Suðurlandi með nágranna og einnig á SV-horninu, en samgöngur hindra ekki sinningu á þjónustu milli byggðarlaga. Jómn Páll var á frekar öndverðum meiði við Aldísi og er það mat mitt að hann spegli frekar hug Vestfirðinga í dag, þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa sameinast öðrum. 

Bolvíkingar stefna á, samkvæmt Jóni Páli, að ná 1000 fyrir 2026 og halda "sjálfstæði" sínu og hafa mótmælt þessari þvingun yfirvalda í sameiningarátt bb.is. Undirritaður er aðeins framkvæmdarstjóri sveitarfélagsins Súðavíkurhrepps og hefur því ekki með sér mótaðar hugmyndir þeirra sem hreppinn byggja eða umboð til þess að leiða sameiningarmál. Þó má vera ljóst að kostir í sameiningarátt eru ekki margir raunhæfir ef þessar tölur eiga að gilda, þ.e. eftir 2026. Þykir undirrituðum það mikið atriði ef til sameiningar kemur, að halda eftir þeim störfum hér í þorpi og hrepp öllum, sem í dag eru rækt. Það er erfitt að ímynda sér að t.a.m. Ísafjarðarbær muni koma að slíkri sameiningu og samþykkja að stjórnsýsla yrði hér í Súðavík, né heldur aðrir nágrannar með burði í 1000 íbúa markið nema Bolungarvíkurkaupstaður.

Þá hlítur það að vera mikið atriði að hér sé heilsársvegur fær í næsta sveitarfélag sem myndi sameinast Súðavíkurhreppi ef þetta á að vera í raun réttri eitt þjónustusvæði. Erfitt gæti verið að sækja alla þjónustu út fyrir Súðavík á þungum vetri við óbreytt landslag í samgöngum. Má þá kannski vera betur varið fjármunum sveitarfélagsins til eigin þarfa á staðnum en að vera í samfloti með allt. 

Þessi grein er ekki úlfur, úlfur; ekki varnaðarorð um þvingaða sameiningu sveitarfélaga og þar með Súðavíkurhrepps. Þessari grein er ætlað að vera áskorun um að láta raddir ykkar heyrast enda er opið fyrir samráðsferli hjá stjórnvöldum um málið til 10. september 2019 - ramminn er stuttur. Sjá https://samradsgatt.island.is - öllum gefst færi á að koma að sínum hugmyndum. 

Vert er þó að hafa í huga hvernig staðan er í nágrannasveitarfélögunum og hvaða hugmyndir þið hafið um að rækja hér samfélag. Fyrir mína parta tel ég sóknarfæri í Súðavíkurhreppi, bæði með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum í samvinnu sem og á eigin forsendum Súðavíkurhrepps. Ég tel ekki tímabært að afskrifa Súðavíkurhrepp sem sjálfstætt stjórnvald og ber um langa tíð mikla virðingu fyrir sjálfstæði þeirra eininga sem teljast hreppar og sveitarfélög.  

Með kærri kveðju,

Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóriföstudagurinn 16. ágúst 2019

Sauđfé í Súđavíkurţorpi

Talsvert hefur verið um það að sauðfé hafi leitað í þorpið í Súðavík. Eins og gefur að skilja fylgir því bæði óþrifnaður auk þess sem blessaðar skepnurnar leita talsvert í rækt í görðum og valda þar skaða. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að girða og smala þorpið er þetta eitthvað sem þarf að skoða hvernig megi minnka umferð þeirra.

Súðavíkurhreppur er ekki með mannmarga stjórnsýslu eða fjölda manns til þess að halda úti reglulegri smölun um þorpið. Við höfum farið í þetta þegar efnið hafa verið og reynt okkar besta við að bregðast við "innhringingum" þegar vart verður við fé í þorpinu. Þetta er skiljanlegt og eru þakkir færðar fyrir langlundargeð margra. Þetta er hins vegar verkefni sem við mættum standa að fleiri, en Súðavíkurhreppi hefur þó verið veittur liðstyrkur við smölun líkt og í gær. Hins vegar þarf að finna einhverja varanlegri lausn á því að halda þorpinu hreinu af fé. Vil benda á að það er alltaf gott að fá ábendingar um það þegar fé leitar í þorpið að bíta í görðum að alltaf er velkomið að slást í lið með okkur við smölun þegar þess gerist þörf. 

Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri

 

föstudagurinn 16. ágúst 2019

Sorpsvćđi - umgengni

Móttaka viđ Njarđarbraut
Móttaka viđ Njarđarbraut

Borið hefur á því að ýmsilegt sé skilið eftir við hlið sorpsvæðis/móttöku fyrir spilliefni o.fl. við Njarðarbraut.  Sumt af því sem kannski á réttilega inn á svæðið en annað ekki og/eða jafnvel gjaldskylt.

Bent er á að upplýsingaskilti á að taka af allan vafa varðandi opnunartíma og unnt er að hafa samband ef ekki er opið eða enginn við móttöku. Símanúmer er uppgefið á upplýsingaskilti og þeir sem skilja eftir eitthvað við móttökuna mættu gjarnan hafa samband ef nauðsynlegt er að losna við eitthvað utan opnunartíma. Það er t.a.m. erfitt fyrir einn starfsmann að koma sumum hlutum á réttan stað á svæðinu svo ekki sé meira sagt.

Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri  

ţriđjudagurinn 13. ágúst 2019

Geymslusvćđi viđ árdal - áminning.

Eins og fram kom í frétt þann 24. janúar 2019 var vísað í fundargerð skipulags-, byggingar-, umhverfis- og samgöngunefndar frá 11. janúar 2019. Kom fram að allir sem nýti svæðið án þess að greiða leigugjald fyrir það ættu að fjarlægja eigur sínar fyrir 31. maí 2019. Kom fram í fréttinni að viðurlög væru að eigur yrðu fjarlægðar og mögulega fargað á kostnað eigenda ef ekkert væri aðhafst.

Þar sem lítt hefur verið brugðist við þessari áskorun er hér með gefinn frestur til þess að flytja eignir burt af svæðinu fyrir 23. ágúst nk. en þann dag verður allt fjarlægt af svæðinu sem ekki hefur verið greidd leiga fyrir eða fjarlægt af eigendum. Engar frekari viðvaranir verða eða áskoranir.  

Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri.

Eldri fćrslur
Vefumsjón