Sitemap
TextSizeButtonSmall TextSizeButtonMed TextSizeButtonBig
Valmynd2
lifid
« 2019 »
« Ágúst »
S M Ţ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31
lifid
Facebook Skolastarfsemi Skolar dagskra
Utgefid efni
föstudagurinn 16. ágúst 2019

Sauđfé í Súđavíkurţorpi

Talsvert hefur verið um það að sauðfé hafi leitað í þorpið í Súðavík. Eins og gefur að skilja fylgir því bæði óþrifnaður auk þess sem blessaðar skepnurnar leita talsvert í rækt í görðum og valda þar skaða. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að girða og smala þorpið er þetta eitthvað sem þarf að skoða hvernig megi minnka umferð þeirra.

Súðavíkurhreppur er ekki með mannmarga stjórnsýslu eða fjölda manns til þess að halda úti reglulegri smölun um þorpið. Við höfum farið í þetta þegar efnið hafa verið og reynt okkar besta við að bregðast við "innhringingum" þegar vart verður við fé í þorpinu. Þetta er skiljanlegt og eru þakkir færðar fyrir langlundargeð margra. Þetta er hins vegar verkefni sem við mættum standa að fleiri, en Súðavíkurhreppi hefur þó verið veittur liðstyrkur við smölun líkt og í gær. Hins vegar þarf að finna einhverja varanlegri lausn á því að halda þorpinu hreinu af fé. Vil benda á að það er alltaf gott að fá ábendingar um það þegar fé leitar í þorpið að bíta í görðum að alltaf er velkomið að slást í lið með okkur við smölun þegar þess gerist þörf. 

Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri

 

föstudagurinn 16. ágúst 2019

Sorpsvćđi - umgengni

Móttaka viđ Njarđarbraut
Móttaka viđ Njarđarbraut

Borið hefur á því að ýmsilegt sé skilið eftir við hlið sorpsvæðis/móttöku fyrir spilliefni o.fl. við Njarðarbraut.  Sumt af því sem kannski á réttilega inn á svæðið en annað ekki og/eða jafnvel gjaldskylt.

Bent er á að upplýsingaskilti á að taka af allan vafa varðandi opnunartíma og unnt er að hafa samband ef ekki er opið eða enginn við móttöku. Símanúmer er uppgefið á upplýsingaskilti og þeir sem skilja eftir eitthvað við móttökuna mættu gjarnan hafa samband ef nauðsynlegt er að losna við eitthvað utan opnunartíma. Það er t.a.m. erfitt fyrir einn starfsmann að koma sumum hlutum á réttan stað á svæðinu svo ekki sé meira sagt.

Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri  

ţriđjudagurinn 13. ágúst 2019

Geymslusvćđi viđ árdal - áminning.

Eins og fram kom í frétt þann 24. janúar 2019 var vísað í fundargerð skipulags-, byggingar-, umhverfis- og samgöngunefndar frá 11. janúar 2019. Kom fram að allir sem nýti svæðið án þess að greiða leigugjald fyrir það ættu að fjarlægja eigur sínar fyrir 31. maí 2019. Kom fram í fréttinni að viðurlög væru að eigur yrðu fjarlægðar og mögulega fargað á kostnað eigenda ef ekkert væri aðhafst.

Þar sem lítt hefur verið brugðist við þessari áskorun er hér með gefinn frestur til þess að flytja eignir burt af svæðinu fyrir 23. ágúst nk. en þann dag verður allt fjarlægt af svæðinu sem ekki hefur verið greidd leiga fyrir eða fjarlægt af eigendum. Engar frekari viðvaranir verða eða áskoranir.  

Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri.

ţriđjudagurinn 6. ágúst 2019

Gönguhátíđin í Súđavík

Frá setningu hátíđarinnar, söngatriđi.
Frá setningu hátíđarinnar, söngatriđi.
1 af 10

Gönguhátíðin í Súðavík 2019 heppnaðist vel í alla staði og spilaði veður þar stórt hlutverk; milt og hlýtt alla helgina, en þoka stakk sér aðeins niður án teljandi vandræða í göngum.

Hátíðin var formlega sett í Hestfirði á föstudaginn 2. ágúst, með göngu í Lambárgil eftir stutta opnun með söng og kaffi til þess að opna á stemmningu helgarinnar. Barði Ingibjartsson var með leiðsögu um svæðið og kynnti sögu og staðhætti með stakri prýði. Um 50 manns mættu í Hestfjörðinn og var boðið upp á hressingu á staðnum. Sjá frétt á bb.is.

Samkvæmt samtali við Einar Skúlason, sem fer fyrir hópnum sem stendur að hátíðinni, voru um 350 manns skráðir í þær göngur sem voru í boði og er um að ræða metþátttöku í hátíðinni, bæði hvað varðar heildarfjölda og í einstakar göngur. Sjá umfjöllun á bb.is.

Leiðsögumenn voru þau Anna Lind Ragnarsdóttir, Barði Ingibjartsson og Steinn Ingi Kjartansson, en Steinn Ingi fór með hóp um Súðavíkurþorpið á Laugardeginum og fræddi gesti um sögu Súðavíkur, örnefni, fólk og atburði. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá helginni.  

Gönguhátíðin í Súðavík verður sett í Hestfirði í dag kl. 17:00 (sjá dagskrá í frétt hér á miðlinum).

Gestir eru mættir á hátíðina og er fjöldi á tjaldsvæðinu og talsverð umferð um Súðavík. Sala og skráning fer fram í Jóni Indíafara, en þar er hægt að kaupa einstaka ferðir eða inn á hátíðina alla helgina.

Þoka var yfir í morgun en það hefur eitthvað glaðnað til og er veðurspá ágæt fyrir útivist næstu daga. Samkvæmt fréttum á RÚV (ruv.is) og bb.is (bb.is) var fyrsti gestur hátíðarinnar hnúfubakur, sem mættur var í Hestfjörðinn.

Farið verður frá bílaplani við Grundarstræti 1-3 kl. 17:00 yfir í Hestfjörð þar sem hátíðin verður sett formlega.  

fimmtudagurinn 25. júlí 2019

Umferđin um Súđavík

Talsverð umferð er um Súðavík þessa dagana, bæði ferðamanna og þeirra sem stunda flutninga landleiðina um Djúp.

Flutningar eru talsverðir og umferð stærri bíla því mikil á öllum tímum sólarhrings um Súðavík. Svo eru það ferðamennirnir, innlendir og erlendir, á leið í eða úr fríi. Þá eru margir með fellihýsi, tjaldvagna og hjólhýsi tengd við bíla sína, hjól og annan útbúnað á bílnum og ekki auðvelt að nauðhemla þannig að vel fari.

Það dylst engum að umferðarhraði er talsvert hærri um þorpið en æskilegt er, bæði þannig að því fylgir óþarfa ónæði og einnig er öryggi vegfarenda stefnt í hættu.

Undirritaður er búinn að hafa samband við Vegagerðina varðandi merkingar (auka sýnileika 50 km) og einnig við lögreglu um hraðamælingar og að þeir séu sýnilegir í þorpinu. Bæði Lögreglan á Vestfjörðum og Vegagerðin hafa sýnt þessu skilning og voru fulltrúar lögreglu mættir í gær og aftur í dag að fylgjast með. Um leið og við vonumst eftir árangri af smá "átaki" í þá átt að lækka umferðarhraðann sýnum við gott fordæmi.

Með kærri kveðju,

Bragi Þór Thoroddsen 

ţriđjudagurinn 23. júlí 2019

Gönguhátíđ í Súđavík

Dagna 2. - 6. ágúst 2019 (verslunarmannahelgina) verður gönguhátíð í Súðavík. Gönguhátíðin er á vegum Göngufélags Súðavíkur, Súðavíkurhrepps og göngufélagsins Vesen og vergangur. Dagskráin ásamt helstu upplýsingum er hér á síðunni. Er boðið upp á gönguferðir með leiðsögn og uppákomur tengdar hátíðinni. Eitthvað fyrir alla aldurshópa, byrjendur og lengra komna.  

Gönguhátíð í Súðavík um verslunarmannahelgina 2019

Um verslunarmannahelgina 2. – 6. ágúst verður hin skemmtilega gönguhátíð í Súðavík haldin í fimmta skipti. Fjölbreyttar göngur verða á dagskrá fyrir fólk á öllum aldri og fjörugar uppákomur á kvöldin.

Gönguhátíðin í Súðavík er samvinnuverkefni göngufélags Súðavíkur, gönguklúbbsins Vesens og vergangs og Súðavíkurhrepps. Auk þess er samstarf við Ferðafélag Ísfirðinga og fleiri aðila.

Miðstöð gönguhátíðarinnar er í Jóni Indíafara í Grundarstræti og þar verður opið að mestu leyti alla helgina og hægt að kaupa armband, fá hafragraut og kaffi og fá upplýsingar um dagskrána.

Fylgist með á Facebook: https://www.facebook.com/gonguhatid/

Dagskrá

Föstudagur 2. ágúst

Kl. 17  Fjölskylduganga að Lambárgili í Hestfirði

Keyrt frá Jóni Indíafara í Súðavík kl. 17 og bílum lagt í botni Hestfjarðar. Gangan hefst líklegast kl. 17:40. Gengið verður gengið inn að Lambárgili þar sem eru gríðarlega fallegir fossar. Gangan er við flestra hæfi. Vegalengd ca 2 km, hækkun takmörkuð og gangan tekur klukkutíma. Barði Ingibjartsson leiðsegir. Stefnt er á að vera með léttar veitingar í gilinu.

Kl. 21:00 Brenna á fjörukambi neðan Aðalgötu, utan kirkju 

Takið með söngröddina og góða skapið. Á eftir verður hist á Jóni Indíafara í létta stemningu þar sem fólk tengist göngufélögum. Vegna þurrka verður ekki lagt að hafa brennu í gömlu sundlauginni, en verður góð stemmning við sjóinn.  

Laugardagur 3. ágúst

08:00-10:00 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti og kynning á göngum dagsins

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Hist verður á Jóni Indíafara. Grauturinn er í boði fyrir fólk með armband en kostar annars kr. 500, einnig er kaffi á könnunni og te í boði. Um kl. 8:30 verður fjallað um göngur dagsins.  

09:00 Vatnshlíðarfjall í Álftarfirði (þrír skór)

Gengið verður á Vatnshlíðarfjall sem er í botni Álftafjarðar með Hattardal og Seljadal á hvora hönd. Magnað útsýni yfir Álftafjörðinn. Fólk kemur saman við Jón Indíafara í Súðavík kl. 9 og sameinast í bíla í botn Álftafjarðar. Farið er hæst í 650 m hæð yfir sjávarmáli og gangan tekur ca sex tíma. Fararstjóri Anna Lind Ragnarsdóttir.

09:00 Í fótspor Harry Eddom (tveir skór)

Í febrúar árið 1968 gekk aftakaveður yfir Vestfirði og á tveimur dögum fórust 25 manns af tveimur togurum og einum báti. Harry Eddom var sá eini sem bjargaðist af breska togaranum Ross Cleveland og náði að komast í land við Seyðisfjörð í Djúpinu og ganga inn í botn fjarðarins í brunagaddi þar sem hann fannst. Í göngunni verður byrjað á því að ganga út að Hestfjalli og svo niður að sjó þar sem Eddom kom að landi og svo er gengið í fótspor hans inn í fjarðarbotninn þar sem hann fannst fyrir tilviljun eftir að allir höfðu talið hann af. Fólk kemur saman við Jón Indíafara í Súðavík kl. 9 og sameinast í bíla í botn Seyðisfjarðar. Farið er hæst í 250 m hæð yfir sjávarmáli og gangan tekur ca fjóra tíma. Fararstjóri Barði Ingibjartsson. 

Kl. 17 Síðdegisganga um þorpið – einn skór

Fjallað um þætti úr sögu Súðavíkur m.a. fyrstu hvalveiðistöðina á Íslandi á Langeyri, svæðið þar sem snjóflóðið féll 16. janúar 1995, Raggagarð og fleira.

Leiðsögumaður: Steinn Ingi Kjartansson

Hist við við Jón Indíafara í Súðavík kl.17:00 

Kl. 20:00 Sameiginlegt grill í Raggagarði

Grillin verða orðin heit kl. 20 og hægt að koma með eigið kjöt á grillið eða kaupa grillaðar pylsur á vægu verði. Pappadiskar og hnífapör verða á staðnum. Spiluð verður létt tónlist.

Raggagarði hefur verið líkt við risastóra leikskólalóð þar sem hægt er að gleyma sér í fjölbreyttum leiktækjum, rennibrautum og rólum. Ef veður er ekki nógu gott verður hið sameiginlega grill flutt niður að Samkomuhúsi og þar verður kynt upp í tunnugrillinu og þá geta gestir borðað innandyra.  

Kl. 22 Dansleikur í Samkomuhúsinu í Súðavík

Fjörugt ball í framhaldi af grillinu þar sem dansað verður inn í nóttina. Gestir koma með drykkina með sér. Ókeypis fyrir þá sem eru með gönguarmband en kostar annars kr. 1500.

 

Sunnudagur 4. ágúst

08:00-10:00 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti og kynning á göngum dagsins

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Hist verður á Jóni Indíafara. Grauturinn er í boði fyrir fólk með armband en kostar annars kr. 500, einnig er kaffi á könnunni og te í boði. Um kl. 8:30 verður fjallað um göngur dagsins. 

9:00 Kaldbakur (2 skór)

Stefnan er tekin á hæsta fjall Vestfjarða. Við hittumst við Jón Indíafara í Súðavík kl. 9 og tökum samflot í bílum. Farið verður frá Bónus Ísafjarðarmegin kl. 9:30. Svo verður gengið á Kaldbak. Vegalengd ca 7 km, hækkun ca 500 m og göngutími 4-5 tímar.

Leiðsögn: Barði Ingibjartsson 

12:00 Ögurganga

Gengið frá Ögri og upp á útsýnisstað þar sem má sjá glæsilegt útsýni yfir Skötufjörð, Vigur, Ísafjarðardjúp og Æðey. Þarna eru einnig mestu hvalaslóðir Djúpsins og algengt að sjá hnúfubaka í ætisleit. Hist er við samkomuhúsið í Ögri, hægt að leggja bílum þar og lagt af stað kl. 12.  Leiðsögn: Guðfinna Hreiðarsdóttir. Vegalengd: ca 6 km og hækkun 250 m og göngutími um 2 tímar. Verð fyrir manninn er kr. 1500 og er greitt á kaffihúsinu í Ögri (sama verð fyrir börn og fullorðna). Innifalið að fá kaffi/te/kakó og kökusneið í lok göngu á kaffihúsinu í Ögri.

Athugið að það tekur rúman klukkutíma að keyra frá Súðavík að Ögri.  

18:30 Kynt upp í grillinu fyrir utan Jón Indíafara 

Kl. 21:00 Söguganga í Kambsnesi (einn skór)

Stutt ganga þar sem farið verður með sögur úr Djúpinu. Meðal annars af Vébirni hinum ástfangna, af fólki í Folafæti og af skáldinu Magnúsi á Þröm sem birtist svo í Heimsljósi Laxness. Takið með heitt á brúsa og hugsanlega hjartastyrkjandi því að fjallað verður um ástir, örlög, hamingju og einnig ógæfu í Djúpinu.  Vegalengd innan við 1 km og tekur 1-2 tíma.

Hist verður við Jón Indíafara og keyrt af stað kl. 20:40, það tekur um 15 mínútur að keyra fyrir fjörðinn og á Kambsnes. Lagt verður á útsýnissvæðinu andspænis Súðavík þar sem sér yfir Álftafjörð, Súðavík og nágrenni. 

 

Mánudagsmorgunn 5. ágúst

08:00-10:00 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti og kynning á göngu dagsins

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Hist verður á Jóni Indíafara. Grauturinn er í boði fyrir fólk með armband en kostar annars kr. 500, einnig er kaffi á könnunni og te í boði. Um kl. 8:30 verður fjallað um göngu dagsins. 

Kl. 9  Morgunganga á Kofra (635m) (tveir skór)

Í fylgd með Önnu Lind Ragnarsdóttur og Barða Ingibjartssyni, en líklega hefur enginn (lífs eða liðinn) gengið oftar á Kofrann en Barði. Barði verður með sögustund á toppnum um kraftinn í Kofra. Hámark 30 manns.

Vegalengd: 3 km. Hækkun 600 m, Göngutími: 4-5 tímar.

Leiðsögn: Anna Lind Ragnarsdóttir og Barði Ingibjartsson.

Almennar upplýsingar

Verðskrá:

Verð í styttri göngur er kr. 1500.

Verð í lengri göngur er kr. 3000.

Verð á gönguarmbandi er kr. 7.000 (innifalinn er aðgangur að öllum gönguferðum, gisting á tjaldsvæði Súðavíkur, hafragrautur á morgnana og aðgangur að balli í Samkomuhúsinu á laugardagskvöldinu).

Armband kostar kr. 1500 fyrir börn á grunnskóla- og leikskólaaldri og 50% afsláttur er fyrir 16-18 ára. Athugið að ganga í Ögri er ekki innifalin í armbandi.

Miðstöð gönguhátíðarinnar er í Jóni Indíafara í Grundarstræti og þar verður hægt að fá upplýsingar um hvaðeina sem tengist gönguhátíðinni, kaupa armband (og fá afhent fyrirframgreitt armband) eða aðgang að einstökum göngum, fá upplýsingar um dagskrá, ráðgjöf um búnað, borða hafragraut á morgnana og drekka kaffi og te allan daginn, þar verður líka létt stemning á föstudags- og sunnudagskvöldinu.    

Aðrar gönguleiðir

Hægt er að prófa ýmsar aðrar gönguleiðir á svæðinu með Wapp-Walking app. Gönguleiðir eru í Heydal, Vatnsfirði, á Hvítanesi við Skötufjörð, í Álftafirði og tvær leiðir eru í Skutulsfirði og nokkrar leiðir við Korpudal í Önundarfirði.  

Aðstandendur hátíðarinnar:

Í forsvari fyrir gönguhátíðina er Einar Skúlason – GSM 663 2113.

Gönguklúbburinn Vesen og vergangur er á Facebook og með rúmlega 12.000 meðlimi. Farið er í ca 3-5 gönguferðir á viku. Forsvarsmaður er Einar Skúlason: https://www.facebook.com/groups/vesenogvergangur/

Göngufélag Súðavíkur stendur fyrir reglubundnum gönguferðum í Álftafirði og víðar. Formaður er Barði Ingibjartsson.

Súðavíkurhreppur er sveitarfélag við Ísafjarðardjúp og nær frá Ísafjarðarbotni að Súðavíkurhlíð við Álftafjörð.

Einnig er samstarf við Ferðafélag Ísfirðinga sem stendur fyrir fjölbreyttri göngudagskrá allt árið.

Réttur er áskilinn til að breyta um áætlun vegna veðurs. Ef aðstæður eru varasamar á fjöllum, verður boðið upp á láglendisgöngur í staðinn. Fólk tekur þátt í gönguferðum á eigin ábyrgð og er þátttakendum bent á að hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

 

mánudagurinn 15. júlí 2019

Frá sveitarstjóra

1 af 2

Af stjórnsýslunni er það að frétta að enn eru tafir hjá Skipulagsstofnun með afgreiðslu aðalskipulags Súðavíkurhrepps og deiliskipulags Langeyrar. Hafði stofnunin gefið sér í síðasta lagi þann 15. júlí með afgreiðslu en hefur nú enn boðað tafir. Enn verður því bið á auglýsingu og opnun á athugasemdir við skipulagið. Líkt og kunnugt er varðar skipulag m.a. fyrirhugaða uppbyggingu hafnarmannvirkja innan Langeyrar, en sú framkvæmd er að hluta til háð umhverfismati og eru allar tafir því óheppilegar. Mál skýrast ekki hér í hreppi meðan ekkert gerist í skipulagsmálum.

"Smærri mál" eru því til afgreiðslu og eftirfylgni í sveitarstjórn og á borði sveitarstjóra. Hafnarmál eru fyrirferðamikil í Súðavíkurhreppi um þessar mundir í einni eða annari mynd. Svo sem sjá má af brygjuenda er ástand hafnar ekki gott í Súðavík, en malarrif hefur vaxið við enda bryggjunnar og er hún vart skipgeng. Verður því kannað með viðkomandi yfirvöldum hvort unnt sé að fara í aðgerðir til þess að dýpka höfnina og gera hana skipgenga enda höfnin mikilvægt samgöngumannvirki og öryggi falið í að hafa hana í lagi.  

Rætt hefur verið um umferðarhraða um þorpið. Einhverjir sem aka um þorpið virðast ekki átta sig á því að 50km hámarkshraði er um Aðalgötu. Málið var tekið upp á fund sveitarstjórnar og hafa íbúar rætt við sveitarstjóra um þörf á úrbótum. Verður því  reynt að sporna við hraðakstri um Aðalgötu með þeim leiðum sem eru færar án þess að skerða umferðaröryggi. Sveitarstjóri mun hafa samband við lögreglu og Vegagerðina um að taka upp sýnilega hraðagæslu og mælingar og jafnvel frekari merkingar eða úrlausnir áður en slys hlýst af. Bæði fólksbílar og stærri farartæki aka mikið þessa leið og öllum augljós hætta þeim sem eru fótgangandi, enda ekki gert ráð fyrir hraðri umferð um þorpið. 

Unnið var við gyrðingu við Dvergastein í maí og júní, frá fjöru og upp í fjall. Gyrðingin hefur því verið á reynslutíma og virðist hafa verið að mestu fjárheld. Það hefur þó verið með undantekningum og hafa einhverjir ferfætlingar nýtt sér glufur, en straumur er ekki á öllum vírum rafmagnsgyrðingarinnar. Verður reynt að bæta úr því og fylgst með því hvort vart verður fjár innan gyrðingar og í þorpi.

Margt ferðamanna hefur lagt leið sína í Súðavík og áfram um Djúp. Bæði er talsvert um komur hópa í Melrakkasetur og á sýningu myndar á vegum setursins. Mikil umferð er sýnileg um þorpið og talsverður hópur ferðamanna leggur leið sína í Grundarstræti að leita þjónustu. Bensíndæla er við Grundarstræti en þar er nánast upp talin þjónusta í boði almennum ferðamanni sem ekki er að heimsækja setur eða skipulagða ferð. Er miður að ekki sé hér einhvers konar greiðasala, matvöruverslun eða amk hægt að stoppa í pylsu og kók, kaffi og kleinur eða viðlíka. Hér hækkar bara bensín á þjónustulausri dælu og snnilega eitt hæsta bensínverð á landinu. Sveitastjóri hefur vakið athygli markaðsdeildar Orkunar á því - mitt í ferðamannavertíð hér vestra.    

Melrakkasetur missti á dögunum annan refinn, en hann féll frá skyndilega. Refirnir hafa haft talsvert aðdráttarafl ferðamanna ásamt safninu sjálfu. Samkvæmt upplýsingum frá forstöðumanni fékkst annar refur, yrðlingur frá vori, og er kominn í fóstur í safninu og fær því sá eftirlifandi einhvern félagsskap fljótlega og ferðamenn hafa meira að sjá. Er vel að refirnir verði að minnsta kosti tveir.

Svo sem kunnugt er hefur Melrakkasetur fært móttöku sína og myndasýningu í Grundarstræti og er því heldur meira líf yfir sumarið í húsinu en var. Helst þyrfti þó að efla starfsemi í húsinu öllum til gagns, ekki síst íbúum Súðavíkrhrepps. vantar sárlega samkomustað fyrir íbúa Súðavíkurhrepps og eitthvað til tilbreytingar í mat eða drykk hér á svæðinu. Jafnvel bara til að drekka kaffið utan vinnutíma í félagsskap.  

Vestfjarðavíkingarnir lögðu leið sína í Súðavík. Ein þrautin fór fram í Raggagarði, en þar "pressuðu" heljarmennin steina um og yfir 100 kg. Keppnin fór fram í góðu veðri og var mætti nokkur hópur fólks að berja heljarmennin augum. Magnús Ver fór fyrir keppninni og var að venju myndatökuhópur með í för. Verður sýnt frá keppninni í vetur á RÚV. Súðavíkurhreppur styrkir keppnina að venju og bauð til hádegisverðar í Grundarstræti að lokinni keppni. Allt tókst þetta vel til og voru víkingarnir að vonum ánægðir með keppnina og veitingar.

Læt þetta duga í bili. Það er sumar og veðrið með eindæmum gott.

Kær kveðja,

Bragi Þór Thoroddsen  

ţriđjudagurinn 2. júlí 2019

Heimsókn á Bíldudal.

Hópurinn međ leiđsögn gćđastjóra 1
Hópurinn međ leiđsögn gćđastjóra 1
1 af 6

Góðan daginn.

Eins og kunnugt er í Súðavíkurhreppi og víðar, eru áform um að reisa hér verksmiðju innan Langeyri í Álftarfirði. Nýtt aðalskipulag Súðavíkurhrepps, sem áður hefur verið minnst á, gerir ráð fyrir slíkri uppbyggingu. Þá bera fundargerðir og kynningar hér á stað ráð fyrir því að í nákominni framtíð geti slík verksmiðja orðið að veruleika.

Um síðastliðna helgi fór ég  á Bíldudal undir því yfirskini að taka þátt í bæjarhátíðinni Bíldudals grænar. Er það ekki í frásögur færandi nema sú hátíð var fjölsótt og var margt í boði fyrir heimamenn og þá sem lögðu leið sína til Bíldudals.

Einn af auglýstum dagskrárliðum um helgina var boð gesta og gangandi í húsakynni Íslensks kalkþörungs ehf. - í kalkþörungaverksmiðjuna á Bíldudal. Er skemmst frá að segja að talsverð aðsókn var í þessa kynningu og varð ég að gera þrjár tilraunir til að "komast að". Notaði ég þá tækifærið til þess að skoða og fá kynningu á starfseminni og fá þannig beint upplýsingar um það sem kann að vera tengt starfseminni sem jafnvel er áformuð hér. Er enda uppbygging hafnarmannvirkja á samgönguáætlun hér innan Langeyri.

Ýmislegt hefur verið rætt um ágæti og það sem miður hefur farið við uppbyggingu og starfsemi þessarar verksmiðju á Bíldudal. Ég hef fengið upplýsingar frá heimamönnum og nú um síðastliðna helgi frá forsvarsmanni - Halldóri Halldórssyni. Er það helst til að telja að ýmsu hefur fleytt fram í þekkingu á uppbyggingu verksmiðju til að vinna kalkþörung, enda hófst bygging verksmiðjunnar á Bíldudal árið 2005 og hún því orðin um 14 ára gömul. Heimamenn og forsvarsmenn (eigendur) hafa lært af rekstri slíkrar verksmiðju í nábýli við íbúabyggð enda er verksmiðjan staðsett á Bíldudal fyrir nær miðju þorpinu.

Skemmst er frá að segja að kynning á starfseminni var fræðandi og gott veganesti fyrir mig hvað varðar það að vita hvað er að fara hugsanlega í gang hér í Súðavíkurhreppi. Læt ég fylgja þessari færslu nokkrar myndir sem ég tók við þetta tilefni. Til gamans er mynd af húsnæði sem Íslenskur kalkþörungur lét reisa á Bíldudal fyrir starfsmenn sína. Kann ég Halldóri og Almari framleiðslustjóra bestu þakkir fyrir góða kynningu á starfseminni sem var fræðandi og uppbyggileg.

 

Bestu kveðjur,

Bragi Þór  

ţriđjudagurinn 25. júní 2019

Júnímánuđur í Súđavíkurhreppi.

Þá er langt liðið á júní og veðrið hefur verið fallegt að mestu allan mánuðinn á Vestfjörðum, ekki síst hér í Súðavíkurhreppi. Sólríkur mánuður og veðrið almennt þannig, helst hefur skort á rigningu líkt og víðar um land þannig að gróður fer að láta á sjá. Örlítil skúr sl. sólarhring hefur gert gott. Gefið hefur á sjó flesta daga fyrir strandveiðar og unnt að stunda sjóstangveiðina. 

Af málum hreppsins er það helst að vænst er þess að Skipulagsstofnun skili af sér skipulaginu fyrir Súðavíkurhrepp til athugasemda - jafnvel í vikunni.  Þá tekur við 6 vikna opið ferli þar sem unnt er að koma að athugasemdum. Þar með má segja að líklegt má telja að undir haustið megi vænta þess að unnt verði að staðfesta nýtt skipulag. Út frá því megi vinna framtíðaráform fyrir uppbyggingu í Súðavíkurhreppi, vonandi samfélaginu öllu til góðs. Sá sem þetta ritar er að minnsta kosti bjartsýnn á að það komist einhver hreyfing á atvinnuuppbyggingu í hreppnum.

Undanfarna daga hafa verið framkvæmdir í Súðavík. Búið er að gera við og fylla holur í götum gömlu byggðarinnar. Þá eru framkvæmdir alla daga í Raggagarði. Er það mikið gleðiefni hversu mikið hefur þar unnist og mun garðurinn án efa fá enn meira aðdráttarafl með þeirri viðbót sem komin er og væntanleg. Þá hafa verið nokkuð reglulegar komur ferðamanna í tengslum við Melrakkasetur og sýningu sem fram fer í Grundarstræti. Ferðamenn hafa í það minnsta ekki verið sviknir af veðri og hefur Súðavík skartað sínu fegursta, en ekki síst með aðkomu yngstu verkamannanna sem hafa verið undanfarna daga að störfum fyrir sveitarfélagið. 

Refaskytta er mætt á svæðið og hefur þegar hafið störf og unnið á ref. Verður hann að störfum næstu dagana við hefðbundna grenjavinnslu. Ábendingar um grenstæði og mink á svæðinu eru vel þegnar. Refaskyttan hefur minkahund og mun sinna þeim verkefnum sem upp koma. Unnt er að hafa samband við skrifstofu Súðavíkurhrepps það varðandi.  

Undirritaður mun samkvæmt því sem rætt hefur verið á fundum sveitarstjórnar og þeirra nefnda sem hafa fundað undanfarið, hrinda í framkvæmd eftir getu eftirfarandi:

* Úrlausn á aðkallandi verkefnum vegna skólahúsnæðis, en endurbóta er þörf vegna leka í matsal auk þess sem ýmis önnur brýn viðhaldsverkefni hafa komið upp. 

* Stefnt er léttu viðhaldi annarra eigna sveitarfélagsins, en því verður að einhverju leyti forgangsraðað. 

* Framundan er vinna við frekara samstarf við nágranna sveitarfélög um slökkvilið. Fréttir af þeim áformum hafa verið kunngerðar á bb.is

Undirritaður mun reyna eftir föngum að upplýsa um það sem er á döfinni og varðar beint íbúa hreppsins, bæði Súðavík og byggð í Djúpi, eftir því sem því verður við komið. Þá er jafnframt óskað ábedinga um efni sem æskilegt er á vef sem þessum. Ný heimasíða mun líta dagsins ljós á næstu mánuðum, síðan er klár á sama léni en uppsetning efnis og kennsla á umsjón síðunnar er eitthvað sem þarf að fara fram fyrst. Eru hugmyndir um að hafa stjórnsýsluna eitthvað opnari en verið hefur, en það verður kynnt síðar og mætti jafnvel bera undir könnun íbúa.

Fiskeldisfrumvarp hefur verið tíðrætt í helstu fréttamiðlum landsins. Mun undirritaður ekki íþyngja íbúum hreppsins með því hér að öðru leyti en því að samvinna er með sveitarfélögum Vestfjarða um að tala fyrir atvinnuuppbyggingu, þrátt fyrir að áherslur sveitarfélaganna séu misjafnar eftir því hver aðkoma fiskeldis er á fjörðunum. 

Ég er eflaust að gleyma að nefna eitthvað sem stendur ykkur nær í fréttaflutningi, en læt þetta duga í bili. 

Með kærri kveðju,

Bragi Þór Thoroddsen

 

Eldri fćrslur
Vefumsjón